[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhanna Eyrún fæddist í Keflavík 18.7. 1974 á afmælisdegi móðurömmu sinnar. Því var kjörið að skíra barnið í höfuðið á henni.

Jóhanna Eyrún fæddist í Keflavík 18.7. 1974 á afmælisdegi móðurömmu sinnar. Því var kjörið að skíra barnið í höfuðið á henni. Jóhanna ólst upp á Laugarvatni, æfði og keppti í frjálsum íþróttum frá sex ára aldri og fór oft í Eyrarsveitina til ömmu og afa í föðurætt, að aðstoða við sauðburð og hjálpa ömmu með vorverkin í garðinum: „Þar brallaði ég margt með frænku minni og nöfnu. Við settum upp veitingahús í stofunni, fórum í nautaat í fjörunni með sérvöldum skeljum og í sjóræningjaleik á þökum útihúsanna. Hjá afa fengum við besta harðfisk í heimi og rúsínan í pylsuendanum var að gefa heimalningunum pela.“

Fjölskylda Jóhönnu flutti til Reykjavíkur þegar hún var sextán ára. Hún fór í ML, var þar á heimavist og kynntist þar eiginmanninum, Rafni Steinþórssyni. Að loknu stúdentsprófi tók hún eins árs frí frá námi en hóf síðan nám í matvælafræði við HÍ og lauk BS-prófi í þeirri grein. Skömmu síðar fæddist frumburðurinn, Sigurður Darri, en aðeins tveimur mánuðum fyrr hafði Jóhanna eignast systur, Kristjönu. Þær mæðgurnar eyddu því haustinu 1998 saman í fæðingarorlofi.

Jóhanna stundaði skrifstofustörf hjá rannsóknarstofu í næringarfræði, hóf síðan meistaranám í næringarfræði við HÍ, vann verkefnið úr íslenskum gögnum en tók bóklegu fögin sem skiptinemi við hinn Konunglega landbúnaðarháskóla í Danmörku. Að námi loknu var hún rannsóknarmaður hjá Statens Serum Institut í Kaupmannahöfn um skeið.

Við heimkomuna varð Jóhanna sérfræðingur hjá Hollustuvernd ríkisins. Sú stofnun sameinaðist öðrum stofnunum í Umhverfisstofnun og þar var Jóhanna sérfræðingur á matvælasviði og sérhæfði sig í málefnum sem snéru að næringu og neytendavernd. Hún tók m.a. þátt í að útbúa ráðleggingar um mataræði fyrir barnshafandi konur í samstarfi við Lýðheilsustöð og Miðstöð mæðraverndar.

Vorið 2006 varð Jóhanna fyrsti ráðgjafi skólamötuneyta leik- og grunnskóla hjá Menntasviði Reykjavíkurborgar og haustið 2007 hóf hún doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Læknadeild HÍ. Doktorsverkefnið fjallaði um áhrif næringar á mismunandi æviskeiðum á áhættuna á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli og var unnið í samstarfi við Hjartavernd, Krabbameinsskrá, Landspítala og Harvard School of Public Health. Samhliða námi vann Jóhanna ýmis hlutastörf m.a. fyrir Reykjavíkurborg, Lýðheilsustöð og við kennslu.

Rómuð doktorsritgerð

Doktorsnáminu lauk í ágúst 2012, en þegar fyrstu niðurstöður í verkefninu voru kynntar á ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum í janúar 2011 hlaut það viðurkenningu frá Velferðarráðuneytinu sem framúrskarandi verkefni á sviði lýðheilsu.

Jóhanna var rannsóknarsérfræðingur, aðferðafræðingur og stundakennari hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og á Menntavísindasviði HÍ, en í febrúar sl. tók hún við stöðu nýdoktors hjá Rannsóknarstofu í næringarfræði við HÍ. Þar sinnir hún áfram rannsóknum sínum, sem hófust í doktorsnáminu og rannsakar áhrif mataræðis á mismunandi æviskeiðum við áhættuna á að greinast með krabbamein i brjóstum og skoðar áhrif af D-vítamínhag á lífslíkur meðal þeirra sem eru með krabbamein í blöðruhálskirtli eða brjóstum.

Jóhanna hefur verið virkur meðlimur í Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands, í Faralds- og líftölfræðifélaginu og Félagi lýðheilsufræðinga.

Helstu áhugamál Jóhönnu eru matargerð og crossfit ástundun, lestur tímarita um innanhúshönnun og lestur góðra bóka: „ Ég veit þó ekkert betra en að vera í góðra vina hópi með mat og drykk og hlæja mikið því hláturinn lengir lífið.“

Fjölskylda

Jóhanna giftist haustið 2004 Rafni Steinþórssyni, f. 27.1. 1973, verksmiðjustjóra hjá Vörumerkingu ehf. Foreldrar hans: Kolbrún Sigurðardóttir, f. 25.4. 1953, d. 23.12. 1985, garðyrkjufræðingur, og Steinþór Sigurðsson, f. 6.9. 1950, garðyrkjufræðingur.

Börn Jóhönnu og Rafns eru Sigurður Darri Rafnsson, f. 11.7. 1998, Kolbrún Lena Rafnsdóttir, f. 19.2. 2003, og Hildur Bella Rafnsdóttir, f. 26.9. 2008.

Systkini Jóhönnu eru Vigdís María Torfadóttir, f. 9.9. 1977, hugbúnaðarsérfræðingur hjá Meniga í Reykjavík, Ólöf Guðbjörg Söebech, f. 3.5. 1978, umhverfisfræðingur í Brussel, og Eiríkur Fannar Torfason, f. 12.3. 1980, tölvunarfræðingur í Zürich.

Foreldrar Jóhönnu eru Guðrún Hildur Hafsteinsdóttir, f. 11.6. 1955, sérfræðingur hjá Landsbankanum, og Torfi Rúnar Kristjánsson, f. 13.1. 1954, verkefnastjóri hjá Ríkislögreglustjóra.