Sorg Palestínumenn syrgja fjögur börn sem létu lífið í loftárás á Gaza.
Sorg Palestínumenn syrgja fjögur börn sem létu lífið í loftárás á Gaza. — AFP
Stjórnvöld í Egyptalandi reyndu í gær að binda enda á blóðsúthellingarnar á Gaza-svæðinu. Fregnir hermdu að Ísraelar og leiðtogar Hamas-samtakanna hefðu samþykkt vopnahlé, sem átti að taka gildi í nótt, en þær voru dregnar til baka.

Stjórnvöld í Egyptalandi reyndu í gær að binda enda á blóðsúthellingarnar á Gaza-svæðinu. Fregnir hermdu að Ísraelar og leiðtogar Hamas-samtakanna hefðu samþykkt vopnahlé, sem átti að taka gildi í nótt, en þær voru dregnar til baka.

Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, og talsmaður Hamas sögðu að fréttirnar væru ekki réttar en viðræðunum yrði haldið áfram. Fréttaveitan AFP hafði eftir stjórnmálaskýrendum í Kaíró að Egyptar hefðu reynt án árangurs að fá Hamas-samtökin til að fallast á tafarlaust vopnahlé án nokkurra skilyrða en síðan hafið viðræður sem miðuðu að því að Ísraelar kæmu með einhverjum hætti til móts við kröfur samtakanna.

Fundu flugskeyti í skóla

Alls hafa 237 Palestínumenn beðið bana í loftárásum Ísraelshers á Gaza-svæðið síðustu níu daga. Ísraelar segja að markmiðið með hernaðinum sé að stöðva flugskeytaárásir Hamas á Ísrael. Þeir hafa einnig sakað Hamas-samtökin um að nota óbreytta borgara sem skildi með því að fela vopn í íbúðarbyggingum, skólum og á sjúkrahúsum.

Palestínuflóttamannahjálpin (UNRWA) kvaðst í fyrradag hafa fundið 20 flugskeyti í mannlausum skólum á Gaza og sagði að fordæma bæri þá sem feldu vopn í skólabyggingum.