Spákonufellshöfði Skagaströnd er í miðri megineldstöð en Höfðinn er gerður úr stórgerðu stuðlabergsbasalti.
Spákonufellshöfði Skagaströnd er í miðri megineldstöð en Höfðinn er gerður úr stórgerðu stuðlabergsbasalti. — www.mats.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is Spákonufellshöfði rís vestan við byggðina á Skagaströnd. Í daglegu tali er hann nefndur Höfðinn og um hann hafa verið lagðar léttar gönguleiðir.

Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is

Spákonufellshöfði rís vestan við byggðina á Skagaströnd. Í daglegu tali er hann nefndur Höfðinn og um hann hafa verið lagðar léttar gönguleiðir. Þar getur fólk stundað útivist og notið stórkostlegs útsýnis yfir fallega náttúru í nálægð við hafið, fjallahringinn og fuglalífið.

Gönguleiðin hefst við bílastæðið á Höfðanum. Þegar gengið er sjávarmegin frá bílastæðinu, norður eftir Höfðanum, er komið að litlum kletti sem nefnist Tröllamey. Á klettinum sést að einhvern tímann hefur efsti hlutinn brotnað svo nú er eins og höfuðið vanti á.

Kletturinn er talinn líkjast konu við lestur eða hannyrðir en þjóðsagan hermir að tröllamey hafi beðið eftir komu unnusta síns úr róðri. Honum varð ekki afturkvæmt og dagaði hana því uppi og varð að steini.

Hægt að fara um á báti

Nokkru norðar er stór vík sem gengur inn í Höfðann að vestanverðu og heitir Vækilvík. Norðan við víkina er Reiðingsflöt en þar er gott að nema staðar og skoða sig um. Framan við flötina er svo lítill hólmi sem nefnist Sauðsker en þangað er hægt að ganga þegar fjarar. Enn utar má finna lítið sker þar sem Músasund er. Þar er hyldjúpt og hægt er að fara á bát um sundið.

Nokkru norðan við Reiðingsflöt er Arnarstapi staðsettur en nálægt Arnarstapa er lægð sem ber nafnið Leynidalur eða Fagridalur. Handan hennar er Réttarholtshæð en hæsti punktur hæðarinnar er tilvalinn útsýnisstaður.

Þar sem Höfðinn og láglendið mætast heitir Landsendi og þar við sjóinn var Landsendarétt. Hún var hlaðin úr grjóti og hrundi síðar en þó má enn sjá leifar af rústum hennar.

Öflugt fuglalíf

Fuglalíf í Höfðanum einkennist annars vegar af sjófuglum og hins vegar af mófuglum. Fýll, æðarfugl, svartbakur, sílamáfur, kría og teista eru meðal sjófugla sem annaðhvort verpa eða sjást þar reglulega. Meðal algengra mófugla eru tjaldur, heiðlóa, sandlóa, hrossagaukur, stelkur og þúfutittlingur en rjúpa sést stöku sinnum.

Í gróðurfari Spákonufellshöfða má sjá allt frá strjálum gróðri yfir í grösugar mýrar á milli klettabelta. Þar má einnig finna algengar tegundir íslenskra plantna en meðal þeirra er geldingahnappur, skeggsandi, holurt, melanóra, melskriðnablóm og margt fleira. Í klettahlíðinni sem snýr að byggðinni voru gróðursettar trjáplöntur. Þær hafa meðal annars átt erfitt uppdráttar vegna skafrennings og seltu en þar má þó sjá fallegt birki, sitkagreni og lerki.

Spáð er rigningu víðsvegar um landið

Spáð er rigningu víðsvegar um landið í dag en áfram verður þurrt og hlýjast norðaustantil á landinu. Hiti verður á bilinu 10 til 21 stig og hlýjast um landið norðaustanvert. Á morgun er spáð suðaustlægri ár, 3-8 m/s, og áfram bjartviðri að mestu norðaustantil á landinu, en annars skýjað og rigning með köflum. Hiti verður á bilinu 12 til 18 stig og hlýjast fyrir norðan.

Á sunnudaginn er spáð austlægri átt og bjartviðri með köflum norðantil á landinu en skýjað verður fyrir sunnan. Lítilsháttar væta austantil á landinu en annars úrkomulítið. Hiti verður á bilinu 12 til 19 stig og hlýjast fyrir vestan.

Stofnunin opin alla daga í sumar

Páll Fannar Einarsson

pfe@mbl.is

Gunnarsstofnun er menningar- og fræðasetur með lifandi menningarstarfsemi árið um kring. Þar eru haldnar sýningar, tónleikar og fyrirlestrar ásamt öðrum viðburðum en þar er opið alla daga yfir sumarið. Stofnunin er kennd við rithöfundinn Gunnar Gunnarsson (1889-1975) er fluttist að Klaustri árið 1939. Hann bjó þar til ársins 1948 er hann gaf ríkinu eignina og fluttist til Reykjavíkur.

Gunnarsstofnun hefur starfað frá árinu 2000 en hlutverk hennar er meðal annars að leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og ævi Gunnars. Hlutverk hennar er einnig að reka dvalarstað fyrir lista- og fræðimenn, að efla rannsóknir á austfirskum fræðum og stuðla að alþjóðlegum menningartengslum og atvinnuþróun á Austurlandi. Klaustur var stofnað á Skriðu í Fljótsdal laust fyrir aldamótin 1500, síðast allra klaustra hér á landi og stóð til siðaskipta um 1550. Áhrifa klaustursins gætti þó langt fram á 19. öld í formi jarðeigna en þar fer þó engum sögum af skipulegri fræðastarfsemi líkt og í mörgum öðrum klaustrum.