Þegar við mér blasti enn stærri og nú skærgrænn gervilimur fóru að renna á mig tvær grímur...

Vinkona mín ætlar að ganga að eiga vin minn í sumar. Eins og gengur tók hópur ungra kvenna sig til, lét vekja hana með látum og fékk gæsin síðan að leika listir sínar fram eftir degi. Um kvöldið settumst við niður, hlógum dálítið meira og dýfðum ávöxtum í súkkulaði.

Þó langt væri liðið á kvöldið var dagskránni hvergi nærri lokið. Næst var komið að því að kynna það nýjasta í snyrtivöruheiminum fyrir hinni tilvonandi frú. Eða það hélt ég allavega. Þegar hér var komið sögu var ég ekki mjög spennt, heldur farin að geispa og sá ekki fyrir mér að taka bakföll af hlátri yfir möskurum og andlitskremi.

Dyrabjallan glumdi og eftir stutta stund birtist hress kona í dyragættinni. Hún dró á eftir sér tösku á hjólum, kom sér fyrir í stofunni og dró því næst upp bleikan gervilim. Þessu átti ég svo sannarlega ekki von á.

„Mikið er hún sniðug að brjóta ísinn á þennan hátt,“ hugsaði ég þó með mér, bjartsýn og viss um að titrarar veki jafnan lukku meðal ungs fólks og því hafi verið tilvalið að koma með hlut af þessu tagi í partíið.

Konan sneri tækinu á alla kanta, lýsti eiginleikum þess, svaraði spurningum vinkvennanna og lét það því næst ganga á milli. Eftir að ungu konurnar höfðu allar fengið að handleika liminn, dró hún næsta hlut upp úr pokanum. Þegar við mér blasti enn stærri og nú skærgrænn gervilimur fóru að renna á mig tvær grímur. Voru kynningar á möskurum kannski farnar að snúast um eitthvað annað en nafn þeirra gefur til kynna? Ég hallaði mér að vinkonu minni og spurði hana í hálfum hljóðum hvers konar snyrtivörukynning þetta væri eiginlega. Vinkonan horfði á mig, brosti út að eyrum, hló innilega og benti mér síðan vinsamlega á að hér stæði yfir kynning á hjálpartækjum ástarlífsins, aldrei hafi staðið til að kynna maskara og því hefði ég greinilega misskilið tilgang fyrirtækisins hrapallega. Þegar ég opinberaði misskilning minn meðal vinkvennanna uppskar ég svo mikinn hlátur að nágrannarnir hafa eflaust hrokkið upp af værum blundi.

Þegar heim var komið var ég engu fróðari um hinar ýmsu gerðir augnhárabursta heldur verkjaði mig aðeins í spékoppana eftir hlátrasköll kvöldsins. Stundum getur bara verið aldeilis ágætt að vera ekki með á nótunum, lífið er kannski bara skemmtilegra þannig.

Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.is