Fönn Vinnslurými þvottahússins er rústir einar eftir eldsvoðann.
Fönn Vinnslurými þvottahússins er rústir einar eftir eldsvoðann.
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á upptökum eldsvoðans í Skeifunni 11 í Reykjavík, sem varð sunnudagskvöldið 6. júlí sl., er lokið.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á upptökum eldsvoðans í Skeifunni 11 í Reykjavík, sem varð sunnudagskvöldið 6. júlí sl., er lokið. Niðurstaða hennar er að sjálfsíkveikja hafi orðið vegna hita og oxunar í húsnæði Fannar.

Tveir sérfræðingar frá Mannvirkjastofnun komu einnig að rannsókn málsins. Annar þeirra er Guðmundur Gunnarsson, fagstjóri eldvarna. „Það fara þarna af stað ákveðin efnahvörf og gerjun sem myndar hita. Þegar hitinn kemst svo ekki í burtu magnast hann upp þar til það fer að loga í þessu,“ segir Guðmundur en eldsupptök voru í og við þvottagrindur.

Aðspurður segir hann sjálfsíkveikjur nokkuð algengan tjónvald, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. „Ef tekkolía er t.a.m. borin á viðarhúsgögn og tuskurnar síðan teknar og pakkað saman áður en þær enda í ruslafötunni getur það valdið íkveikju.“

Spurður hvort hægt sé að koma í veg fyrir bruna á borð við þann sem átti sér stað í Skeifunni kveður Guðmundur já við. „Það hefði m.a. verið hægt að láta þvottinn kólna vel áður en hann er brotinn saman eða gæta þess að honum sé ekki pakkað of þétt saman.“

Fönn leitar að húsnæði

Vinnslurými þvottahússins Fannar er rústir einar eftir eldsvoðann og segir Hjördís Guðmundsdóttir hjá Fönn það enn vera óljóst hvar nýtt vinnslurými komi til með að vera staðsett í framtíðinni. „Staðsetningin er núna stóra málið hjá okkur en einnig erum við að skoða nýjar vélar og græjur,“ segir hún.

Spurð hvort starfsmenn Fannar séu byrjaðir að leita að hentugu húsnæði undir vinnslurýmið annars staðar kveður Hjördís já við. „Við vinnum nú hörðum höndum að því enda verðum við að finna stað til þess að geta byrjað eðlilegan rekstur á ný. Það verður ekki gert hér næstu mánuði,“ segir hún.