Markaskorari Ólafur Karl Finsen skoraði bæði mörk Stjörnunnar. Hér fagnar hann marki með Pablo Punyed gegn Bangor í 1. umferð forkeppninnar.
Markaskorari Ólafur Karl Finsen skoraði bæði mörk Stjörnunnar. Hér fagnar hann marki með Pablo Punyed gegn Bangor í 1. umferð forkeppninnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópudeild Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.

Evrópudeild

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

Þó að Stjörnumenn hafi vaðið í færum í Skotlandi í gærkvöld gegn Motherwell var taflinu snúið við á vítapunktinum, því þaðan skoruðu Stjörnumenn bæði mörk sín í 2:2-jafntefli eftir að hafa lent undir 2:0 snemma leiks í þessum fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.

Gert var ráð fyrir erfiðu verkefni Stjörnunnar gegn Motherwell en eftir þennan fyrri leik sjá Garðbæingar nú að þeir geta vel slegið Skotana úr keppni með fínni frammistöðu í síðari leiknum sem verður í Garðabæ næsta fimmtudagskvöld.

Eftir að Josh Law skoraði tvívegis fyrir Motherwell, fyrst á 9. mínútu og svo á 19. mínútu fóru Stjörnumenn að pressa framar á vellinum og uppskáru loks vítaspyrnu á 35. mínútu þegar hendi var dæmd á Keith Lasley. Ólafur Karl Finsen skoraði úr vítaspyrnunni. Ólafur Karl átti svo eftir að skora jöfnunarmarkið í uppbótartíma venjulegs leiktíma og það líka úr víti. Daninn Rolf Toft sem var í leikmannahóp Stjörnunnar í fyrsta sinn í gærkvöld kom inn á þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum og það var hann sem fiskaði vítaspyrnuna. Fín innkoma hjá honum.

Möguleikar Stjörnunnar góðir

„Við vitum að við erum góðir í fótbolta og við gefumst aldrei upp fyrr en flautað er til leiksloka. Skotarnir koma til okkar í næstu viku á gervigrasi og ég veit að þeir eru skíthræddir við það og hefðu viljað ná góðum úrslitum í kvöld vegna þess. Það er því ótrúlega sterkt að hafa gert 2:2-jafntefli í þessum fyrri leik og við vitum að við getum vel náð hagstæðum úrslitum á okkar heimavelli ef við spilum eins og menn,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöld.

Með réttu ráði og þéttsetinni stúku í síðari leiknum ættu Stjörnumenn að hafa fína möguleika á því að komast áfram í 3. umferð forkeppninnar. Stjarnan hafði lengi barist fyrir Evrópusæti. Það tryggði liðið sér loks í fyrra, og það skyldi þó aldrei vera að Evrópuævintýrið í þessari fyrstu atrennu yrði aðeins lengra.

1:0 Josh Law 9. fylgdi eftir skalla John Sutton sem Ingvar Jónsson markvörður Stjörnunnar hélt ekki.

2:0 Josh Law 19. vippaði yfir Ingvar í markinu eftir að hafa fengið boltann frá Iain Vigurs.

2:1 Ólafur Karl Finsen 35. úr vítaspyrnu eftir að hendi var dæmd á Keith Lasley.

2:2 Ólafur Karl Finsen 90. úr vítaspyrnu eftir að Lasley braut á Herði Árnasyni í vítateig Motherwell.

Gul spjöld:

Lasley (Motherwell) 35. (brot), Ramsden (Motherwell) 44. (brot), Hörður (Stjörnunni) 62. (brot), Præst (Stjörnunni) 64. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

Motherwell – Stjarnan 2:2

Fir Park, Motherwell, Evrópudeild UEFA, 2. umferð, fyrri leikur, fimmtudag 17. júlí 2014.

Skilyrði : 17 stig hiti og völlurinn í góðu standi.

Skot : Motherwell 14 (6) – Stjarnan 12 (6).

Horn : Motherwell 10 – Stjarnan 0.

Motherwell : (4-4-2) Mark : Dan Twardzik. Vörn : Craig Reid, Simon Ramsden, Stephen McManus, Steven Hammell. Miðja : Josh Law (Fraser Kerr 70.), Keith Lasley, Stuart Carswell, Iain Vigurs. Sókn : John Sutton, Lionel Ainsworth (Lee Erwin 70.).

Stjarnan : (4-3-3) Mark : Ingvar Jónsson. Vörn : Niclas Vemmelund, Martin Rauschenberg, Daníel Laxdal, Hörður Árnason. Miðja : Atli Jóhannsson, Pablo Punyed, Michael Præst. Sókn : Veigar Páll Gunnarsson (Rolf Toft 88.), Arnar Már Björgvinsson, Ólafur Karl Finsen.

Dómari : Michael Johansen – Danmörku.

Áhorfendur : Ekki gefið upp.