Hafi það farið fram hjá einhverjum þá varð Þýskaland heimsmeistari í knattspyrnu á sérstaklega skemmtilegu heimsmeistaramóti sem fram fór í Brasilíu í sumar og lauk núna um síðustu helgi.

Hafi það farið fram hjá einhverjum þá varð Þýskaland heimsmeistari í knattspyrnu á sérstaklega skemmtilegu heimsmeistaramóti sem fram fór í Brasilíu í sumar og lauk núna um síðustu helgi. Þjóðverjar sýndu það strax í upphafi keppninnar, þegar þeir lögðu Portúgal 4-0, að þeir væru komnir til að vinna. Liðsheildin, skipulagið og aginn fylgdi að venju þýska landsliðinu en að auki skein af þeim leikgleðin og var eins og leikmenn nytu hverrar stundar inni á vellinum. Joachim Löw, þjálfara liðsins, tókst að ná því besta út úr leikmönnum sínum sem skemmtu íslenskum sjónvarpsáhorfendum konunglega alla keppnina. Aðra sögu er að segja um ríkisstofnunina í Efstaleiti sem bauð upp á litlausa og daufa HM-stofu, fyrir og eftir hvern leik. Ekki skorti hæfileikafólkið en Björn Bragi Arnarsson var fenginn til að stýra þættinum og má alveg fullyrða að hann sé með betri sjónvarpsmönnum landsins. Þar að auki fékk hann til sín marga af helstu sérfræðingum landsins í knattspyrnu. Samt sem áður tókst ekki að gera áhugaverðan þátt. Var það peningaleysi, metnaðaleysi eða hrein og klár tilviljun að ekki tókst betur til? Mér finnst það ekki skipta öllu máli. Hugsanlega er ég einn um þá skoðun að HM stofan hafi ekki verið neitt sérstök. Ég hefði kosið að sérfræðingar þáttarins hefðu greint leikina betur niður að þeim loknum. Eitthvað í líkingu við það sem tíðkast í Pepsi-mörkunum á Stöð2 sport. Boðið var upp á slíka greiningu á nokkrum erlendum stöðvum sem finna mátti á fjölvarpinu en af einhverjum furðulegum ástæðum var lokað fyrir útsendingar þeirra stöðva meðan á leikjum stóð. Það átti ekki við um alla leiki en suma, sem seldir voru til fjölmiðlafyrirtækisins 365. Engan afslátt fékk ég þó af fjölvarpinu þó að dagskráin sem mér var lofað væri skert. Íslenskum neytendum virðist sjaldan vera treyst til að velja sjálfir. Kannski er það óhollt fyrir mig að horfa á útlenskar sjónvarpsstöðvar en ég vil engu að síður fá að hafa val um það sjálfur hvað ég horfi á. Mögulega voru einhverjar lagalegar ástæður bak við þetta sem rétthafar efnisins kunna betur skil á en ég. Hins vegar grunar mig að íslenska haftastefnan hafi haft eitthvað með þetta að gera enda fyrir löngu orðin genetískt vandamál meðal íslenskra stjórnmálamanna og stjórnenda sem sjá sér hag í höftum.

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins finnur því allt til foráttu að erlend matvörukeðja komi upp tveimur verslunum á Íslandi. Hún óttast um heilsu Íslendinga sem gætu valið útlendar vörur. Kannski vill hún að nammibarnum í Hagkaup verði lokað? Eða er íslenskt nammi ekki óhollt? Aðrir stjórnmálamenn hæðast að þessari stefnu Framsóknarflokksins en um leið krefjast þess af mér að greiða skylduáskrift að Ríkisútvarpinu, áskrift sem ég hef engan áhuga á að greiða. Haftahugsjónin tekur á sig ýmsar myndir og er misjöfn milli stjórnmálaflokka en eitt er öruggt að fáir stjórnmálamenn treysta neytendum til að velja.

Vilhjálmur A. Kjartansson