Á þessum degi, 18. júlí 1921, fæddist Jón Óskar – róttækt skáld og einn af ritstjórum Birtings. Hann hafði mjög mikil áhrif á ungt fólk og þá sem sóttu Laugaveg 11.

Á þessum degi, 18. júlí 1921, fæddist Jón Óskar – róttækt skáld og einn af ritstjórum Birtings. Hann hafði mjög mikil áhrif á ungt fólk og þá sem sóttu Laugaveg 11. Ég man að Dagur Sigurðarson sagði einu sinni við mig með spámannsglampa í augum, að Jón Óskar væri eitt af stórskáldum Íslands. Þetta erindi velur Jóhannes úr Kötlum í Skáldu:

Ég hlusta hljóður inni

og heyri regnið falla

í rökkvans rauða svið.

Það grætur einhver úti

sem enginn kannast við.

Einar Bragi var annar af ritstjórum Birtings, stúdent frá MA lýðveldisárið 1944. Hann var þá strax orðinn skáld gott og birti ljóð sín í Munin. Þar er m.a. „Í gær...“.

Í gær var mitt hjarta sem opin und

ýfðist við snerting hverja,

í dag svo þýtt eins og móðurmund,

sem megnar hvert frjó að verja,

á morgun kalt eins og klakagrund,

sem kyljunnar hnúar berja.

Kristján Karlsson var einn af ritstjórum Nýs Helgafells. Hann var stúdent frá MA árið 1942, birti ljóð sín í Munin og orti þá þegar undra vel. Þessi hringhenda ber yfirskriftina „Í Hvannalindum“:

Heyri ég óma enn í dag

útlagaróminn þungan.

Kaldur er hljómur, kalt er lag.

Köld er við góminn tungan.

Þessar stökur eru frá menntaskólaárum Kristjáns:

Ormur leyni úr sig dró,

eftir greinum mændi:

Gráa rein í gömlum skóg

grænum teinung rændi.

Stjarna hrundi um himin þvert,

hverjir mundu í ráðum?

Ævin skundar, hvaðan? hvert?

kemur stundin bráðum?

Hvolfin heiðu, gatan greið

guðareiðum fráum

andann seiða óraleið

eftir skeiðum bláum.

Hrökkva blóm af heljardúr,

himinskjómans kraftur

jörðu dróma drepur úr;

dagur hljómar aftur.

Eikin háa draup og dó;

dauðinn máir alla.

Það er stráum þessum fró

þegar dáin falla.

Þögul barðist sál við sál

særði hvor sem dýpst og mest;

þung eru heiftar þagnarmál.

Þeirra benjar gróa verst.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is