[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Nú þegar síðari umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu er framundan horfir Morgunblaðið um öxl á umferðir 1-9.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Nú þegar síðari umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu er framundan horfir Morgunblaðið um öxl á umferðir 1-9. Blaðið fékk landsliðskonuna Fanndísi Friðriksdóttur, leikmann Breiðabliks, til aðstoðar við uppgjörið, en hún sneri aftur heim í vor eftir ársdvöl í Noregi. Fanndís segir að ef eitthvað er hafi deildin styrkst síðan hún spilaði hér síðast fyrir tveimur árum.

„Mér finnst hún sterkari og það hefur gerst svolítið með fjölgun útlendinga. Maður finnur að það er mikið traust sett á þá erlendu leikmenn sem koma hingað og þeir eru valdir vel. Deildin er líka betri en við höldum,“ sagði Fanndís.

Íslandsmeistarar Stjörnunnar hafa verið á mikilli siglingu eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum í sumar, einmitt gegn Breiðabliki. Liðið hefur nú unnið átta leiki í röð og hefur fimm stiga forskot á toppnum. Liðin tvö mætast einmitt á ný á þriðjudag og Fanndís segir Stjörnuna ekki óstöðvandi þrátt fyrir að mörgum hafi fundist svo síðustu vikur.

„Það er hægt að stoppa þær, en það þarf að hafa bæði augun á Hörpu Þorsteinsdóttur. Hún er búin að reima fast á sig markaskóna eins og sést, sextán mörk í níu leikjum verður að teljast gott. Það sem vantar svolítið hjá þeim er að hópurinn er ekki mjög stór sem er einmitt styrkleiki hjá okkur í Breiðabliki. Með góðu skipulagi eru þær því ekki óstöðvandi en þá þarf að halda Hörpu í skefjum, það gerist ekki mikið í sókninni án hennar finnst mér,“ sagði Fanndís sem tók undir að Harpa væri besti leikmaður deildarinnar það sem af er móti.

Stemningin er í Árbænum

Nýliðar Fylkis hafa komið skemmtilega á óvart í sumar og þrátt fyrir að hafa einungis skorað átta mörk hefur liðið unnið fimm leiki og er með sautján stig í fjórða sætinu, en landsliðsmarkvörðurinn Þóra B. Helgadóttir spilar með liðinu seinni hluta tímabilsins.

„Það er gríðarleg stemning uppi í Árbæ og þær komast langt á því. Svo fá þær Þóru til liðs við sig, það mundu flest lið í deildinni vilja fá hana í markið hjá sér. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig þær verða í seinni hlutanum,“ sagði Fanndís. Íris Dögg Gunnarsdóttir stóð í marki þeirra í fyrstu átta leikjunum og hélt hreinu í sex þeirra. Hún er hins vegar farin til FH þar sem hliðrað var til fyrir Þóru.

„Íris hefur staðið sig mjög vel í sumar og leiðinlegt að hún fái ekki að halda áfram með liðinu sínu. Hún hefur haldið þeim svolítið mikið inni í þessu með því að halda hreinu, en það er kannski ekki hægt að segja að það sé ósanngjarnt að hún hafi þurft að víkja þar sem þær fengu Þóru í markið. Kannski bjóst Fylkir heldur ekki við þessari frammistöðu af henni fyrirfram, en hún verður gríðarlegur styrkur fyrir FH.“

Fimleikafélagið byrjaði tímabilið á tveimur sigrum en eftir 13:0-skell gegn Blikum í þriðju umferð hefur gengið dalað töluvert. Fanndís segir liðið samt geta betur en svo.

„Þrátt fyrir að FH hafi fengið mörg mörk á sig þá eru þetta allt stelpur sem eru flinkar í fótbolta. Þær eru ekki 13:0 lélegri en Breiðablik til dæmis. Þær eru margar fljótar og Sandra Sif [Magnúsdóttir] sem var að koma til þeirra frá okkur ætti að geta hjálpað þeim með sínum sendingum. Ég held því að FH eigi meira inni eins og ÍA,“ sagði Fanndís, en Skaginn er enn án stiga.

„Þær gefa samt fá færi á sér og tapa ekki stórt nema á móti Stjörnunni. Þær ættu að geta stolið einhverjum sigrum því eins og Fylkir skora þær lítið en fá á sig lítið af mörkum líka, þó hlutirnir hafa ekki dottið fyrir þær ennþá.“

Heldur Selfoss dampi?

Valsliðið hefur að margra mati valdið hvað mestum vonbrigðum í sumar, en Valur er í sjötta sætinu og tapaði fyrir Selfossi í síðustu umferð á heimavelli. Hallbera Guðný Gísladóttir spilar með liðinu seinni hluta sumars og er þriðja landsliðskonan sem snýr heim í sumar eins og Fanndís og Þóra.

„Valur á að gera betur, þær hafa skipt um þjálfara sem mér fannst svolítið skrítið líka. Hópurinn er sterkur og þær ættu að vera ofar í deildinni svo það eru vonbrigði hjá þeim. Vonandi þeirra vegna mun nýr þjálfari rífa þær upp, svo var Hallbera að koma heim, hún á eftir að hrökkva í gang,“ sagði Fanndís, sem tekur þó ekkert af Selfossi.

„Selfoss er með sterka útlendinga og stelpurnar sem hafa verið í skóla í Bandaríkjunum eins og Dagný [Brynjarsdóttir] og fleiri fleyta liðinu mjög langt. Það verður spennandi að sjá hvort þær muni halda uppteknum hætti þegar þær fara aftur út í ágúst.“

Kristín komið sterk til baka

Lið Þórs/KA hefur lent í miklum áföllum í sumar. Sandra María Jessen verður ekkert með og Katrín Ásbjörnsdóttir er einnig talin úr leik, en þær hafa verið viðloðandi landsliðið síðustu ár. Engu að síður eru norðankonur í þriðja sætinu.

„Það er eiginlega ótrúlegt hvað þær eru ofarlega í töflunni miðað við hópinn þeirra og meiðsli. Þær byrjuðu reyndar vel gegn lakari liðum í deildinni og komu sér í gírinn, en miðað við að hafa misst þessa stóru pósta sem hafa verið með sterkustu leikmönnum liðsins hefur þeim gengið ótrúlega.“

Aðspurð hvort einhver leikmaður hafi vakið óvænt meiri athygli hennar en annar, segir Fanndís: „Kannski helst Kristín Erna [Sigurlásdóttir] hjá ÍBV, maður bjóst ekki við henni svona sterkri eftir að hafa verið að glíma við mikil meiðsli. Hún hefur staðið sig mjög vel og vonandi heldur hún því áfram. Það er gott fyrir hana að hafa komið svona sterk til baka upp úr erfiðum og leiðinlegum meiðslum,“ sagði Fanndís, en Kristín missti af öllu síðasta tímabili vegna slitins krossbands í hné.

Deildin mun jafnast frekar

Nú þegar seinni hluti mótsins fer af stað munar einungis þremur stigum á öðru og fimmta sætinu. Fanndís telur að Stjarnan muni ekki stinga af þrátt fyrir að hafa nú fimm stiga forskot heldur muni deildin jafnast frekar ef eitthvað er.

„Það eiga öll lið eftir að lenda í einhverjum skakkaföllum, meiðslum og annað. Það er til dæmis vinsælt að fara út til Bandaríkjanna í skóla svo það gætu einhverjir leikmenn mögulega farið þangað og misst af síðustu leikjunum. Þetta er mjög jöfn deild þar sem allir geta stolið stigum af öllum, ef lið hitta ekki á góðan leik þá er þeim fljótt refsað,“ sagði Fanndís og ber deildinni vel söguna eftir dvölina í Noregi.

„Þetta er eins þar. Það eru topplið og svo miðlungslið þar fyrir neðan eins og hér. Aðstæður eru samt mun betri hér, maður gat ekkert stokkið inn í Fífuna þar. Mér finnst deildin heima eiga skilið meiri athygli annars staðar frá en hún fær, því stelpur frá Íslandi eru virkilega góðar í fótbolta,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir.