Greint var frá því í fyrradag að tyrkneskum strætisvagnsstjóra hefði verið sagt upp störfum og hann misst ökuréttindin eftir að farþegi setti myndband á netið þar sem sást að bílstjórinn hafði ekki hugann við hraðan aksturinn á götum Istanbúl heldur var...

Greint var frá því í fyrradag að tyrkneskum strætisvagnsstjóra hefði verið sagt upp störfum og hann misst ökuréttindin eftir að farþegi setti myndband á netið þar sem sást að bílstjórinn hafði ekki hugann við hraðan aksturinn á götum Istanbúl heldur var niðursokkinn í lestur bókar.

Við lestur fréttarinnar varð Víkverja hugsað til allra íslensku ökumannanna, sem hafa ekki hugann við aksturinn, ekki aðeins vegna þess að þeir eru uppteknir við lestur heldur vegna þess að þeir eru önnum kafnir við að tala í síma, senda sms, drekka kaffi, fá sér smók, snyrta sig, fara yfir reikningana og þar fram eftir götunum – og komast upp með það á ferðinni.

Víkverji hefur aldrei séð fyrrnefndum ökumönnum refsað, hvað þá að þeir séu stöðvaðir. Hins vegar verða ökumenn, sem eru með hugann við aksturinn, fyrir barðinu á löggunni. Hún situr fyrir þeim og sektar þá sem voga sér að að aka örlítið yfir löglegum hámarkshraða, þar sem aðstæður eru eins og best verður á kosið, eins og til dæmis á Miklubraut og í Ártúnsbrekku.

Víkverji borgar bifreiðagjöld tvisvar á ári eins og aðrir skilvísir bifreiðaeigendur en það er ekki Tollstjóra að þakka að hann fékk greiðsluseðilinn að þessu sinni heldur nágranna, sem býr hinum megin götunnar. Þegar umræddur nágranni opnaði umslagið sem hann fékk sent frá Tollstjóra brá honum í brún því þar var ekki einn greiðsluseðill heldur tveir. Við nánari athugun kom í ljós að Víkverji átti að fá annan seðilinn. Sparnaður hins opinbera tekur á sig ýmsar myndir.

En það er ekki bara kerfið sem heldur að sér höndum. Víkverji hefur tekið eftir óvenjumörgum óskoðuðum bílum í umferð eða bílum sem fara átti með í endurskoðun í júní eða fyrr. Og eigendur komast upp með það.