Ævintýramennska Anna hefur ferðast víðsvegar um heiminn, m.a. suðurskautið, Norðaustur-Grænland og Himalajafjöllin. Hún fetar nú í fótspor móður sinnar, Ástríðar Jósepsdóttur, sem fór í reiðferð um Ísland árið 1925.
Ævintýramennska Anna hefur ferðast víðsvegar um heiminn, m.a. suðurskautið, Norðaustur-Grænland og Himalajafjöllin. Hún fetar nú í fótspor móður sinnar, Ástríðar Jósepsdóttur, sem fór í reiðferð um Ísland árið 1925.
Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is Anna Hauksdóttir, 81 árs, ferðast nú um Ísland á hestbaki. Sumarið 1925 fór móðir Önnu, Ástríður Jósepsdóttir, þá tvítug, í hestaferð um landið með Valgerði Einarsdóttur.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Anna Hauksdóttir, 81 árs, ferðast nú um Ísland á hestbaki. Sumarið 1925 fór móðir Önnu, Ástríður Jósepsdóttir, þá tvítug, í hestaferð um landið með Valgerði Einarsdóttur.

Valgerður og Ástríður fóru þá frá Signýjarstöðum í Borgarfirði í hring um landið á 42 dögum. Anna ætlar að minnast þeirra og vinkonu sinnar, Alice, sem var mikil hestakona, með mánaðarreiðtúr um Ísland.

Anna hefur búið í Bandaríkjunum í áratugi og er mikil ævintýramanneskja. Hún hefur ferðast um Suðurskautslandið og Grænland og klifrað í Himalajafjöllum. Hún lætur aldurinn ekki stoppa sig í að takast á við ný verkefni.

Spennandi ferð

Ferðin hefst og endar á Signýjarstöðum í Borgarfirði. Anna kemur við á mörgum stöðum á leiðinni, svo sem Hvammstanga, Egilsstöðum, Möðrudal, Hveravöllum og Þingvöllum. Tveir meðreiðarsveinar eru með Önnu, þau Guðmundur Ragnarsson og kona hans, Katrín Blöndal, sem eltir þau á bíl.

„Ferðin hefur verið spennandi hingað til,“ sagði Anna við Morgunblaðið. „Ég kann þó varla að ríða hesti úti í náttúrunni. Fyrir ferðina hafði ég lært að ríða amerískum hestum, en það var bara í reiðhöllum. Sú æfing veitti mér þó öryggi í kringum hesta, en Guðmundur, meðreiðarsveinninn minn og leiðsögumaður, er duglegur að kenna mér. Það er mikilvægt að vera með gott fólk í kringum sig í svona ferðum. Guðmundur og Katrín hafa verið mjög drífandi. Ég gæti ekki hugsað mér betri ferðafélaga en þau.“

Anna var spurð hvort ferðin hefði verið erfið. „Þetta er eins og allt annað sem maður reynir í lífinu. Þetta getur verið erfitt, en ég held áfram og segi við sjálfa mig að ég geti þetta. Ég rek á eftir sjálfri mér.“

Gistir á bóndabæjum og tjaldar

Ferðin hefur hjálpað Önnu að tengjast Íslandi. „Ég hef séð mun meira af landinu en ég hafði áður gert. Við höfum gist á bóndabæjum og líka tjaldað. Allir hafa tekið ótrúlega vel á móti okkur, hvert sem við höfum farið.“

Að hestaferðinni lokinni ætlar Anna í fjallgöngu með vinum sínum. „Ég hef ekki ákveðið hvaða fjall við klífum. Það kemur bara í ljós. Ég lifi fyrir einn dag í einu og þannig nálgast ég þessa ferð líka,“ segir Anna að lokum.

Öll mjólkin varð að smjöri

Sumarið 1925 fóru tvær konur, Valgerður Einarsdóttur og Ástríður Jósepsdóttir, þá tvítugar, í hestaferð um Ísland. Ferðin hófst á Signýjarstöðum í Borgarfirði og lá leiðin norður um land, svo til Atlavíkur og þaðan til Hveravalla en ferðinni lauk síðan á Signýjarstöðum þar sem hún byrjaði. Valgerður Einarsdóttir hélt úti dagbók um ferðina sem birtist í riti Kaupfélags Borgfirðinga árið 1990. Þær gistu á bóndabæjum víðsvegar um land og tjölduðu einar þegar þess þurfti. Þær lentu í ýmsu í ferðinni, t.d. gaf húsmóðir ein þeim mjólk. Þær gátu ekki klárað mjólkina og settu afganginn í flösku. Þá riðu þær af stað og næst þegar þær námu staðar til að borða hafði öll mjólkin breyst í smjör. „Ég hafði aldrei gert mér grein fyrir að svo mikið smjör fengist úr einni mörk af nýmjólk,“ stóð í dagbókinni.