Svör Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, við fyrirspurnum HSÍ annarsvegar og Morgunblaðsins hinsvegar vegna þeirrar dæmalausu ákvörðunar að afturkalla keppnisrétt Eyjaálfu og handvelja Þjóðverja í staðinn sem keppnisþjóð á HM á næsta ári voru rýr.
Svör Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, við fyrirspurnum HSÍ annarsvegar og Morgunblaðsins hinsvegar vegna þeirrar dæmalausu ákvörðunar að afturkalla keppnisrétt Eyjaálfu og handvelja Þjóðverja í staðinn sem keppnisþjóð á HM á næsta ári voru rýr. Segja má að tungan sé rekin framan í fyrirspyrjendur. Svörin undirstrika þá hörmulegu staðreynd að þessari annars skemmtilegu íþrótt er stýrt með geðþóttaákvörðunum fárra manna sem fyrir löngu virðast vera komnir úr öllu sambandi við aðra en mammon.

Því miður voru staðreyndavillur í „svörum“ IHF og ýmislegt annað var eftiráspeki. Nefna má að bréf sem sagt er hafa verið dagsett 11. apríl er skrifað 16. apríl. IHF-ráðið (Council) sem virðist viljalaust verkfæri í höndum alræðisafla í framkvæmdastjórninni kom aldrei saman til fundar 30. maí. Ráðið fundar aðeins tvisvar á ári og í fyrra sinn á þessu ári var hinn örlagaríki fundur í Zagreb 8. júlí sl. Það hefur bakvörður dagsins fengið staðfest frá manni sem situr í ráðinu. Eftiráspekin verður ekki til umfjöllunar hér enda uppistaðan í svörunum.

Af hverju viðurkenndi IHF ekki strax að peningar hefðu ráðið för þegar ákveðið var að breyta reglum undankeppni HM eftir að henni var lokið í stað þess að standa í þessum misheppnaða skollaleik sem hefur staðið yfir á aðra viku? Stjórnendur IHF hefðu þá einu sinni sýnt að þeir væru ærlegir.

Víst er að þetta dæmalausa mál og hversu óhönduglega hefur verið unnið úr því hefur orðið til þess að skaða handboltaíþróttina enn frekar og þótti ýmsum vera nóg komið í þeim efnum.