Kristín Hafdís Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 26. nóvember 1974. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 9. júlí 2014.

Foreldrar hennar voru Jón Rúnar Oddgeirsson, f. 28.10. 1938, d. 28.7. 2006, og Hrafnhildur Ingólfsdóttir, f. 12.4. 1942, d. 20.5. 2014. Systkini Kristínar Hafdísar eru: 1) Kristín Jónsdóttir, f. 30.10. 1962. 2) Ingólfur Oddgeir Jónsson, f. 9.12. 1968, í sambúð með Guðrúnu Sigurhjartardóttur, f. 5.3. 1965. Börn þeirra eru: a) Rut Ingólfsdóttir, f. 12.7. 1996, b) Tinna Ingólfsdóttir, f. 23.4. 2000. Fyrir átti Ingólfur dóttirina Silju Ástudóttir, f. 18.10. 1992. 3) Marta Ólöf Jónsdóttir, f. 15.2. 1981. Börn hennar eru: a) Gabríel Andrés Mörtuson, f. 26.8. 1999. b) Hrafnhildur Salome Sigurðardóttir, f. 3.11. 2001.

Börn Kristínar Hafdísar eru: 1) Ingólfur Andri Sigfússon, f. 4.10. 1995. Faðir hans er Sigfús Aðalsteinsson, f. 26.2. 1961. 2) Hörður Róbert Árnason, f. 28.7. 1998. Faðir hans er Árni Jón Harðarson, f. 13.5. 1973. 3) Mónika Rán Kristgeirsdóttir, f. 6.1. 2005. Faðir hennar er Kristgeir Kristinsson, 24.11. 1978.

Kristín Hafdís vann við verslunar- og þjónustustörf lengstan hluta ævi sinnar. Hún og fjölskylda hennar bjuggu um stund á Spáni og einnig vann hún á meðferðarheimilinu Götusmiðjunni. Kristín Hafdís lauk námi við Ráðgjafaskóla Íslands í desember 2010.

Kristín Hafdís verður jarðsungin frá Grafarvogskirkju í dag, 18. júlí 2014, kl. 13.

Mamma, ég spyr mig af hverju englar eins og þú fara svona fljótt frá okkur, en fæ ekkert svar. Sit við tölvuna mína, skrifa minningarorð um þig, fyrir mér er þetta ekki raunverulegt. Eins sárt, eins sorglegt og það er þá ertu farin. Ég veit að hvar sem þú ert núna þá vissirðu að þegar að því kæmi fyrr eða seinna hvað væri eftir síðasta andardrátt, þú vissir af friðsömum og kærleiksríkum stað og það er allt sem ég bið um, að þér líði vel.

Ég rifja upp allt sem við fjölskyldan höfum gert og ég þakka guði fyrir þá yndislegu tíma sem við höfum átt saman. Allar þessar minningar varðveiti ég og mun aldrei gleyma. Við systkinin eigum eftir að eiga mörg kvöldin þar sem ekkert kemst að nema hlátur þar sem húmorinn okkar var bara einsdæmi. Hvernig sem aðstæður voru var alltaf stutt í brosið þitt og grín. Þó að þú sért farin frá mér, Móniku systur og Herði bróður þá veit ég að hvað sem við gerum eða hvert sem við förum þá fylgirðu okkur. Ég veit að þú munt hjálpa okkur í gegnum allt sem á vegi okkar verður næstu ár rétt eins og þú hefur alltaf gert. Þú stóðst með okkur í gegnum allt, hvað sem það var þá varstu alltaf til staðar og fannst alltaf á þér þegar einhverjum leið illa, og þú gerðir allt í þínu valdi til þess að hjálpa öðrum sem áttu erfitt. Mamma – fallegasta, lífsglaðasta, yndislegasta og heimsins besta móðir. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér því að það hvar ég stend í dag er þér að þakka. Love you.

Í huganum reika ég heim til þín móðir

og hugsa um forna og liðna tíð.

Þá finnst mér sem áður þú faðminn mér bjóðir

og fagnandi kyssir mig ástrík og blíð.

Þó að hverfi mér æska og alvara lífsins

um eirðarlaust sjávardjúp hreki mitt fley

þó hljóti ég mæðu í mótgangi kífsins

móðir mín kæra ég gleymi þér ei.

(Svafar Þjóðbjörnsson.)

Þinn heimsins stoltasti sonur,

Ingólfur Andri Sigfússon

Þú ert farin og ég hugsa bara hversu ég sakna þín og hve óréttlátt og ósanngjarnt lífið getur verið. Hvers vegna varst þú tekin frá okkur? Þú sem varst holdgervingur alls þess besta sem ein manneskja getur haft til að bera. Þú varst hjálpsemin uppmáluð, varst alltaf að gera eitthvað fyrir aðra og hugsaðir alltaf hvernig þú gast orðið öðrum að liði. Þú varst líka hreint ótrúleg mamma og það vita þeir sem hafa kynnst börnunum þínum þremur sem eru hvert öðru fallegra að innan sem utan. Þú varst líka húmoristi fyrir allan peninginn og jafnvel á síðustu dögunum þínum þar sem þú lást banaleguna gast þú djókað með ótrúlegustu hluti. Þú varst fram úr hófi snyrtileg því fárveik sástu samt fulla ástæðu til að taka niður gardínur og ljósakrónur til að þrífa. Þú varst með einstakt auga fyrir fallegum hlutum og það sást á öllu í kringum þig. Þú varst með svo stórt hjarta og varst svo ofboðslega tilbúin til að gefa af því. Við áttum margar æðislegar stundir saman þó við hefðum ekki þekkst í langan tíma. En tíminn er ekki aðalatriðið heldur hvernig honum var varið og sá tími sem við áttum gerði þig að nánasta vini sem ég hef átt, það sló allt í takt hjá okkur. Þú grínaðist með að þó við hefðum ekki þekkst lengi þá hefðum við verið nógu náin til að tala um hægðir og þá hló ég upphátt og rúmlega það. Við hlógum reyndar óendanlega mikið saman, hlustuðum mikið á alla þessa tónlist sem við elskuðum bæði svo mikið og við töluðum endalaust mikið, aðallega þú. Tíminn sem við áttum er eitthvað sem ég geymi í hjarta mínu þar til við hittumst aftur.

Við vorum ekki búin að þekkjast lengi þegar vondu fréttirnar komu í febrúar og við tók tími með allskonar tilfinningum. Ósanngirni er orðið sem ómar í höfði mínu og hjá öllum sem þig þekktu. En þú tókst þessu sem hverju öðru verkefni. Breyta þessu, breyta hinu, bæta við hérna, minnka við þarna, hætta þessu og hætta hinu og á endanum sigra. Krafturinn í þér var óendanlegur og það var svo auðvelt að hrífast með lífsspeki þinni og trúa á að jákvæðar hugsanir umfram annað séu það sem bætir lífið. Jákvæðnin og húmorinn var í öllu. Ég lærði óendanlega mikið af þér, elskan mín. Eitt af því síðasta sem þú sagðir við mig var: Lifðu lífinu vel, Steini minn, og vandaðu þig.

Ég rifja upp kvöldið sem við kynntumst og dönsuðum alla leið í það að vera kölluð Danny Zuko og Sandy. Ég rifja upp kvöldin sem við sátum og spiluðum, hlustuðum á Bubba, Pink Floyd og fleiri snillinga og töluðum um væntingar okkar um framtíðina og ég rifja líka upp móment eins og þegar ég rakaði af þér hárið því þú vildir stjórna því hvenær og hvernig það færi og svo tókst þú mig með þér að velja hárkollur.

Ég á eftir að sakna stundanna með þér og ég sakna þín núna óendanlega, elsku, fallega, Kristín mín, sem hefur nú verið send á nýjar slóðir til að halda áfram að hjálpa öðrum. Þú trúðir á æðri máttarvöld og líf eftir dauðann og ég vil hafa það eftir uppáhaldstónlistarmanni okkar beggja að: „Ef það er líf eftir þetta líf, þá mun ég elska þig líka þar.“

Hvíldu í friði, elskan mín.

Þorsteinn Þorsteinsson (Steini).

Þú leiddir mína litlu hendi og við erum staddar á Miðfelli í Þingvallasveit. Við höfðum gengið niður að vatni og stöndum hljóðar um stund, allt í einu segir þú: „Hefur þú nokkurn tíma séð nokkuð jafn fallegt?“ Ég lít upp til þín og segi ekki neitt en hugsa: Nei, það er satt, þetta er það fallegasta sem ég hef séð. Það er svo stutt síðan við fórum saman á rúntinn í fallegu sveitina okkar þaðan sem við eigum svo margar fallegar minningar; vatnið hefur alltaf heillað og þangað löbbuðum við eins og við gerðum forðum daga þegar við vorum börn. Niður kinnarnar renna tárin, það er svo margs að minnast við þessa kveðjustund, elsku fallega systir. Þegar við eitt sinn klæddum okkur í gömlu kjólana hennar mömmu og settum vöfflur í hárið og máluðum okkur með rauðum varalit. Upphófust mikil hlátrasköll þegar mamma kom heim úr vinnu en við steinsváfum uppi í rúmi í allri múnderingunni. Þú varst svo stórkostlega orðheppin og alltaf var gaman þar sem þú varst og magnað að fylgjast með hvað þú fórst létt með það að koma fólki í gott skap og láta það hlæja. Við vorum meira en bara systur, við vorum bestu vinkonur og það var mér dýrmætt að eiga þig að. Að fylgjast með þér í þessum erfiðu veikindum var einstakt, þú varst svo ákveðin og styrkur þinn var eitthvað sem við hin dáðumst að og alltaf komstu með spaugilegt sjónarhorn á þær aðstæður sem þú varst í. Svo kærleiksrík og hjálpsöm að eftir var tekið. Elsku hjartans gullmolinn minn, þín verður sárt saknað og það er svo erfitt að kveðja þig. En nú kemur það í minn hlut að segja allar þessar frábæru sögur sem bæði þú hefur kennt mér og það sem við höfum brallað saman. Ég mun alltaf elska þig.

En ástin er björt sem barnsins trú,

hún blikar í ljóssins geimi,

og fjarlægð og nálægð, fyrr og nú,

oss finnst þar í eining streymi.

Frá heli til lífs hún byggir brú

og bindur oss öðrum heimi.

Sem móðir hún býr í barnsins mynd;

það ber hennar ættarmerki.

Svo streyma skal áfram lífsins lind,

þó lokið sé hennar verki.

Og víkja skal hel við garðsins grind,

því guð vor, hann er sá sterki.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson)

Þín litla systir,

Marta Ólöf.

Erfiðir mánuðir eru liðnir, tími þar sem skiptust á skin og skúrir. Sorg og ótti skiptust á við von og trú og aðdáun okkar, sem fylgdumst með, jókst stöðugt á því hvernig Kristín efldist við hver vonbrigði og hverja þraut með jákvæðni og trú. En svo kom að því að hún gat ekki meir. Hún átti ekki meira til. Sannkölluð hetja er fallin frá langt um aldur fram, hún sem elskaði lífið og lystisemdir þess. „Ég vil lifa,“ sagði hún við mig í okkar síðasta símtali fyrir fáum vikum.

Kristín og Árni Jón, sonur okkar hjónanna, voru saman í nokkur ár og eignuðust saman soninn Hörð Róbert sem verður 16 ára innan fárra daga. Leiðir þeirra skildi og fylgdi drengurinn móður sinni og hefur alist upp hjá henni, en verið mikið með föður sínum og föðurfólki.

Kristín var hrifnæm og lífgaði upp á tilveruna með glaðlegu fasi og hressileika og laðaði auðveldlega að sér fólk. Hún var listræn og smekkleg og glæsileg svo bar af. Hún var skapstór og leitandi sál, sem fór víða og fór hratt yfir, harðdugleg og rösk, hlífði sér ekki við vinnu og við að sjá sér og börnum sínum farborða. Hún var hlý og góð og vildi öllum vel.

Samskiptin hafa alltaf verið einhver þrátt fyrir að sambandi þeirra Árna Jóns hafi lokið fyrir mörgum árum. Síðast sá ég Kristínu við útför móður hennar, Hrafnhildar Ingólfsdóttur, 2. júní sl. Sjúkdómurinn hafði þá greinilega tekið sinn toll en hún var glæsileg að vanda og bar sig með reisn, en nú er dáin aðeins rúmum mánuði síðar.

Með sorg í hjarta kveð ég Kristínu Hafdísi og harma að henni skuli ekki hafa verið ætlaður lengri tími hérna megin grafar. Ég þakka henni fyrir viðkynninguna og að hafa fengið að eiga samleið með henni um tíma. Ég þakka henni fyrir son hennar, fallega og góða, Hörð Róbert, sem er svo líkur foreldrum sínum báðum. Hann er nú fluttur alveg til pabba síns sem mun styðja hann og styrkja hér eftir sem hingað til.

Samúð mína alla eiga börnin þrjú, Ingólfur Andri, Hörður Róbert og Mónika Rán, systkin Kristínar þau Marta og Ingólfur og þeirra fjölskyldur og aðrir ástvinir. Guð veri með þeim öllum.

Kristín Hafdís er dáin og farin, en hún mun lifa í börnum sínum og í hugum okkar sem þekktum hana og þótti vænt um hana. Blessuð veri minning hennar.

Freyja K. Þorvaldsdóttir.

Elsku Kristín mín, mikið er sárt að sjá á eftir þér frá börnunum þínum og lífinu.

Á meðan við vorum mágkonur áttum við margar góðar stundir saman þar sem við hlógum, grínuðumst og áttum trúnaðarsamtöl. Ég hef aldrei sagt þér síðan þá hvað mér þótti vænt um þig þó ég voni að þú hafir innst inni vitað það.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Elsku hjartans Höddi minn, Ingólfur og Mónika. Marta og börn, Ingólfur og fjölskylda. Orð geta ekki lýst hversu mikið ég finn til með ykkur. Minning um fallega konu með fallega sál lifir áfram í hjörtum okkar.

Ásta Pála Harðardóttir.

Elsku besta vinkona, ertu þá farin? Veröldin er heldur hljóð án þín, sakna strax hláturskastanna. Ekki hefði mig órað fyrir að við myndum kveðjast svo fljótt.

Bara eins og hafi gerst í gær að við vorum fjögur ný í ellefu ára bekk í Hjallaskóla, þú, ég, Rakelin okkar og auðvitað Ásinn okkar, öll nýflutt í Engihjallann. Með okkur tókst ómetanleg vinátta sem hélst alla tíð.

Við tvær byrjuðum víst snemma að skvísast, t.d. 12-13 ára stokkmálaðar með uppblásið hár á leið í Sundhöll Reykjavíkur. Man líka þegar við þríeykið nornirnar þrjár, einmitt á svipuðum aldri, ákváðum að mæta í sundurklipptum og krotuðum svörtum ruslapokum sem kjólum á grímuball í skólanum. Smá vesen í kjölfarið því það þurfti svo að þrífa allt pennakrotið sem klíndist víst á veggina af kjólunum.

Þetta sýnir vinskapinn vel, fengum hugmynd og framkvæmdum. Skoðaðist svo bara síðar hvort hugmyndin var heppileg eða ekki. Hver sem staðan var þá stóðum við saman. Í Engihjallanum var margt brasað og standa litrík unglingsár þar helst uppúr. Þar myndaðist líka góður kjarni sem heldur enn sambandi í dag.

Kannski mætti segja að þú lifðir þínu lífi aðeins hraðar en við hin. Stundum átti maður fullt í fangi með að ná utan um það nýjasta sem var á döfinni hjá þér þá stundina. Spennandi þó að heyra af og jafnvel fá að taka þátt í þínum ævintýrum. Stoltust var ég af því hve vel þú nýttir eigin reynslu í vinnu með ungmennum. Síðustu árin var þó komin meiri ró og stöðugleiki og þú meira andlega þenkjandi og leyfðir okkur hinum að njóta góðs af með flottum pælingum og viskukornum.

Sannarlega varstu kona sem eftir var tekið. Gullfalleg að innan sem utan, drottning í klæðaburði, hjartahlý, traustur vinur, jákvæð, skemmtileg og uppátækjasöm. Veit þú átt part í hjarta þeirra sem þig þekktu. Ótrúlegt hvernig þú náðir alltaf að gæða umhverfið fegurð enda með einstaklega næmt auga fyrir hvernig hlutir fara best saman.

Þakka tímann sem við þó höfðum saman og mitt líf er auðugra þín vegna. Lærði af þinni vegferð að nýta tímann vel, láta draumana rætast, hlúa að fjölskyldu, vinum og þeim sem á þurfa að halda. Hafir þú sýnt eitthvað þá er það hvað fallegt hugarfar skiptir máli og smitar út frá sér. Get ekki sagt að ég hafi smitast af trúnni en get þó tekið undir að kærleikurinn er málið sem og mýkri leiðin er léttari þegar á reynir.

Þín verður sárt saknað, elsku hjartans engillinn minn. Við sem eftir erum yljum okkur við skemmtilegar minningar enda mikið hlegið þegar vorum saman. Ást og friður að sinni og veit þú vakir yfir okkur að ofan.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H.)

Hugur minn hvílir hjá gullmolunum þínum, Ingó, Hödda og Móní, en ég veit að þau eiga gott bakland og verður vel séð um þau.

Vottum Mörtu, Ingólfi sem og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.

Inga Anna, Perla Rún,

Birta Sól, Kai.

Elskulegasta vinkonan mín er fallin frá. Elsku Kristín Hafdís, þú varst tekin allt of fljótt frá okkur. Ég man hvar ég hitti þig fyrst í leikherberginu í Engihjalla, við vorum bara krakkar, en ævintýrin okkar voru mörg, árin í Kópavoginum voru yndisleg. Þú varst alltaf svo glöð, hress og jákvæð, alveg sama hvað bjátaði á, alltaf gastu séð jákvæðu punktana. Leiðir okkar skildi oft, en við hittumst svo alltaf aftur og aftur í afmælum og partíum. Svo unnum við saman á Remax, það var frábær tími, þá náðum við að kynnast betur aftur sem fullorðnar konur, áttum dætur okkar með mánaða millibili, ég man hvað okkur fannst það skemmtileg tilviljun. Ég er þér ævinlega þakklát fyrir að vera í lífi mínu, lífið verður skrítið án þín, elsku vinkona. Elsku vinkona, þú munt alltaf vera í hjarta mínu og minningar þínar munu lifa að eilífu og ég trúi því að þú fylgist með okkur hinum sem eftir eru, eins og spámaðurinn segir:

„Því að hvað er það að deyja annað en standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið? Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guðs síns? Aðeins sá, sem drekkur af vatni þagnarinnar, mun þekkja hinn volduga söng. Og þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna. Og þegar jörðin krefst líkama þíns, muntu dansa í fyrsta sinn.“

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Elsku Ingólfur Andri, Hörður Róbert og Mónika Rán, Marta og fjölskylda, ég votta ykkur mína fyllstu samúð.

Ingibjörg (Imba).

Þá ertu farin í þitt lengsta ferðalag, elsku besta vinkona mín. Þetta hefðum við ekki getað ímyndað okkur þegar við hittumst fyrst ellefu ára í Hjallaskóla, að líf okkar saman yrði svona stutt. Vinskapur okkar hófst strax frá fyrstu kynnum og vorum við nánast óaðskiljanlegar síðan. Í minningunni eru þessi ár uppfull af hlátri og gleði og var aldrei dauf stund þegar þú varst nálægt.

Þú varst mér og dóttur minni mikil stoð og stytta í gegnum tíðina, þú komst mér til bjargar á erfiðum stundum sem aldrei mun gleymast.

Þú áttir alltaf til ráð fyrir mig í sambandi við hárgreiðslu og fatastíl. Og treysti ég þér fullkomlega fyrir öllu þessu af því að þú þekktir mig oft betur en ég sjálf.

Þú gerðir svo margt fyrir mig og gafst mér svo margt, þú gerðir líf mitt svo skemmtilegt, tókst mig með í allskyns ferðir um landið og í fallegu Þingvallasveitina þína, sem þér þótti svo vænt um. Og öll ævintýrin okkar þegar við vorum unglingar voru mörg hver algjörlega ótrúleg.

Þú varst alltaf mikil baráttukona, kvartaðir sjaldan og kláraðir öll þau verkefni sem þurfti að klára fljótt og örugglega og oftast án þess að biðja um aðstoð, og fallegu börnin þín liðu aldrei skort. Þú barðist alveg fram á síðustu stundu og er setning í einu af þínum uppáhaldslögum mjög lýsandi fyrir þig: „Don´t give in without a fight.“ Ég hræðist ekki dauðann þar sem ég veit að þú munt taka á móti mér með hlátri og gleði þegar minn tími kemur. Þangað til veit ég að þú munt fylgjast með okkur öllum og hlæja að okkur og með okkur á meðan við erum hér. Hittumst síðar, elsku vinkona.

Ég elska þig.

Rakel Huld.

Það er erfitt að sætta sig við það þegar góð vinkona deyr langt fyrir aldur fram, í dag kveðjum við vinkonu okkar, Kristínu Hafdísi, í hinsta sinn.

Eitt andartak stóð tíminn kyrr,

æddi síðan inn um glugga og dyr,

hreif burt vonir, reif upp rætur.

Einhvers staðar engill grætur.

Hvers vegna hér – menn spá og spyrja.

Spurningar flæða, hvar á að byrja?

Fólkið á þig kallar, Kristur,

kvölin nístir bræður og systur.

Tárin eru leið til að lækna undir,

lífið er aðeins þessar stundir.

Gangverk lífsins þau látlaust tifa

og við lærum með sorginni að lifa.

(Bubbi Morthens.)

Við vottum Ingólfi Andra, Herði Róbert, Moniku Rán, systkinum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð, missir þeirra er mikill.

Arnfreyr, Steinunn

og Þorvaldur Gísli.

Í dag kveðjum við fallegan engil. Elsku Kristín Hafdís, sem vildi öllum svo vel og var hreint gull af manneskju. Það voru algjör forréttindi að fá að vera samferða þér, elsku fallega sál, en þú skilur eftir djúp spor í hjarta mínu sem aldrei verða fyllt. Hjarta mitt og augu fyllast tárum þegar ég hugsa til þín og þessa lokaverkefnis sem þú fórst í gegnum með þínu dásamlega æðruleysi. Þú hefur kennt mér svo margt, elsku engill, og ég efast um að þú hafir haft vitneskju um hversu mikil áhrif þú hafðir á mig. Í hvert sinn sem ég heyri Afgan eða aðra Bubba-klassík mun ég alltaf hugsa til þín.

Við töluðum svo oft um að hittast oftar og meira en alltaf vorum við að bíða eftir einhverju. Tíminn ekki góður núna o.s.frv. og ég naga mig enn í handarbökin að hafa ekki bara látið verða af því, nú verður ekkert af þessum hittingi okkar og ég græt það. Ég hefði viljað faðma þig bara einu sinni enn og finna kærleikann streyma frá þér, sem þú hafðir endalaust að gefa. Núna ennþá ertu að kenna mér, lærdómurinn í þetta skiptið er sá að setja ekki lífið í biðstöðu heldur njóta þess með samferðafólkinu sínu, á meðan maður hefur líf til að lifa.

Elsku Ingólfur Andri, Hörður Róbert, Monika Rán, systkini, fjölskylda og vinir Hafdísar, megi allir englar styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Anna Clara.

Þar er með mikilli sorg í hjarta að ég kveð eina af mínum elstu vinkonum. Þegar ég fer að hugsa til baka þá hrannast upp fullt af skemmtilegum minningum sem ég mun ávallt hafa í mínu hjarta. Við kynntumst fyrst um 15 ára gamlar. Við gengum saman í gegnum erfiða tíma og yndislega tíma. Kristín var einstök manneskja, bæði falleg að utan og innan. Á hennar lífsleið kynntist hún mörgu fólki úr öllum áttum og tók hún öllum eins og þeir voru. Hún mat lífið mikils og gerði allt fyrir alla. Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa verið stór hluti í lífi hennar og trúnaðarvinur. Ég vil votta börnum hennar, Ingólfi, Herði og Móniku og öðrum aðstandendum samúð mína. Elsku besta vinkona, elska þig alltaf.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Guðrún Antonsdóttir.

Aldrei hefði mig órað fyrir því að ég ætti eftir að skrifa minningarorð um Kristínu Hafdísi, en þetta segir manni hvað lífið er óútreiknanlegt. Á þessum tíma fyrir ári vorum við Kristín að skipuleggja vinnuferð sem var framundan, sumarfrí og stækkun fyrirtækisins. Kristín hafði starfað hjá fyrirtæki mínu um árabil, við horfðum björtum augum til framtíðar og alltaf var stutt í hláturinn í samstarfinu, okkur leiddist ekki í vinnunni. Ég var svo lánsöm að kynnast Kristínu fyrir 15 árum er við unnum saman í versluninni Karen Millen, síðar kom Kristín til starfa með mér í mínu fyrirtæki.

Kristín var einstakur starfsmaður. Hún var ein lífsglaðasta manneskja sem ég hef kynnst með mjög góða nærveru og alltaf hjálpsöm.

Allt þetta kom vel í ljós í samskiptum hennar við kúnnann og á annasömum dögum þegar ýmislegt gat komið upp á var húmorinn og grínið aldrei langt undan. Þær voru margar óborganlegar stundirnar sem við áttum saman og orðatiltækin sem við notuðum og enginn skildi nema við. Kristín varð síðan verslunarstjóri og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir fyrirtækið. Hún tók þátt í innkaupum og stefnumörkun fyrirtækisins sem var að fara í gegnum breytingar og sá um daglegan rekstur á Ilse Jacobsen-verslununum. Allt sem hún tók sér fyrir hendur innan fyrirtækisins leysti hún óaðfinnanlega af hendi, fagmaður fram í fingurgóma.

Kristín Hafdís var smekkleg og mikill fagurkeri með gott auga. Hún var þeim hæfileikum búin að allt varð fallegt í kringum hana og ekki síst hún sjálf, en Kristín var falleg kona með mikla útgeislun.

Ég mun alltaf minnast síðustu vinnuferðar okkar til Kaupmannahafnar í ágúst á síðasta ári og þeirra stunda sem við áttum þar, alveg grunlausar um að Kristín væri að veikjast og það sem framundan var. Það er með sorg og eftirsjá sem ég kveð yndislega samstarfskonu og félaga sem kvaddi allt of snemma. Hennar skarð verður erfitt að fylla. Mína innilegustu samúð votta ég fjölskyldunni og börnunum Ingólfi Andra, Herði og Móniku sem voru augasteinarnir hennar og hún var alltaf svo stolt af. Minningin um einstaka og fallega konu lifir.

Ragnheiður

Óskarsdóttir.

Elsku hjartans vinkona. Ekki veit ég hvernig á að vera hægt að skrifa minningarorð um þig þegar ég trúi því ekki enn hvernig komið er. Tilfinningin er eins og að þú hafir skroppið í frí til Spánar og sért væntanleg aftur von bráðar. En ég veit að svo er ekki því að alveg sama hversu oft ég kíki þá kemur ekki aftur grænn punktur aftan við nafnið þitt á FB, engin sms og ekki ert það þú þegar síminn hringir. Flestir hafa heyrt því fleygt fram að það sé ekki magnið heldur gæðin sem skipta mestu máli og það á svo sannarlega við um okkar vinskap. Við fengum ekki langan tíma saman en hver stund var stútfull af gæðum og skemmtilegheitum hvort sem var á Spáni, tjúttinu eða bara yfir kósý kaffibolla. Einn kaffibolli endaði oftar en ekki með 3ja tíma spjalli og því að þú æddir inn í fataskáp af því að þú hafðir rekist á eitthvað sem var svo mikið ég og þú vildir endilega að ég tæki með mér heim og skipti þá engu hvort ég passaði í flíkina eða ekki. Ég ætla ekki að skrifa hér margar blaðsíður þó að ég gæti það auðveldlega. Það vita allir sem voru svo heppnir að fá að kynnast þér hversu mikill töffari og orkubolti þú varst en samt svo mjúk og hlý við þá sem þér þótti vænst um. Eins erfitt og það var að fylgjast með þér berjast hetjulega til síðasta dags við þann hrylling sem krabbameinið er, elsku hetjan mín, þá dáðist ég um leið að styrknum sem þú bjóst yfir og hvað þú varst alltaf jafn sæt og fín og glossið aldrei langt undan. Nú ertu laus undan þjáningunum gullið mitt og komin á góðan stað, þaðan sem þú munt vaka dag og nótt yfir fallegu börnunum þínum sem þú ert svo stolt af en eiga nú um sárt að binda og hafa misst svo mikið. Ég veit líka að þú munt kíkja við hjá mér annað slagið elskan og þá sérstaklega þegar ég þarf mest á því að halda, því þannig varst þú, alltaf til staðar. Þó ég fylgi þér í dag síðasta spölinn í þessu lífi, elsku Hafdís mín, þá er það ekki endanleg kveðjustund, því á meðan ég á myndir og fullt af fallegum og skemmtilegum minningum um tímann sem við fengum saman þá verður alltaf hluti af þér hjá mér þangað til við hittumst einhvers staðar einhvern tíma aftur. Ég kveð þig núna, mín kæra, með sömu orðum og þú kvaddir mig í síðasta sinn: „Ég elska þig engill, góða nótt.“ Þín vinkona,

Anna Kristín.

HINSTA KVEÐJA
Elsku hjartans vinkonan mín.
Fallin er hjartans fögur rós
og föl er kalda bráin.
Hún sem var mitt lífsins ljós
ljúfust allra er dáin.

Drottinn verndar dag og nótt
á dularvegi nýjum.
Aftur færðu aukinn þrótt
í eilífð ofar skýjum.

Þú alltaf verður einstök rós,
elsku vinan góða.
Í krafti trúar kveiki ljós
og kveðju sendi hljóða.
(Jóna Rúna Kvaran.)
Ég sendi börnum þínum og systur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Þín
Lóa Sveinsdóttir.