Fjöldi Ráðstefnan í ár, sem haldin er í Háskóla Íslands, er sú fjölmennasta hingað til, en um 500 gestir sækja hana. Gestirnir koma hvaðanæva, meðal annars frá Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og Japan.
Fjöldi Ráðstefnan í ár, sem haldin er í Háskóla Íslands, er sú fjölmennasta hingað til, en um 500 gestir sækja hana. Gestirnir koma hvaðanæva, meðal annars frá Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og Japan. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is „Hlutfall miðaldafræðinga hér á landi rauk skyndilega upp,“ segir Sif Ríkharðsdóttir dósent, en hún er formaður skipulagsnefndar alþjóðlegrar miðaldaráðstefnu, sem nú stendur yfir í Reykjavík.

Sviðsljós

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

„Hlutfall miðaldafræðinga hér á landi rauk skyndilega upp,“ segir Sif Ríkharðsdóttir dósent, en hún er formaður skipulagsnefndar alþjóðlegrar miðaldaráðstefnu, sem nú stendur yfir í Reykjavík.

Hátt í 500 erlendir gestir sækja ráðstefnuna, sem er á vegum New Chaucer Society, virts fræðafélags á sviði miðaldafræða, en gestgjafar eru hugvísindasvið og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Sif segir gaman að sjá svo marga miðaldafræðinga samankomna á einum stað.

Um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu miðaldafræðinga sem haldin er annað hvert ár, til þessa til skiptis í Bretlandi og Bandaríkjunum en er nú í fyrsta skipti á Íslandi. Er það liður í stefnu Háskóla Íslands að efla vísindastarf á sviði miðalda og að halda áfram uppbyggingu háskólans í alþjóðlegu samstarfi á sviðinu.

Dónabrandarar í rannsókn

J. Case Tompkins er miðaldafræðingur sem tekur þátt í ráðstefnu New Chaucer Society í Reykjavík. Tompkins hyggst í dag kynna ritgerð sem hann skrifaði um miðaldafræði og fá viðbrögð við henni. „Einnig er ég hér til að sjá hvað annað fólk er að kynna og fá hugmyndir og innblástur frá því,“ segir hann. Tompkins skrifaði doktorsritgerðina sína um miðaldafræði og hefur rannsakað fagið í þaula. Hann segir þessa ráðstefnu vera eina af mörgum sem hann hefur farið á til að efla þekkingu sína á sviðinu.

Tompkins segir það gaman að fá mismunandi viðhorf frá mörgu fólki, en hann hefur farið á ýmsa áhugaverða fyrirlestra. „Það hefur til dæmis verið talað um það hvernig hægt sé að vekja áhuga á greininni. Hún hefur stundum orðið svolítið undir og sumir háskólar ekki veitt henni nægilegan stuðning.“

Skemmtilegasti fyrirlesturinn segir hann að hafi verið um dónabrandara Chaucers. „Chaucer er fullur af dónabröndurum og þeir hafa verið stúderaðir fram og til baka,“ segir hann hlæjandi. „Það hefur verið mjög áhugavert.“

Finna alltaf nýjar nálganir

Matthew Frost er útgefandi hjá Manchester University Press og kom hingað til lands til að sitja ráðstefnuna og hitta rithöfunda. „Ég er með marga rithöfunda á mínum snærum frá öllum heiminum: Ameríku, Ástralíu og Evrópu. Það er miklu betra að hitta þá alla hérna á einum stað í stað þess að þurfa að ferðast til allra þessra landa og hitta þá hvern í sínu lagi,“ segir hann.

Frost segir marga velta því fyrir sér hver tilgangur þess sé að rannsaka verk höfunda eins og Chaucers og Shakespeares í þaula, en svarið sé einfalt. „Það er alltaf hægt að finna nýjar leiðir til að nálgast efnið. Það er ótrúlegt hve mikið nýtt kemur upp á ráðstefnum sem þessari,“ útskýrir hann. „Það er alltaf verið að finna eitthvað nýtt til að segja um handrit sem eru 1000 ára gömul og það er mjög áhugavert að heyra það.“

Frost bætir því við að ekki sé verra að ráðstefnan sé haldin hér á landi þar sem margir njóti þess að skoða landið í leiðinni. Sjálfur geti hann þó ekki stoppað lengi þar sem hann sé að fara á fleiri ráðstefnur á næstu vikum.