[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Guðbergur Rúnarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, segir raunhæft að stefna á að framleiðsluverðmæti í fiskeldi verði þrjátíu milljarðar króna árið 2030.

Baksvið

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Guðbergur Rúnarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, segir raunhæft að stefna á að framleiðsluverðmæti í fiskeldi verði þrjátíu milljarðar króna árið 2030. Til samanburðar nam framleiðsluverðmæti eldisfisks um sex milljörðum króna í fyrra. Þá voru jafnframt framleidd um átta þúsund tonn af eldisfiski, en gert er ráð fyrir að framleiðslan fari vel yfir tólf þúsund tonn í ár. Það er yfir 50% aukning á milli ára.

„Heilt yfir er mikil bjartsýni í mönnum, enda tel ég að annars væri ekki verið að ráðast í allar þessar fjárfestingar,“ segir Guðbergur í samtali við Morgunblaðið.

Þrjátíu milljarðar eru háar fjárhæðir og bendir Guðbergur á að það sé nokkuð svipað og makríllinn gaf af sér þegar best lét. „Við eigum mjög mikið inni í fiskeldinu. Þetta er nýtt makrílævintýri, en það tekur hins vegar lengri tíma,“ segir hann.

Hann nefnir að spáin sé miðuð við þá forsendu að verðið á eldisfisknum lækki ekki. „Ég held það sé nánast augljóst að verð á matvöru mun ekki lækka ef við miðum til dæmis við íbúaþróun.“

Framleiðslan margfaldast

Mikill uppgangur hefur verið í fiskeldi hér á landi og eru vonir bundnar við að sú þróun haldi áfram. Á árunum 2007 til 2011 stóð framleiðslan í um fimm þúsund tonnum á ári og reikna fiskeldismenn með að framleiðslan muni margfaldast á næstu áratugum, gangi öll áform eftir. Sumar spár gera ráð fyrir að árleg framleiðsla verði jafnvel komin í hundrað þúsund tonn um miðja þessa öld. Það myndi skila verðmætum upp á um áttatíu milljarða króna.

Um 150 manns hafa nú bein störf af fiskeldi hér á landi. Guðbergur bendir þó á að margfalda megi þá tölu, enda sé sá fjöldi sem kemur að greininni í óbeinum og afleiddum störfum mun meiri.

Mesta aukningin hefur verið í framleiðslu á laxi og regnbogasilungi. Bleikjan bar áður uppi framleiðsluna en Guðbergur segir að nú sé ekki útlit fyrir hraðan vöxt í bleikjueldi. Framleiðslan á henni hafi haldist nokkuð stöðug seinustu ár.

Sú aukning sem hefur orðið á framleiðslu á regnbogasilungi hefur hins vegar vakið nokkra athygli. Reyndar var mikill samdráttur í framleiðslunni í fyrra, sem rekja má til þess að fresta þurfti stórri slátrun, en í ár er ráðgert að framleiðslan verði um tvö þúsund tonn.

„Þessum tegundum, laxinum og regnbogasilunginum, hefur vegnað hvað best í heiminum. Sem betur fer hafa menn dregið úr þróunarvinnu í tegundum sem gefa ekkert af sér fyrr en eftir margra áratuga kynbótastarf. Regnboginn, laxinn og bleikjan hafa sannað sig og er hægt að rækta þessar tegundir án þess að vera í mikilli vísindastarfsemi.“

Ísland áhugaverður kostur

Sem dæmi um aukin umsvif eldislaxins á heimsvísu nam heimsframleiðslan rétt rúmlega tveimur milljónum tonna í fyrra og hefur hún þannig aukist um 65% frá árinu 2006. Sérfræðingar gera ráð fyrir að framleiðslan verði komin í 2,2 milljónir tonna strax á næsta ári.

Aðspurður um þennan aukna áhuga á sjókvíaeldi á Íslandi, þá aðallega á eldi á laxi og regnbogasilungi, nefnir Guðbergur meðal annars að aðstæður í Norður-Atlantshafi hafi breyst. Eldi kaldsjávarfiska hafi færst norðar, vegna hlýnandi sjós, og Ísland sé því orðið áhugaverður kostur. Einnig geti reynst erfitt að fá leyfi fyrir sjókvíaeldi í mörgum nágrannalöndum okkar.

Eins og áður sagði er mikil uppbygging framundan í fiskeldinu. Til marks um það segir Guðbergur að nú séu til staðar rekstrarleyfi fyrir 42 þúsund tonna framleiðslu, en til viðbótar séu áform um framleiðslu upp á 45 þúsund tonn. Framleiðslan gæti því, ef öll áformin ganga upp, numið allt að níutíu þúsundum tonna eftir nokkur ár. Útflutningsverðmæti afurðanna yrði þá hátt í áttatíu milljarðar króna.

Þorskeldi á útleið
» Eldi á laxi hefur aukist mjög á undanförnum árum. Má rekja aukninguna að stórum hluta til umsvifa Fjarðalax á Vestfjörðum.
» Í fyrra voru framleidd um 3.700 tonn af eldislaxi.
» Spáð er tæplega sjö þúsund tonna framleiðslu í ár.
» Mjög hefur hins vegar dregið úr þorskeldi. Árið 2008 stóð framleiðslan í 1.500 tonnum en í fyrra fór hún niður fyrir 500 tonn.
» Heimsmarkaðsverð á þorski hefur haldist lágt.