Sköpunarþörf Arnar Dan Kristjánsson er höfundur, leikstjóri og leikari nýs einleiks sem frumsýndur verður í Tjarnarbíói. Leikmynd verksins byggist á 90 vörubrettum sem HB Grandi lagði til.
Sköpunarþörf Arnar Dan Kristjánsson er höfundur, leikstjóri og leikari nýs einleiks sem frumsýndur verður í Tjarnarbíói. Leikmynd verksins byggist á 90 vörubrettum sem HB Grandi lagði til. — Morgunblaðið/Ómar
Lykilatriðið er að vera einlægur og aðgengilegur leikari. Góðir leikarar eru aðgengilegar og góðar manneskjur.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Verkið fjallar um ungan dreng sem ræður sig um borð á línubát í von um að geta fyllt vasa sína af peningum en lendir í hrömmunum á áhöfn sem rænir hann því sem engir peningar geta keypt, því hann er rændur sakleysi sínu,“ segir Arnar Dan Kristjánsson, leikari, höfundur og leikstjóri einleiksins Landsliðið á línu sem frumsýndur verður í Tjarnarbíói laugardaginn 19. júlí kl. 20.

Landsliðið á línu er frumraun Arnars Dans sem leikskáld, en verkið kviknaði á námskeiði í leikaranámi hans við Listaháskóla Íslands. „Á lokaári mínu í skólanum sótti ég námskeið undir leiðsögn Stefáns Halls Stefánssonar og Ólafar Ingólfsdóttur þar sem fókúserað var á einstaklingsverkefni. Ég ákvað að skrifa einleik sem byggir að einhverju leyti á því sem ég hef upplifað, þó þetta sé að grunni til skáldskapur,“ segir Arnar Dan, sem sjálfur stundaði sjóinn þrjú sumur í röð þegar hann var yngri og þekkir því vel lífið um borð þó hann hafi ekki lent í hremmingum sambærilegum þeim sem lýst er í verkinu.

„Mig langaði lengi til að fá Arnmund Ernst [Backman Björnsson], mjög góðan vin minn og bekkjarbróður í leiklistarnáminu, til að leika einleikinn minn, en þegar til kastanna kom þá tímdi ég því hins vegar ekki. Í einleik er maður að mála myndir í huga áhorfenda. Ég sé þessar myndir ljóslifandi fyrir mér og ég held því að ég sé betri til að miðla þessum myndum þar sem ég fékk þetta beint í æð.“

Einlægni er lykilatriði

Einleikurinn er um 70 mínútur í flutningi og leikinn án hlés. „Þetta er hreinræktuð sögustund, en þetta er hlý og falleg sýning. Þetta er skemmtilegt verk með allnokkrum húmor, þó svo að þetta sé alls ekkert gamanverk. Mér finnst að leikhús eigi að miðla góðum sögum og ég vil alls ekki klippa á góða sögu í miðju kafi,“ segir Arnar Dan. Spurður hvort vandasamt sé að leika einleik segir Arnar Dan að vissulega verði breyting að hafa engan mótleikara til að leika á. „En í staðinn mun ég leika á áhorfendur og hlusta eftir svörun þeirra. Lykilatriðið er að vera einlægur og aðgengilegur leikari. Góðir leikarar eru aðgengilegar og góðar manneskjur.“

Arnar Dan verður þó ekki alveg einn á sviðinu, því Bára Gísladóttir leikur frumsamda tónlist sína á kontrabassa. „Hljóðfærið hefur miklar skírskotanir. Kontrabassinn er flotinn, grunnurinn, ómurinn, þetta er flautan, niðurinn og botninn í verkinu. Bassatónlistin kallast skýrt á við leiktextann og hjálpar til við framvinduna. Tónlist raddarinnar og leikarinn er þó alltaf í forgrunni í verkinu.“

Með nýja sýningu í bígerð

Arnar Dan útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2013 og starfaði í Borgarleikhúsinu sl. vetur þar sem hann lék í Refnum , Jeppa á Fjalli og Furðulegu háttalagi hunds um nótt . „Ég kunni mjög vel við mig í Borgarleikhúsinu, enda draumurinn að fá að starfa sem atvinnuleikari. Hins vegar hefur líka lengi blundað með mér þörfin fyrir að segja mínar eigin sögur,“ segir Arnar Dan sem næsta vetur mun vera sjálfstætt starfandi og hyggst vinna að eigin verkefnum.

Spurður hvort hann hyggist skrifa meira fyrir leiksviðið svarar Arnar Dan því játandi. „Ég er að skrifa annað verk sem frumsýnt verður um miðjan ágúst í Tjarnarbíói. Um er að ræða söngskemmtun sem ber vinnutitilinn Samsuða stórveldanna . Hugmyndin er að blanda saman þremur árum í lífi Shakespeare, þ.e. tímann þegar hann skrifaði 154 sonnettur, og tengja það við Bítlalög í madrígalastíl. Ég verð sögumaður og leikstjóri, en hef fengið til liðs við mig frábæra stráka sem eru búnir að syngja saman í 12 ár auk þess sem Sigríður Soffía Hafliðadóttir, kærastan mín, tekur þátt. Það er stuttur tími til stefnu, en ramminn er skýr og það skapar meira rými fyrir sköpun.“

Þess má að lokum geta að næstu sýningar á Landsliðinu á línu verða laugardaginn 26. júlí og sunnudaginn 27. júlí kl. 20 bæði kvöld.