Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Illa er komið fyrir Alþingi Íslendinga, ef þetta „hugsjónamál“ fær þar framgang svo sem margt bendir til að muni verða."

Það hryggir mig alltaf ósegjanlega hve alvörulaus umræðan um áfengismál er alltof oft og ég tala nú ekki um þegar þingmál eru flutt, sem hvergi koma nærri þeim staðreyndum um áfengisvandann sem við er að glíma. Enn er vegið í sama knérunn og mælt fyrir stjórnlausu aðgengi að áfenginu eða það kalla ég þrátt fyrir vanburða tilraunir til að fela þann raunveruleika sem allt hugsandi fólk sér. Allt er þetta í nafni einhvers óskilgreinds frelsis, svona eins og þetta sé einn meginþátta lýðfrelsis á landi hér. Háðsmerkið er svo reyndar sett með, því allt í einu er farið að kalla eftir meira fjármagni til að takast á við þann vanda sem af skapast.

Illa er komið fyrir Alþingi Íslendinga, ef þetta „hugsjónamál“ fær þar framgang svo sem margt bendir til að muni verða. Það hryggir mig að aðeins einn þingflokkur skuli hafa heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi umfram þá gróðavon kaupahéðna sem auðvitað er frumforsenda þessa máls. Kveikjan nú er trúlega fáránlegar kröfur erlends auðrisa um alls konar undanþágur frá íslenzkum lögum, þ.m.t. áfengismálum. Við sem erum bindindismenn leitum fanga hjá virtustu heilbrigðisstofnun heims, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, sem fjallar rækilega um þann vanda sem af áfengisneyzlu stafar, vanda sem t.d. Bretar telja mesta heilbrigðisvanda þjóðarinnar og draga ekki af í ljósi reynslu og þróunar. En hvað segir svo í áliti hinnar virtu stofnunar um hvað helzt beri að varast í áfengismálum, hvað skyldi vera þar efst á blaði? Aukið aðgengi að áfengi er þar víta verst að varast. Og út á hvað gengur svo hugsjónin sem Alþingi á að fjalla um? Það skyldi þó ekki vera að meginþemað þar sé einmitt að stórauka aðgengi fólks að áfengi og samhliða því mun svo nokkuð örugglega verða knúið á um lækkun áfengiskaupaaldurs, svo „frelsið“ verði enn fullkomnara. Þar varar WHO einnig við sem víti til að varast, af því að þar á bæ vita menn að hvert áfengislaust ár æskufólks er dýrmætt til frambúðar. En að frelsishjalinu enn og aftur, gæsalappafrelsinu sem ég hefi áður kosið að kalla það, þá vildi svo til að sama kvöldið sem ég var að blaðfesta þessi orð var verið að sýna ljósmyndir af lífi útigangsmanna í borginni og þar sagði ljósmyndarinn einfaldlega að enginn þessara manna hefði kosið það hörmungarlíf sem þeir lifa og voru orð að sönnu. Ætli þetta ógæfusama fólk hafi ekki hrópað á aukið aðgengi að veigunum sem var orsökin að ógæfu þeirra? Ætli allir þeir einstaklingar sem upplifað hafa þá hræðilegu harmleiki sem áfengið hefur valdið muni krjúpa á kné og biðja um fleiri slíka? Eða eru menn svo heittrúaðir á sinn falska málstað að þeir skynji ekki allar þær hörmungar sem áfengisneyzla hefur í för með sér eða skipta þessi ósköp þá engu máli, þegar gróðahyggjan er annars vegar? Ég var reyndar á dögunum að lesa athyglisverða grein um gróðahyggjuna svo víða, þá anga hins alþjóðlega auðvalds af ýmsu tagi sem mergsýgur fólk um heim allan. Þar var áfengisauðvaldið í fremstu röð ógæfuvalda mannkyns.

Skyldu áhrif þess vera til staðar líka hér? Ég vil hreinlega ekki trúa slíku. Á þeim bæ er ekki spurt um lífsgæfu fólks frekar en hjá öðru auðvaldi heimsins. Eigum við ekki að leggja lífsgæfu fólks hvarvetna lið?

Það gerum við ekki með því að opna enn frekar allar flóðgáttir áfengisneyzlunnar, svo sem þarna er stefnt að. Aukið aðgengi þýðir aukna neyzlu, aukin neyzla skapar fleiri vandamál sem þó er nóg af fyrir. Ágætu alþingismenn! Hlustið nú á WHO ykkur til farsælla ákvarðana. Þar er sá leiðarvísir sem eftir á að fara.

Höfundur er form. fjölmiðlanefndar IOGT.