Brak og brunarústir Aðskilnaðarsinnar, sem ráða yfir svæðinu þar sem farþegaþotan fórst, og íbúar í nágrenninu unnu að björgunarstörfum í gær. Litlu var þó að bjarga þar sem talið er að allir innanborðs hafi farist.
Brak og brunarústir Aðskilnaðarsinnar, sem ráða yfir svæðinu þar sem farþegaþotan fórst, og íbúar í nágrenninu unnu að björgunarstörfum í gær. Litlu var þó að bjarga þar sem talið er að allir innanborðs hafi farist. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Allt bendir til þess að Boeing 777-200 vél Malaysia Airlines, sem hrapaði í austurhluta Úkraínu á leið sinni frá Hollandi til Kuala Lumpur í Malasíu í gær, hafi verið skotin niður.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Allt bendir til þess að Boeing 777-200 vél Malaysia Airlines, sem hrapaði í austurhluta Úkraínu á leið sinni frá Hollandi til Kuala Lumpur í Malasíu í gær, hafi verið skotin niður. Um borð voru 280 farþegar og 15 manna áhöfn en litlar líkur eru taldar á að nokkur hafi komist af lifandi. Hörð átök hafa geisað milli úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna í Donetsk-héraði, þar sem flugvélin fórst, en hvorugur aðili vill kannast við að bera ábyrgð á harmleiknum.

Flug MH17 tók af stað frá Schiphol-flugvelli í Amsterdam kl. 10.15 að íslenskum tíma. Um fjórum klukkustundum síðar rofnaði samband við vélina, þar sem hún var stödd yfir austurhluta Úkraínu, um 50 km frá landamærunum að Rússlandi. Sjónarvottar sögðust hafa heyrt háværa sprengingu og í kjölfarið hefði vélinni rignt niður í pörtum. Blaðamenn lýstu því hvernig lík lágu á víð og dreif innan um brennandi brakið; sum ennþá spennt við flugvélasætin, önnur sundurtætt.

Petro Porosénkó, forseti Úkraínu, sagði í tilkynningu í gær að hann hefði sett sig í samband við forsætisráðherra Hollands, Mark Rutter, og sagst vilja vekja athygli á því að úkraínsk stjórnvöld vildu ekki tala um harmleikinn sem atvik eða stórslys heldur hryðjuverk. Leiðtogar uppreisnarmanna í Donetsk neituðu hins vegar sök og sögðust ekki búa yfir vopnum sem gætu skotið niður vél í þeirri hæð sem MH17 var í þegar hún hrapaði. Samkvæmt AFP er þó hugsanlegt að aðskilnaðarsinnarnir hafi ruglað vélinni saman við úkraínska herflutningavél og skotið hana niður með rússnesku eldflaugakerfi sem þeir komust yfir fyrr um daginn. Vísar fréttastofan í færslur á samskiptasíðum leiðtoga hins svonefnda Alþýðulýðveldis Donetsk máli sínu til stuðnings.

Forseti Alþýðulýðveldisins, Alexander Borodai, sagði í gærkvöldi að hann væri tilbúinn að samþykkja nokkurra daga vopnahlé í ljósi harmleiksins og þá hafði forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, eftir Porosénkó að forsetinn væri tilbúinn að semja við uppreisnarmenn um mannúðaraðgang að svæðinu þar sem vélin hrapaði.

Harmleikur
» BBC sagði frá því í gærkvöldi að um borð í vélinni hefðu verið 154 hollenskir farþegar, 27 Ástralar, 23 Malasar, 11 Indónesar, 6 Bretar, 4 Þjóðverjar, 4 Belgar, 3 Filippseyingar og einn Kanadamaður.
» Átökin í austurhluta Úkraínu hafa ekki komið í veg fyrir flug yfir svæðið en nokkur flugfélög, þ.ám. Lufthansa, British Airways, Air France og Delta tilkynntu í gær að vélar þeirra myndu ekki fljúga inn í úkraínska lofthelgi á næstunni.