[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is Húsið Laugavegur 77, þar sem Landsbankinn og Valitor voru áður til húsa, hefur öðlast nýtt líf.

Sviðsljós

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

Húsið Laugavegur 77, þar sem Landsbankinn og Valitor voru áður til húsa, hefur öðlast nýtt líf. Þar sem áður var banka- og skrifstofuhúsnæði er nú komið líflegt verslunarhúsnæði þar sem þrjár verslanir; Penninn Eymundsson, AnnaRannA og Galleria Reykjavík auk kaffihúss hafa verið opnaðar. Húsið er í eigu GAM Management (GAMMA), en sjóður í rekstri félagsins keypti fasteignina og stórt bílastæði á bak við húsið, sem snýr að Hverfisgötu, af Landsbankanum á síðasta ári.

Í byrjun árs var ákveðið að leigja húsnæðið út fyrir verslanir og skrifstofur, en áður höfðu hugmyndir verið uppi um að breyta húsinu í hótel. Auk verslananna sem opnaðar hafa verið á jarðhæð hússins starfa lögfræðistofan Evrópulög, lögmannsstofan Vík, þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Plain Vanilla Games í húsnæðinu.

Penninn Eymundsson og tískuvöruverslunin AnnaRannA var opnuð í húsnæðinu 6. júní síðastliðinn, en sérvöruverslunin Galleria Reykjavík daginn eftir, hinn 7. júní. Einnig var nýverið opnað kaffihús Tes & kaffis í verslun Eymundssonar og hefur það aukið enn frekar við mannlífið í húsinu.

Ánægja með breytingarnar

Kaupmennirnir á svæðinu eru ánægðir með breytingarnar og eru sammála um að með þessu hafi efri hluti Laugavegarins öðlast meira líf. „Við erum öll rosalega ólík en ég held við séum öll mjög góð viðbót við þennan efri hluta,“ segir Rannveig Anna Ólafsdóttir, annar eigenda verslunarinnar AnnaRannA. „Það var ekki mikið að sækja á þennan stað, en nú hefur það breyst. Það gerir mjög mikið fyrir mannlífið að fá bæði verslanir og kaffihús á þetta svæði.“ Rannveig segir fólk þó enn vera að taka við sér, „Það kemur ennþá fólk hingað inn og spyr hvort það hafi ekki verið hraðbanki hérna.“

Minnir á verslunarkjarna

Jarðhæð hússins minnir einna helst á verslunarkjarna, og segir Rannveig marga hafa haldið að innangengt væri á milli verslana. Hún segir viðtökurnar þó hafa verið mjög góðar og segir fólk almennt ánægt með breytingarnar. „Við finnum fyrir rosalegri jákvæðni frá fólki.“

Elfar Pétursson, verslunarstjóri Pennans Eymundssonar tekur undir og segir viðtökurnar hafa verið góðar. „Það hefur gengið vel síðan við opnuðum og allir hafa verið rosalega ánægðir.“ Hann segir miklar breytingar hafa átt sér stað hvað varðar mannlíf á svæðinu. „Maður sá enga hreyfingu hérna á neðri hæðinni en nú er alltaf nóg af fólki hér. Te & kaffi eru með kaffihús hérna inni sem er alltaf fullt.“

Verslun Eymundssonar hefur lengi verið í Austurstræti 18 en Elfar segir stjórnendur fyrirtækisins hafi viljað auka við sig með opnun verslunarinnar á Laugavegi 77. „Við sáum að það var tækifæri hérna ofar og við ákváðum að slá til. Um leið og húsnæðið bauðst okkur stukkum við á það.“ Hann segir oft erfitt að fá gott húsnæði á Laugaveginum, „sérstaklega svona stórt og mikið eins og þetta. Þess vegna gátum við ekki sleppt því,“ segir hann.

Jacobina Joensen, verslunarstjóri Galleria Reykjavík, tekur undir með Rannveigu og Elfari og segir fólk hafa tekið breytingunum mjög vel. „Við höfum fengið inn fólk sem vann í bankanum og hefur fundist gaman að sjá að byggingin hefur öðlast nýtt líf,“ segir hún. „Við höfum líka fengið inn nokkra ringlaða sem hafa haldið að bankinn væri hér ennþá.“

Nýjar verslanir í húsinu

Verslanirnar AnnaRannA og Galleria Reykjavík eiga það sameiginlegt að þær voru báðar opnaðar í fyrsta skipti í byrjun júní í húsinu við Laugaveg 77. AnnaRannA er kvenfataverslun þar sem finna má fallega og vandaða vöru. Verslunin er rekin af Rannveigu Önnu Ólafsdóttur, en með henni á Anna Kristín Ásgeirsdóttir verslunina.

Galleria Reykjavík er sérvöruverslun þar sem mikið er lagt upp úr því að bjóða upp á úrval gæðavöru. Eigendur verslunarinnar eiga einnig Leonard-skartgripaverslanirnar.

Auk verslananna tveggja opnaði Penninn Eymundsson verslun í húsnæðinu í júní og nýverið var þar opnað kaffihús Te & Kaffi.