Lívey Eiríka Lill Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky fæddist í Neuilly sur Seine 18. júlí 1996. Hún lést 7. júní 2014.

Foreldrar hennar eru Lilja Skaftadóttir Hjartar og Leonardo Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky myndhöggvari. Systir hennar er Loriana Margret Livie Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky.

Lívey var jarðsett í Chevreuse 13. júní 2014.

Elsku fallega frænka mín.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Mér finnst svo óraunverulegt að vera að skrifa minningarorð um þig, elsku fallega Lívey mín.

Í dag hefðir þú orðið 18 ára, sjálfráða, þú hlakkaðir mikið til þess aldurs, ég man síðast þegar ég talaði við þig í símann þá sagðir þú við mig að þú gætir ekki beðið eftir þessum degi.

Ég man eftir því þegar ég var 10 ára og þú einu ári yngri og kom ég til Frakklands með ömmu okkar. Við höfðum svo gaman, fórum í Disney með ömmu og mömmu þinni og þegar ég kom í heimsókn í skólann þinn og þú snérir Íslandskortinu á hvolf. Þú kenndir mér nokkur orð í frönsku og vildir alltaf reyna að kenna mér meira í frönsku. Þú varst alltaf svo lífsglöð og æðisleg stelpa, áttir marga vini og ég öfundaði þig oft af því. Þegar ég var leið eða sár þá fékkstu mig alltaf til að brosa, það leið ekki dagur hjá þér nema að hafa bros á fallega andlitinu þínu.

Þegar við vorum orðnar eldri þá vorum við ekki alltaf sammála um alla hluti, en við sættumst á endanum. Ég man þegar þú komst til Íslands þá gerðum við alltaf eitthvað skemmtilegt saman, gistum hjá ömmu, horfðum á biómynd saman, fórum í Bláa lónið, Gay pride, fórum á skauta, á rúntinn að tala t.d. um stráka og bara lífið sjálft. Einnig þegar við fórum í Kringluna þar sem þú keyptir þér alltaf eitthvað, aðallega kjóla. Þú elskaðir kjóla, þú fórst ekki heim nema að hafa einn til tvo nýja kjóla með í ferðatöskunni.

Síðustu jól voru ógleymanleg og bestu jól sem ég hef upplifað þegar ég og öll fjölskyldan frá Íslandi fórum til Frakklands og héldum jólin með þér og þú hélst áramótin með okkur hérna á Íslandi nokkrum dögum síðar, við fengum að heyra það oft að þetta hefðu verið skemmtilegustu jól ævi þinnar og þú gætir ekki beðið eftir að fá okkur aftur til þín. Síðasta skiptið sem ég sá þig var þegar þú komst um páskana og við fórum upp í bústað með fjölskyldunni. Ég trúi ekki enn að þú sért farin frá okkur, ég hugsa til þín á hverjum degi.

Ég mun alltaf sakna þín og elska.

Við munum hittast einn daginn þegar minn tími kemur. Ég votta öllum aðstandendum mína innilegustu samúð. Þín frænka,

Petra Dís Gylfadóttir.

Elsku Lívey okkar.

Hví var þessi beður búinn

barnið kæra, þér svo skjótt?

Svar af himni heyrir trúin

hljóma gegnum dauðans nótt.

Það er kveðjan: ,,Kom til mín!“

Kristur tók þig heim til sín.

Þú ert blessuð hans í höndum,

hólpin sál með ljóssins öndum.

(Björn Halldórsson í Laufási)

Í dag hefðir þú átt 18 ára afmæli, dagurinn sem þú beiðst eftir. Að verða sjálfráða og ráða þér sjálf. En vegir Guðs eru ekki alltaf eins og við viljum hafa þá. Allt of snemma varstu tekin frá fjölskyldu þinni og vinum og var sá hópur ansi stór. Við sem eftir erum eigum erfitt með að sætta okkur við að sjá aldrei bjarta brosið þitt eða heyra smitandi hláturinn þinn en munum geyma allar minningar um þig og bjarta brosið í hjarta okkar um ókomna framtíð. Eftir að við fórum frá Frakklandi, eftir að hafa verið öll saman fjölskyldan á jólunum, var það næsta sem við fréttum að þú hefðir fengið leyfi til að fara til Íslands um áramótin og varst þú hjá okkur er nýja árið gekk í garð. Hvað við hlógum er Gylfi tók upp myndavélina á gamlárskvöld, því um leið stilltir þú þér upp og eru ófáar myndir sem til eru af þér. Þótt sárt sé viljum við trúa því að þér hafi verið ætlað stærra hlutverk á öðrum stað og takir á móti öllum ættingjum og vinum þegar þeirra tími kemur með brosið þitt bjarta.

Við fjölskyldan sendum Lilju, Leonardo og Loriönu innilegar samúðarkveðjur.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

svo hlusti englar guðs í Paradís.

Við götu mína fann ég fjalarstúf

og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré, sem fann ég út við sjó,

ég fugla skar og líka úr smiðjumó.

Í huganum til himins oft ég svíf

og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,

og sumir verða alltaf lítil börn.

En sólin gyllir sund og bláan fjörð

og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt.

Um varpann leikur draumsins perluglit.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

og hlustið, englar guðs í Paradís.

(Davíð Stefánsson)

Elsa Eiríksdóttir Hjartar

og fjölskylda.

Elsku fallega og yndislega frænka mín, í dag hefðir þú orðið átján ára.

Ég á svo margar góðar og fallegar minningar um þig, elsku engilinn minn, og ég er svo þakklát fyrir síðustu heimsókn þína til Íslands. Við eyddum góðum tíma saman og spjölluðum um allt og ekkert og skellihlógum að okkur. Það var alltaf svo mikið líf og fjör í kringum þig, og þú elskaðir að hitta vini og fjölskyldu.

Ég er svo þakklát fyrir að við fjölskyldan eyddum saman síðustu jólum sem þú sagðir að væru skemmtilegustu jólin og þú komst svo til Íslands og varst með fjölskyldunni yfir áramótin, af því þú saknaðir okkar svo mikið.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, þú varst svo falleg bæði að innan og að utan. Ég vildi óska þess að við sem eftir stöndum hefðum fengið að hafa þig hjá okkur lengur en þér var ætlað annað hlutverk í öðrum heimi. Ég er ekki sátt við að þér hafi ekki verið úthlutaður meiri tími með okkur, en ég fæ víst engu um það ráðið. Ég sem betur fer fékk að segja þér að ég elskaði þig í okkar síðasta símtali. Elska þig út fyrir endimörk alheimsins, elskan mín.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þín frænka,

Sigurey Valdís.

Í dag hefði elsku frænka mín hún Lívey átt afmæli og það var afmælisdagur sem hún hlakkaði mikið til, að verða átján ára. Ekki hvarflaði það að okkur að við værum að kveðjast í síðasta sinn þegar þú varst að fara frá okkur síðast. Það er svo sárt að hugsa til þess að fá aldrei að hitta þig aftur, knúsa þig þegar þú kemur í heimsókn eða heyra þig hlæja þegar ég er eitthvað að fíflast. Minningarnar um Líveyju fá mann til að brosa og hlæja þrátt fyrir kökkinn í hálsinum og tárin. Elsku Lívey mín, við munum geyma þig í hjarta okkar alla tíð, elsku fallega frænka mín.

Heimsins þegar hjaðnar rós

og hjartað klökknar.

Jesús gefðu mér eilíft ljós

sem aldrei slökknar.

(Höf. ókunnur)

Elsku Lilja, Leonardo og Loriana, megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum, hugur okkar er hjá ykkur.

Eiríkur Pétur

og fjölskylda.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Lívey mín, til hamingju með 18 ára afmælið, elsku engill, vildi að ég gæti knúsað þig. Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki til þín, ég sakna þín svo mikið. Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á um þig. Ég mun aldrei gleyma þér, elsku fallega frænka. Hvíldu í friði, elsku engill. Elska þig. Þín
Ragney Líf.