— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is 96% þeirra sem svöruðu könnun þjóðfræðingsins Búa Stefánssonar eru jákvæðir fyrir því að útfarir séu í meira mæli miðaðar við persónu þess látna og að veraldleg tónlist, t.d.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

96% þeirra sem svöruðu könnun þjóðfræðingsins Búa Stefánssonar eru jákvæðir fyrir því að útfarir séu í meira mæli miðaðar við persónu þess látna og að veraldleg tónlist, t.d. dægurlög, popp og þungarokk, hljómi á kostnað hefðbundinnar útfarartónlistar. Þá kemur einnig fram að 66% viðmælenda Búa hafi ákveðið lag í huga fyrir sína eigin útför og segir Búi 75% þeirra laga vera dægurlög, rokklög eða popplög.

Spurningalisti var lagður fyrir 220 einstaklinga og svaraði tæpur helmingur þeirra könnuninni sem var hluti lokaritgerðar Búa til BA-gráðu í þjóðfræðatengslum.

„Þetta efni hafði lítið sem ekkert verið skoðað innan þjóðfræðinnar, m.a. vegna þess að það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem athyglin hefur beinst að samtímamenningunni á hennar eigin forsendum, athöfnum, hefðum og siðum sem einstaklingar þ.e. hópar hafa tileinkað sér í daglegu lífi í nútímasamfélagi,“ segir Búi sem er mikill áhugamaður um tónlist og ekki síst þá tónlist sem veki upp tilfinningar hjá fólki.

„Ég á mér nokkur lög sem ég heyrði á sínum tíma og hugsaði með mér að ég vildi láta flytja þegar ég kveddi þennan heim,“ segir Búi. Hann segir áhuga sinn á útfarartónlist hafa aukist enn frekar eftir að hann heyrði af því að lög með þungarokkssveitinni Skálmöld hefðu verið spiluð í útför kunningja síns. Viðkomandi hafði verið veikur lengi og vildi hann að lög Skálmaldar yrðu spiluð í útförinni sinni, sem að öðru leyti var hefðbundin kirkjuleg útför.

Útför fyrir aðstandendur?

Í ritgerðinni varpar Búi fram spurningunni fyrir hvern útförin sé.

„Er hún fyrir þann látna eða syrgjandi aðstandendur? Er mikilvægara að tónlistin sem hljómar í útförinni endurspegli persónu hins látna eða að hún fari vel ofan í þá sem syrgja,“ spyr Búi og segir hann suma viðmælendur sína hafa talað um að í sorgarferlinu væri betra að heyra tónlist sem tengdist hinum látna og hans persónu á meðan aðrir hafi aftur á móti talað um að það gæti reynst aðstandendum óbærilegt að hlusta á uppáhaldslög viðkomandi í athöfninni og sorgin yrði bara meiri fyrir vikið.

Búi segir fullt tilefni til að skoða þetta frekar og segir hann það koma vel til greina að hann haldi sinni vinnu áfram. „Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig hefðin muni mæta auknum kröfum fólks um persónumiðaðar útfarir.“

Hefðbundnara í sveitinni

Guðjón Halldór Óskarsson organisti segir að á þeim tæpu 25 árum sem hann hafi spilað í útförum hafi hann orðið var við aukningu rólegra og fallegra dægurlaga en segir að ekki sé um byltingu að ræða í þeim efnum og að klassísku sálmarnir haldi sér alltaf. Hann segir tónlistarval vera hefðbundnara úti á landi en í borginni.

Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju, tekur í sama streng og segir sína reynslu vera að meira sé um óvenjulegar beiðnir á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.