Elín Inga Garðarsdóttir fæddist í Reykjavík 7. apríl 1962. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 11. júlí 2014.

Foreldrar hennar eru Garðar Sölvason, f. 16.5. 1934, d. 26.4. 2008, og Edda Hrönn Hannesdóttir, f. 4.5. 1937. Systkini Elínar eru 1) Óskírður Garðarsson, f. 1.6. 1955, látinn sama ár. 2) Hannes Hafstein Garðarsson, f. 29.7. 1956, d. 5.3. 2003. Börn hans eru a) Gunnar Örn Hannesson, f. 21.11. 1974, unnusta hans er Harpa Edwald, f. 22.5. 1974. Börn þeirra eru Valtýr Hrafn Gunnarsson, f. 26.11. 2008, og Júlíana Hrefna Gunnarsdóttir, f. 14.1. 2011. b) Garðar Sveinn Hannesson, f. 5.3. 1979, sambýliskona hans er Steinunn Tinna Þórðardóttir, f. 7.2. 1986. Barn þeirra er Valdís Erla Garðarsdóttir, f. 5.11. 2009. c) Edda Hrönn Hannesdóttir, f. 30.3. 1981, maki Þór Theodórsson, f. 10.3. 1980. Börn þeirra eru Bryndís Ása Þórsdóttir, f. 18.10. 2010, og Benedikt Sölvi Þórsson, f. 26.2. 2014. 3) Guðbjörg María Garðarsdóttir, f. 19.5. 1958, maki Theodór Friðgeirsson, f. 11.7. 1953. Börn þeirra eru a) Ísabella Theodórsdóttir, f. 24.10. 1978, maki Sigurgeir Gíslason, f. 24.4. 1974. Barn Ísabellu og Þorleifs Hreiðarssonar er Brynjar Freyr, f. 27.8. 1999. Börn Ísabellu og Sigurgeirs eru Theodór Gísli Sigurgeirsson, f. 12.6. 2006, og Tómas Ingi Sigurgeirsson, f. 13.7. 2013. b) Hafþór Theodórsson, f. 6.3. 1981, börn hans eru Viktor Blær Hafþórsson, f. 30.8. 2002, og Ásta María Hafþórsdóttir, f. 16.11. 2008. c) Eyþór Theodórsson, f. 6.3. 1981. 4) Garðar Trausti Garðarsson, f. 3.8. 1960. d. 7.10. 1997. 5) Ríkey Garðarsdóttir, f. 5.6. 1969, maki Margrét Sigurðardóttir, f. 6.5. 1966, sonur þeirra er Kristófer, f. 11.12. 1990.

Elín giftist eftirlifandi eiginmanni sínum Brynjari Halldóri Jóhannessyni, f. 18.3. 1966, 21. júlí 2001. Börn Elínar úr fyrra hjónabandi eru. 1) Þorvaldur Óskar Karlsson, f. 3.2. 1982, sambýliskona hans er Stina Sjøberg Raae, f. 16.6. 1981. Sonur Þorvaldar er Rúnar Karl Þorvaldsson, f. 9.5. 2008. 2) Valgerður Rós Karlsdóttir, f. 5.2. 1986. Sonur hennar er Benedikt Kári Valgerðarson, f. 7.4. 2008. 3) Rakel María Karlsdóttir, f. 12.3. 1991. Stjúpbörn Elínar og börn Brynjars eru Daníel Helgi Brynjarsson, f. 13.11. 1992, og Díana Brynja Brynjarsdóttir, f. 23.11. 1994.

Elín útskrifaðist af Læknaritarabraut árið 2005 og starfaði sem læknaritari á Landspítalanum til ársins 2007 en þá hóf hún störf í þjónustudeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún starfaði þar til 2013 en þurfti þá að láta af störfum vegna veikinda. Elín Inga verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju í dag, 18. júlí, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku stelpan mín.

Vertu sæl, og Guð gæti þín,

leiði þig með líknarhendi,

lífsins brauð af himnum sendi.

Vertu sæl, og Guð gæti þín.

Vertu sæl, og Guð minn gæti þín,

um þig vefji örmum sínum,

öllum létti raunum þínum.

Vertu sæl, og Guð minn gæti þín.

(Höf. ók.)

Ég elska þig.

Mamma.

Elsku litla systir. Mér finnst svo erfitt og sárt að kveðja þig en það er líka búið að vera svo erfitt að horfa upp á þjáningar þínar í rúmt ár. Alltaf héldum við í vonina um að þú myndir sigrast á þessum sjúkdómi en því miður tókst það ekki. Núna er þjáningum þínum lokið, elskan mín, og eftir sitjum við með sorg og söknuð í hjörtum okkar. Það er stundum svo ósanngjarnt þetta líf og það er svo dapurlegt hvað við fjölskyldan höfum fengið mörg og erfið verkefni að glíma við. Ég veit ekki alveg hvað „sá sem ræður“ heldur að við getum.

Einu sinni vorum við stórfjölskylda, mamma, pabbi og fimm börn sem ólumst upp í Árbæjarhverfi. Núna erum við bara tvær systurnar eftir og elsku mamma sem er að kveðja fjórða barnið sitt og búin að kveðja elsku pabba líka en þau voru gift í 52 ár. Þú varst alltaf mesta pæjan af okkur systrunum. Alltaf svo fín og vel tilhöfð. Litla systir okkar (Ríkey) hefur nú líka gaman af því að skreyta sig en það gleymdist alveg að setja þetta í mig. Meira að segja á spítalanum í baráttu fyrir lífinu, varst þú með hugann við það að punta þig aðeins.

Viku áður en þú lést, elskan mín, náðir þú að heimsækja okkur Tedda í sumarbústaðinn og áttum við frábæran dag með glensi og góðum sögum. Þessi dagur var ómetanlegur. Við munum eins og alltaf passa upp á elsku mömmu og halda vel hvor utan um aðra með hjálp fjölskyldunnar og ástvina.

Binni þinn er búinn að vera kletturinn þinn og það órar engan fyrir því hvað það er erfitt að sinna veikum einstaklingi í langan tíma fyrr en á það reynir.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Guð geymi þig, elsku litla systir, og takk fyrir samfylgdina.

Elsku mamma, Binni, Þorvaldur, Valgerður, Rakel María, Benedikt Kári, Rúnar Karl, Daníel, Díana, Ríkey, Gunna og aðrir sem eiga um sárt að binda, megi Guð gefa okkur öllum styrk til að takast á við sorgina.

Ég elska þig. Þín stóra systir,

María Garðarsdóttir (Maja).

Elsku fallega systa mín. Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur. Hversu sárt ég sakna þín fæ ég ekki með orðum lýst. Núna erum við Maja mín bara tvær eftir með mömmu litlu og það er svo margt ósanngjarnt í þessu lífi.

Þú varst sjö ára gömul þegar ég fæddist og þú varst alls ekki ánægð með að fá lítið systkini. Þú fórst í fangið á pabba og kvartaðir yfir þessum litla og óvænta öskurapa. Pabbi knúsaði þig og sagði að þú yrðir alltaf litla stelpan hans og þá horfðir þú á mömmu sigri hrósandi og sagðir: „Þú getur átt hana“ og bentir á mig. Við erum oft búnar að hlæja að þessu saman og þú sagðir mér ótal sinnum hvað þú værir þakklát fyrir að ég væri litla systir þín.

Þér fannst ekkert eðlilegra en að systir þín væri samkynhneigð og ef einhver hafði eitthvað út á það að setja þá varðir þú mig alla tíð með kjafti og klóm. Þú kallaðir okkur Möggu alltaf „lellurnar þínar“ og sagðist ekki geta hugsað þér betri „mákku“ en hana. Þú varst svo hláturmild og notaleg og það er svo margt sem rennur í gegnum huga minn á þessari stundu.

Minningarnar eru svo ótalmargar, þær mun ég ávallt varðveita. Þú háðir hetjulega baráttu í rúmt ár og ég trúði því af öllu hjarta að þú myndir hafa vinninginn. Binni þinn var algjör klettur í veikindum þínum og bar þig á örmum sér. Allan tímann hélt hann jákvæðni sinni og leyfði þér aldrei að efast um batahorfur. Þið tvö voruð fallegt púsl.

Stuttu fyrir andlát þitt áttum við ógleymanlegar stundir þar sem við hlógum mikið saman og nutum lífsins. Fórum m.a. upp í sumarbústað til stóru systur okkar og þú varst svo kát og glöð. Daginn eftir varstu grátandi í fangi mínu og tjáðir mér að þú vildir ekki fara frá okkur. Ég sagði þér að þú værir sko ekki að fara neitt og ég lofaði þér að þú myndir komast yfir þetta. Ég hafði því miður rangt fyrir mér. Það var átakanlegt að vaka yfir þér á spítalanum, ástin mín. Knúsa þig og kyssa á meðan þú barðist eins og ljón. Elsku gullið mitt, að fá að halda í hönd þína í lokin var eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað og það var svo sárt að kveðja þig.

Enginn fær flúið örlögin sín

aldrei ég þér gleymi.

Nú ert þú sofnuð systir mín

sæl í öðrum heimi.

Hlátra og hlýju brosin þín

í hjarta mínu geymi.

(Haraldur Haraldsson)

Elsku mamma, Binni, Þorvaldur, Valgerður, Rakel María, Daníel, Díana, Maja, Gunna, Rósa, Kaja og aðrir ástvinir; ég bið góðan Guð að styrkja okkur öll í sorginni um ókomna tíð.

Ég elska þig af öllu hjarta, systa mín, og kveð þig með miklum söknuði. Ég trúi því að elsku pabbi og bræður okkar hafi tekið vel á móti þér. Hvíl í friði, dúlla. Sjáumst seinna. Þín litla systir,

Ríkey.

Elsku Ella mín. Ég trúi ekki að þú sért farin frá okkur. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér og minningin um þig, „dúllan mín,“ mun eiga sérstakan stað í mínu hjarta um alla tíð.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þó sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Ríkey mín, Binni, mamma, Þorvaldur, Valgerður, Rakel, Daníel, Díana, Maja, Gunna, Rósa, Kaja og aðrir ástvinir, þið eigið alla mína dýpstu samúð.

Margrét Sigurðardóttir (Magga Massi).

Elsku frænka. Það er mjög erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur. Ég geymi í hjarta mínu minningu um góða og skemmtilega frænku. Hafðu þökk fyrir allt, Ella mín. Hvíl í friði.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem)

Elsku mömmur, amma, Binni, Þorvaldur, Valgerður, Rakel, Daníel, Díana, Maja og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Kristófer.

Mig langar að minnast vinkonu minnar, Elínar Ingu Garðarsdóttur, með örfáum orðum. Ég vann með Elínu í Hátúni fyrir mörgum árum og vorum við mjög góðar vinkonur og gerðum margt skemmtilegt saman. Elsku Elín mín, takk fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti með þér og fjölskyldu þinni og takk fyrir að vera vinur minn, mér þótti mjög mikið vænt um þig og ég á eftir að sakna þín mikið. Guð veri með þér, elsku vinkona, við sjáumst seinna. Elsku Ríkey mín, ég votta þér og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð vegna fráfalls Elínar Ingu Garðarsdóttur. Guð veri með ykkur öllum.

Guðrún Lára Pálsdóttir.

Kveðja frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Í dag kveðjum við hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu samstarfsfélaga okkar og vin, Elínu Ingu Garðarsdóttur. Elín hóf störf fyrir sjö árum í þjónustudeild embættisins og sinnti störfum sínum frá fyrsta degi afar vel og var lögreglunni til sóma með jákvæðni sinni og hjálpsemi. Hún var afar skemmtilegur starfsfélagi, hlý, opin og skemmtileg og auðgaði vinnustaðinn með hlýju sinni og kærleika. Hún lagði sig fram um að leysa úr hvers manns vanda og tókst á við þau verkefni sem henni voru falin með bros á vör.

Erfiðri baráttu hennar við illvígan sjúkdóm er nú lokið. Fyrir hönd samstarfsfélaga hennar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sendi ég eiginmanni hennar, fjölskyldu og vinum samúðarkveðjur.

Stefán Eiríksson

lögreglustjóri.