[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson thorkell@mbl.is „Sleggjukastinu er bara úthýst á þeim forsendum að skemmdir verði. Það er öllum ljóst að það verða skemmdir á grasi.

Frjálsar

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson

thorkell@mbl.is

„Sleggjukastinu er bara úthýst á þeim forsendum að skemmdir verði. Það er öllum ljóst að það verða skemmdir á grasi. En það er hins vegar öllum ljóst sem skoða það eitthvað náið að skemmdirnar eru af þeim toga að það er hægt að gera við þær, án þess að eitthvað stórkostlegt verði. Vellirnir jafna sig alltaf,“ segir Gísli Sigurðsson, frjálsíþróttaþjálfari á Akureyri, sem berst fyrir því að keppt sé í sleggjukasti á sama stað og keppt er í öðrum keppnisgreinum í frjálsíþróttum, en ekki á sérstöku kastsvæði utan keppnisvallarins, eins og tíðkast víða.

„Þetta er réttindabarátta og jafnréttisbarátta,“ segir Gísli.

„Það tekur bara tvo til þrjá viljuga starfsmenn einn klukkutíma að gera við völlinn eftir keppni í sleggjukasti. Svo er ekkert hreyft við því meira ef það er gert vel. En það getur vissulega tekið tíma að gróa. Það hefur alveg gerst hérna fyrir norðan að það hefur verið keppni í sleggjukasti á Þórsvelli sama dag og það hefur verið fótboltaleikur á sama velli um kvöldið,“ segir Gísli og minnist ekki kvartana vegna þessa úr röðum knattspyrnumanna.

Ekkert mál að gera við völlinn

„Það er ekkert mál að gera við völlinn. Það verða skemmdir og það verða líka verulegar skemmdir af knattleikjum, sérstaklega í rigningu og við erfiðar aðstæður. Skemmdir eftir sleggjukast er miklu einfaldara að gera við, þó ljótar séu. Þegar við höfum komist í rökræðu um þetta hér á Akureyri eða í Skagafirði þar sem ég var áður þá verða menn bara rökþrota. Þess vegna köstum við inn á völlinn. En það er auðvitað ekkert gert í öllum mótum, heldur aðeins í stóru mótunum. Það dugar okkur alveg að í stærri mótum sé sleggjunni kastað inn á völlinn þar sem frjálsíþróttir fara fram, ekki einhvers staðar annars staðar úti í horni. Það verður frá mínum bæjardyrum séð seint fallist á að þessari glæsilegu kastgrein frjálsíþrótta sé úthýst með þessum hætti og á þessum forsendum þegar á hinn bóginn slit vegna knatt-notkunar er talið ásættanlegt, og endurnýjun og viðgerðir vegna þeirrar notkunar í góðu lagi.“

Dagleg þjálfun er annað mál

„Skemmdir á grasvelli eftir sleggjukast eru ljótar og þær eru svo sýnilegar að það er auðvelt að sannfæra alla um að þessi íþróttagrein eigi ekki að fara fram á aðalvellinum. En skemmdirnar eru bara ekki af þeim toga að fulltrúar sveitarfélaga eða knattspyrnuhreyfingarinnar geti leyft sér að banna sleggjukast á ákveðnum völlum af því þar eigi að fara fram knattspyrna síðar,“ segir Gísli sem telur að margir í frjálsíþróttahreyfingunni um allan heim þori ekki að taka þennan slag.

„Svo þarf að taka með í reikninginn að margar íþróttir krefjast gríðarlegs pláss fyrir æfingar og kastíþróttir í frjálsíþróttum eru langt því frá að vera undanskildar því. Ég er heldur ekki að tala fyrir því að sleggjukast sé æft á leikvangi. Þjálfun er allt annar handleggur og það þarf sérstakan slitvöll til að kasta á. Þar þýðir ekkert að iðka fótbolta eða annað, því slíkir vellir eru allir í holum. En það er óeðlilegt að það sé ítrekað gert að kröfu að keppni í stórum mótum fari fram á æfingasvæði, enda dregur það sleggjukastið niður. Stundum er kringlukastinu meira að segja líka vikið frá aðalvellinum og sett á kastsvæði í keppni.“

Meira slit eftir knattnotkun

„Ef maður skoðar velli að vori, þá snýst staðan á vellinum akkúrat ekkert um sleggjukast eða kringlukast á síðasta ári, heldur fyrst og síðast um veðurlag hér á Íslandi og að öðru leyti er það slit vegna knattnotkunar. Þetta vita menn og þegar maður kemst fram fyrir þá með þessi rök og lætur þá ekki bara valta yfir sig þá lenda menn í erfiðleikum í rökræðum,“ segir Gísli um þessa jafnréttisbaráttu sína fyrir því að sleggjukast sé meðhöndlað á sama hátt og aðrar greinar frjálsíþrótta.