— Morgunblaðið/Kristinn
18. júlí 1644 Mislingar bárust til landsins í fyrsta sinn, með skipi sem kom til Eyrarbakka. Í Skarðsárannál var sagt að sóttin hefði gengið yfir allt landið og verið mjög mannskæð. 18.

18. júlí 1644

Mislingar bárust til landsins í fyrsta sinn, með skipi sem kom til Eyrarbakka. Í Skarðsárannál var sagt að sóttin hefði gengið yfir allt landið og verið mjög mannskæð.

18. júlí 1931

Framkvæmdir hófust við verkamannabústaðina við Hringbraut, Bræðraborgarstíg og Ásvallagötu í Reykjavík. Alls voru íbúðirnar 54 og var flutt inn í flestar þeirra í maí 1932.

18. júlí 1963

Stórbruni varð í verksmiðju Ísaga við Rauðarárstíg í Reykjavík. Miklar sprengingar urðu þegar eldur komst í gashylki. Nálæg hús voru rýmd og rúður sprungu í mörg hundruð metra fjarlægð frá þessu „logandi víti“, eins og blöðin nefndu það.

18. júlí 1970

Þingeyskir bændur fóru í mótmælaferð frá Húsavík til Akureyrar í bílalest. Þeir voru að lýsa andstöðu við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Laxá. Við virkjunina var strengdur borði með áletruninni „Verndum perlu íslenskrar náttúru“. Rúmum mánuði síðar var stífla í ánni sprengd.

18. júlí 1970

Stór sovésk herflugvél með fimmtán farþega og átta manns í áhöfn hvarf af ratsjá 47 mínútum eftir flugtak frá Keflavík. Vélin var á leið til Kanada. Brak fannst og er talið hugsanlegt að sprenging hafi orðið um borð.

18. júlí 2007

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar var 9.016 stig í lok viðskipta dagsins og hafði aldrei verið hærri. Á næstu tólf mánuðum lækkaði hún um 54%.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson