Þórarinn Sæbjörnsson fæddist á Höfn á Bakkafirði í N-Múlasýslu 17. mars 1927. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 9. júlí 2014.

Foreldrar hans voru Sæbjörn Þórarinsson, f. 25.4. 1886, d. 22.9. 1973 og Ásta Laufey Guðmundsdóttir, f. 15.2. 1905, d. 20.12. 1973. Systkini Þórarins eru Fanney Ingibjörg, f. 1923, Guðjón Aðalsteinn, f. 1924, d. 1993, Ragnar, f. 1925 d. 1989, Arnbjörg, f. 1929, d. 2002, Svavar Sigurður, f. 1931, d. 2006, Lilja, f. 1935, Heiða, f. 1937, Guðlaug Margrét, f. 1939 og Kári, f. 1943. Þórarinn giftist Helgu Guðríði Bjarnadóttur, f. 21.4. 1927, d. 9.8. 1991. Foreldrar hennar voru Bjarni Jónsson, f. 24.12. 1886, d. 3.10. 1963 og Jónína Guðmundsdóttir, f. 20.2. 1886, d. 18.2. 1959. Börn Þórarins og Helgu eru:

1) Bjarnveig, f. 4.7. 1945, fv. eiginm. Guðsteinn Ingi Sveinsson, f. 4.9. 1945, d. 30.7. 1967, synir: a) Jón Bjarni, f. 1964, börn hans og Ingunnar Helgu Hallgrímsd. f. 1964, eru Hildur María, g. Andra Ólafssyni. Synir: Ólafur Alexander og Daníel Ingi; Ingi Viðar, sbk. hans er Birgithe Anderssen; Guðrún Bjarnveig, sbm. hennar er Martin Sørli, og Skúli Snær, sbk. hans er Hege Munthe-Kaas. b) Sveinn Steinar, f. 5.10. 1966, m. Sylvía Sigurðardóttir, f. 25.6. 1967, börn: Guðsteinn Ingi og Hildur Svava. Sonur Sylvíu er Aron F. Þorsteinsson. Dætur Sveins: Snædís, dóttir, Emma Karítas og Svava Helga, Synir: Kristófer Breki og Viktor Dan. Bjarnveig er nú gift Skúla Ragnarssyni, f. 17.7. 1945, Börn: c) Helga, f. 1973, g. Baldri Sigurðssyni, f. 1972, dóttir: Bryndís Rún. Fyrir átti Baldur Huldu Kristínu. d) Ragnar, f. 1978, sbk. Úlfhildur Ída Helgadóttir, f. 1985. Dætur Ragnars eru Elva Sóldís og Dagrún Sunna.

2) Sæbjörn, f. 14.1. 1957, g. Guðrúnu Antonsdóttur, f. 25.6. 1964. Börn: a) Halla Björk, f. 1978, g. Jóhanni Péturssyni. b) Ólafur Viggó, f. 1983. c) Hildur Ýr, f. 1993. d) Sara Dís, f. 1999.

3) Jónína, f. 3.8. 1959, g. Gunnari Stígssyni, f. 4.6. 1956. Dóttir Gunnars er a) Íris, f. 1977, g. Sigurði Gunnari Ragnarssyni, f. 1975. Börn: Aron Júlían og Elísa Lind. Börn Jónínu og Gunnars eru: b) Þóranna Helga, f. 1980, c) Jón Gunnar, f. 1984, d. 2000 og d) Bjarki Hrafn, f. 1996.

4) Ásta Laufey, f. 9.4. 1962, g. Ragnari Má Sigfússyni, f. 20.10. 1959, börn: a) Berglind, f. 1980, m. Vignir Sigurólason, f. 1963. Börn: Bjartur og Viðja Karen. b) Ragnheiður, f. 1984, g. Atla Þór Ragnarssyni, f. 1983. Barn þeirra er Ragnar Starri. c) Sunna Björk, f. 1988, m. Elvar Steinn Traustason, f. 1987. d) Þórarinn, f. 1989, m. Hulda Finnsdóttir, f. 1989.

Þórarinn ólst upp hjá foreldrum sínum í Nýjabæ, Bakkafirði. Sumarið 1945 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Sandgerðis, þar sem þau byggðu sér heimili og nefndu það Bergholt. Í Sandgerði fór hann að vinna við fiskvinnslu og smíðar. Seinna fór hann á síldarvertíðir á bátnum Ingólfi þar sem tilvonadi eiginkona hans var kokkur. Þórarinn starfaði í mörg ár hjá Guðmundi Jónssyni, útgerðarfyrirtæki í Sandgerði. Síðar vann hann við múrverk og smíðar sem urðu hans ævistarf. Árið 1978 fór hann að vinna á Keflavíkurflugvelli þar sem hann lauk sínum starfsferli. Þórarinn og Helga keyptu æskuheimili Helgu, Skeiðflöt í Sandgerði þar sem þau bjuggu allan sinn búskap. Árið 2005 flutti Þórarinn í Miðhús þar sem hann bjó til dánardags.

Þórarinn verður jarðsunginn frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag, 18. júlí 2014, kl. 14.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Héðan skal halda

heimili sitt kveður

heimilisprýðin í hinsta sinn.

Síðasta sinni

sárt er að skilja,

en heimvon góð í himininn.

(Vald. Briem)

Nú er komið að leiðarlokum, margar ljúfar minningar koma upp í huga okkar. Við vitum að það verður vel tekið á móti þér og þú yfirgefur jarðvistina sáttur með langt og gott lífshlaup. Elsku pabbi og afi, takk fyrir allar samverustundirnar í gegnum árin. Hvíldu í friði, okkar hinsta kveðja,

Sæbjörn og fjölskylda.

Elsku afi, nú ertu búinn að kveðja okkur í síðasta sinn og er þín sárt saknað.

Það eru ótal minningar sem koma upp í hugann þegar við systkinin ræðum saman um stundir okkar með þér. Á Skeiðflöt leið tíminn á öðrum hraða en annars staðar. Þú hafðir alltaf nægan tíma til að hjálpa okkur ef eitthvað kom upp á eða kenna okkur sitthvað nytsamlegt. Þó þú hafir aldrei verið margorður þá hlustuðum við systkinin heilluð á þegar þú sagðir frá renniferð þinni á skítakassanum og öðrum bernskubrekum. Okkur fannst alltaf jafn merkilegt að heyra hvað þið bjugguð mörg í húsinu og eins var stóra klukkan ávallt mikilfengleg í augum barnsins. Bílskúrinn var friðhelgur, það var ekki margt sem þú bannaðir okkur að gera en að rusla til í bílskúrnum féll í þann flokk. Út úr bílskúrnum komu þó hinir ýmsu dýrgripir sem þú bjóst til af þínum alkunna hagleik. Í okkar huga var ekkert sem þú gast ekki smíðað eða lagað og stóðst þú fyllilega undir þeim væntingum. Þú varst alltaf jafn bóngóður og gafst þér tíma til að smíða fyrir okkur veiðistangir, flugdreka, boga og örvar og meira að segja hjól, geri aðrir betur. Einnig varstu alltaf til í að laga það sem brotnaði eða bilaði eftir slæma meðferð. Sjálfur varstu þó ekki þekktur fyrir slíkt hið sama og nú brosum við að því að börnin okkar fengu að leika sér að sama dótinu og við á Skeiðflöt og örugglega móðir okkar þar á undan. Hjá þér var alltaf allt á sínum stað og ekki var óþarfa dót að þvælast fyrir. Nægjusemi þín, nytsemi og æðruleysi er eitthvað sem sjaldséð er orðið í dag og vonandi eitthvað sem við getum haft að leiðarljósi í okkar eigin lífi. Allar þær samverustundir sem við áttum með þér, afi, eru okkur dýrmætar minningar. Takk fyrir allt.

Berglind, Ragnheiður,

Sunna Björk og Þórarinn.

Elsku afi, ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti með ykkur ömmu, bæði á Skeiðflöt og heima í sveitinni á sumrin, meðan heilsa ykkar leyfði. Mikil var tilhlökkunin þegar ykkar var von í Ytra-Áland. Alltaf komuð þið færandi hendi og vilduð allt fyrir okkur gera. Á námsárunum bjó ég um tíma hjá ykkur í Sandgerði, það var góður og skemmtilegur tími.

Blessuð sé minning þín, elsku afi.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Helga Skúladóttir.

Hinsta kveðja.
Afi okkar er látinn eftir stutt veikindi. Við eigum eftir að sakna afa, sérstaklega um jólin, en þá fórum við alltaf til hans annan í jólum í hangikjöt og var glatt á hjalla hjá okkur.
Ó afi minn kæri
við kveðjumst um sinn.
Tárin mín hníga,
hljóð niður kinn.
Allt sem þú gafst mér,
það þakka ég vil.
Skilja nú leiðir,
um ómarkað bil.
(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)
Bless, elsku afi, og takk fyrir allt. Saknaðarkveðja,
Þóranna Helga og
Bjarki Hrafn.