Steak tartare Gæjar og gella í Storage Wars.
Steak tartare Gæjar og gella í Storage Wars.
Þá daga þegar veðrið er ömurlegt og allt gengur á afturfótunum er fátt jafn freistandi og að gefast upp, gúffa í sig draslmat og horfa á draslsjónvarpsefni.

Þá daga þegar veðrið er ömurlegt og allt gengur á afturfótunum er fátt jafn freistandi og að gefast upp, gúffa í sig draslmat og horfa á draslsjónvarpsefni. En sá er galli á gjöf Njarðar að hætta er á því að huggunin og veruleikaflóttinn fjúki út í veður og vind ef um virkilegt ruslefni er að ræða og að eftir sitji pirringurinn einn.

Um hvað er ég að tala? Jú, mér detta í hug tveir raunveruleikaþættir sem snúast annars vegar um bílaandlitslyftingar og hins vegar um geymsluuppboð. Stjörnur beggja þátta eru hálfglataðir gæjar sem eru að springa úr stælum en svo fá ein eða tvær skvísur að fljóta með á kantinum og leika þá undantekningalaust hlutverk sætu stelpunnar eða leiðinlega nöldurseggsins.

Þessi uppskrift er bæði gömul og ólystug; dálítið eins og steak tartare, en virðist lifa góðu lífi í kokkabókum dagskrárgerðarfólks, bæði erlendis og hérlendis. Hver kannast ekki við að kveikja á útvarpinu akkúrat þegar uppáhaldslaginu er að ljúka og við tekur gjammið í þáttastjórnendum sem eru einn eða tveir „fyndnir gaurar“ og málamyndakvenkynsstjórnandi sem skríkir að fíflalátunum í strákunum? Nei, þá hlusta ég frekar á rúðuþurrkurnar.

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir