— Tölvuteikning/United Silicon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Öllum fyrirvörum var létt af raforkusölusamningi Landsvirkjunar og United Silicon hf. í gær. Samningurinn var undirritaður í mars síðastliðnum og samþykktur af stjórnum beggja félaga.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Öllum fyrirvörum var létt af raforkusölusamningi Landsvirkjunar og United Silicon hf. í gær. Samningurinn var undirritaður í mars síðastliðnum og samþykktur af stjórnum beggja félaga.

Landsvirkjun mun samkvæmt samningnum útvega rafmagn fyrir kísilverksmiðju sem United Silicon ætlar að reisa í Helguvík. Verksmiðjan mun nota 35 MW af afli og er gert ráð fyrir að hún hefji starfsemi á fyrri hluta ársins 2016. Búið er að tryggja fjármögnun verkefnisins og verður hún í höndum Arion banka annars vegar í formi hefðbundinnar verkefna- og lánsfjármögnunar og hins vegar í útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði, að því er sagði í fréttatilkynningu félaganna tveggja.

Framkvæmdir við kísilverksmiðjuna eiga að hefjast af fullum krafti í þessum mánuði, samkvæmt áformum United Silicon. Jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar á svæðinu. Stefnt er að því að rekstur verksmiðjunnar hefjist 1. apríl 2016.

Orkan er til

„Þetta er orðinn skuldbindandi samningur fyrir báða aðila, sem er fagnaðarefni,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Hann sagði að orkan sem Landsvirkjun ætlar að afhenda United Silicon væri til. Samningurinn kallaði því ekki á frekari virkjanaframkvæmdir. En er samningurinn teikn um að nú sé að hefjast nýtt skeið í uppbyggingu iðnaðar og orkuvera?

„Það ræðst mikið af aðstæðum á erlendum mörkuðum. Við sjáum að nú er ákveðin uppsveifla í kísilmálmiðnaði. Þess vegna er mikill áhugi á slíkri uppbyggingu á Íslandi. Ég á von á að þegar aðrar iðngreinar taka við sér þá sjáum við þær líka sýna áhuga,“ sagði Hörður. Hann sagði að Landsvirkjun mundi ekki gera frekari orkusölusamninga án nýrra virkjana. Undirritaður hefur verið samningur vegna iðnaðaruppbyggingar á Bakka en ekki er búið að aflétta fyrirvörum af honum. Verði sá samningur að veruleika er horft til uppbyggingar raforkuvers á Þeistareykjum.

Mörg fyrirtæki eiga í viðræðum við Landsvirkjun um möguleg orkukaup. Hvort af þeim getur orðið er háð því að Landsvirkjun fái heimild til frekari uppbyggingar raforkuvera. Hörður sagði að fjallað væri um möguleg næstu virkjanaskref í Rammaáætlun og síðan þyrftu stjórnvöld að ákveða um þau. Hann sagði Landsvirkjun einkum líta til virkjanamöguleika á Þjórsársvæðinu. Þar á meðal væri stækkun Búrfellsvirkjunar og eins nýjar virkjanir í Neðri-Þjórsá.

Fyrsti áfangi af fjórum

„Þetta er risastórt skref. Nú verður ekki aftur snúið,“ sagði Magnús Garðarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri United Silicon hf. í Helguvík, um afléttingu fyrirvara í raforkusölusamningi við Landsvirkjun.

Undirbúningur að byggingu fyrsta áfanga verksmiðju United Silicon hefur staðið í tvö ár. Magnús sagði að þessi nýi iðnaður mundi flytja inn mikla þekkingu og tækni.

Undanfarið hafa tólf verið við störf á verksmiðjusvæðinu í Helguvík en 250-300 manns munu vinna við að reisa fyrsta áfanga verksmiðjunnar. Verksmiðjuhúsið verður 41 metra hátt og um 5.000 fermetrar. Þar inni verður risastór ofn sem framleiðir kísilinn.

Þegar verksmiðjan hefur starfrækslu munu vinna þar um 60 starfsmenn. Stefnt er að því að reisa alls fjóra áfanga og setja upp nýja ofna verksmiðjunnar á um 30 mánaða fresti, fáist til þess næg orka. Í fullbyggðri verksmiðju munu starfa um 150 manns eftir tíu ár.

Hver áfangi verksmiðjunnar mun framleiða 21.500 tonn af 99,1% hreinum kísli á ári. Fullbyggð mun verksmiðjan því framleiða 86.000 tonn á ári. Kísill er hálfleiðari og mikið notaður í hátækniiðnaði.

Magnús sagði að fyrirhuguð stækkun verksmiðjunnar mundi ráðast af því hvort til yrði næg raforka og hvenær hún yrði tilbúin til afhendingar.