[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hyggst í haust hefja uppbyggingu nýrrar verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði fyrir hreinsun og framleiðslu á kísli fyrir sólarhlöð.

BAKSVIÐ

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hyggst í haust hefja uppbyggingu nýrrar verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði fyrir hreinsun og framleiðslu á kísli fyrir sólarhlöð. Uppbyggingarkostnaður hljóðar upp á um 77,5 milljarða króna en áætluð stærð verksmiðjubyggingarinnar er um 93.000 fermetrar og verður framkvæmdasvæðið alls 223.000 í fermetrum talið.

Davíð Stefánsson, ráðgjafi Silicor Materials hér á landi, segir væntingar standa til þess að framleiðsluafköstum verði náð haustið 2017 eða vorið 2018. „Þegar þetta fer af stað þá verður þetta eitt stærsta iðnverkefnið hér á landi enda er það mjög umfangsmikið,“ segir Davíð og bendir á að framleiðslugeta verksmiðjunnar verður 19.000 tonn og áætlað verðmæti framleiðslunnar um hálfur milljarður Bandaríkjadala á ári. Sólarkísill Silicor er að mestu seldur til Kína, eða um 75%, en einnig er hann seldur til Kóreu, Taívans og Bandaríkjanna.

Átti fyrst að rísa vestanhafs

– Á þetta verkefni sér langan aðdraganda?

„Undirbúningur hefur verið í gangi í nokkur ár. Upphaflega ætluðu menn að fara af stað í Bandaríkjunum og var sú vinna ansi langt á veg komin. Verkefninu var hins vegar sjálfhætt þar eftir að ákveðið var að setja á þá 60% tolla. Þurfti því að finna nýja staðsetningu og komu þeir til Íslands síðasta haust.“ Að sögn Davíðs komu helst þrír staðir til greina hér á landi, en þeir eru Helguvík, Bakki og Grundartangi.

Aðspurður segir hann einkar gott aðgengi við Grundartanga hafa ráðið mestu þegar ákveðið var að reisa verksmiðjuna þar. „Vegna stærðar verkefnisins var fljótlega ljóst að Bakki yrði ekki inni í myndinni. Helguvík var hins vegar talsvert mikið skoðuð, enda hafa báðir staðirnir sína styrkleika.“

Sólarkísilverksmiðjan byggist á framleiðsluaðferð sem Silicor Materials fann upp og hefur einkaleyfi á. Felst framleiðslan í því að hreinsa hefðbundinn kísilmálm, eins og þann sem ætlað er að framleiða á Bakka og í Helguvík, með því að minnka magn bórs, fosfórs og ýmissa málma í kíslinum. Niðurstaðan verður svo 99,9999% hreinn kísill sem nota má í sólarhlöð. Að sögn Davíðs er bráðið ál notað til þess að hreinsa kísilinn en óhreinindi bindast frekar áli en kísli. Þessi hreinsunarferð kallar á mun minni orku þar sem hreinsunin fer fram með kísli í fljótandi formi en ekki í formi lofttegundar líkt og nú tíðkast. „Það sem greinir þetta félag frá öðrum er að þeir hreinsa kísilinn með áli. Sú vinnsluaðferð er mun umhverfisvænni en allar aðrar og fyrir vikið verður mengunin mun minni.“

Ferlið prófað í Toronto

– Verða til einhverjar aukaafurðir við framleiðsluna?

„Það verða aðallega tvenns konar aukaafurðir til. Annars vegar það sem kallað er álklóríð sem notað er til að hreinsa vatn í vatnsveitum í Evrópu og Norður-Ameríku. Hin afurðin er svo kísilblandað ál sem m.a. er notað í bíla- og flugvélaiðnað til þess að létta og styrkja farartæki og er meðal annars notað í álfelgur á bíla.“ Silicor hefur undanfarið rekið tilraunaverksmiðju í Toronto í Kanada þar sem sýnt hefur verið fram á ágæti þessa hreinsunarferils. Þar hefur fyrirtækið framleitt og selt sólarkísil en að sögn Davíðs hafa alls um 700 tonn af sólarkísil verið framleidd og yfir 20 milljónir sólarhlaða með kísil frá fyrirtækinu.

Hentar grænu hagkerfi

Umhverfislegur ávinningur af framleiðslu Silicor á Íslandi er sagður margþættur. Er framleiðsluferillinn m.a. að mestu án mengunar. „Ef þessi verksmiðja væri af samskonar gerð og aðrar sólarkísilverksmiðjur þá hafa menn verið að áætla losun 100.000 til 120.000 tonn af koltvísýringi (CO 2 ). Í tilviki Silicor er reiknað með um tæpum 1.000 tonnum á ári,“ segir Davíð. Til samanburðar er útstreymi koltvísýrings frá álverum á Íslandi um 450.000 til 500.000 tonn á ári. Þá bendir hann einnig á að engin brennisteins- eða flúormengun komi til með að fylgja framleiðslunni auk þess sem umhverfisáhrif af rekstrinum verða í lágmarki.

„Árleg framleiðsla Silicor fer til framleiðslu sólarhlaða sem virkja munu í framtíðinni víða um heim 3-3,5 GWe sólarorku. Þetta er grænt og vænt. Slík verkefni ættu að vera velkomin í það græna hagkerfi sem við Íslendingar viljum byggja.“