Forstjórinn Satya Nadella tók við sem forstjóri Microsoft í febrúarmánuði.
Forstjórinn Satya Nadella tók við sem forstjóri Microsoft í febrúarmánuði. — AFP
Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft mun á næstu mánuðum fækka störfum hjá fyrirtækinu um átján þúsund. Þetta var tilkynnt í gær.

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft mun á næstu mánuðum fækka störfum hjá fyrirtækinu um átján þúsund. Þetta var tilkynnt í gær.

Í tilkynningu frá Microsoft sagði að um væri að ræða „endurskipulagningu til að einfalda aðgerðir“ og samþætta Nokia-hluta fyrirtækisins við aðra þætti þess.

Í þeim hluta fyrirtækisins verður mest skorið niður. Þar verða 12.500 störf lögð niður. Einnig verður verksmiðju Nokia í Búlgaríu lokað.

Eins og kunnugt er keypti Microsoft farsímadeild Nokia í nóvembermánuði á um 5,4 milljarða evra, sem jafngildir um 838 milljörðum íslenska króna.

Hjá Microsoft starfa 127 þúsund manns og verður því störfum hjá fyrirtækinu fækkað um sem nemur 14% á næstu mánuðum. Í frétt Financial Times segir að um sé að ræða einhverjar umfangsmestu uppsagnir í sögu Microsoft. Til samanburðar sögðu stjórnendur fyrirtækisins upp 5.800 manns árið 2009, sem vakti hörð viðbrögð á þeim tíma. Áætlaður kostnaður Microsoft við aðgerðirnar nemur á bilinu 1,1 til 1,6 milljörðum dala.