Tónskáld Björgvin Halldórsson stendur fyrir stóru sveitaballi í Hreðavatnsskála á morgun ásamt þeim Stefáni Hilmarssyni og Jóhönnu Guðrúnu.
Tónskáld Björgvin Halldórsson stendur fyrir stóru sveitaballi í Hreðavatnsskála á morgun ásamt þeim Stefáni Hilmarssyni og Jóhönnu Guðrúnu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slegið verður upp í allsherjar sveitaballi í Hreðavatnsskála á morgun en þá munu Björgvin Halldórsson og Stefán Hilmarsson stíga á svið og skemmta gestum fram á nótt.

Slegið verður upp í allsherjar sveitaballi í Hreðavatnsskála á morgun en þá munu Björgvin Halldórsson og Stefán Hilmarsson stíga á svið og skemmta gestum fram á nótt. Rokkabillýbandið ásamt söngkonunni Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur mun auk þess koma fram en yfirheiti viðburðarins er Bo&Co.

„Þetta verður ekta sveitaball eins þau gerast best,“ segir Björgvin meðal annars um viðburðinn. Söngvarinn góðkunni hefur marga fjöruna sopið frá því hans fyrsta breiðskífa, Þó líði ár og öld , kom út árið 1969. Hann hefur meðal annars sungið fyrir sveitirnar Bendix, Flowers, Ævintýri, Brimkló auk þess að vera einn af forsprökkum HLH-flokksins. Nú síðast vann hann náið með Jóni Jónssyni og gáfu þeir kumpánar út plötuna Duet 3 síðasta sumar. Stefán Hilmarsson þarf vart að kynna en hann er eflaust hvað þekktastur fyrir sveit sína, Sálina hans Jóns míns. Sveitin er einhver lífseigasta sveit Íslands en 26 ár eru frá stofnun hennar. Meðal platna hennar má nefna Hvar er draumurinn? sem kom út árið 1989 og Þessi þungu högg sem kom út árið 1992. Jóhanna Guðrún hefur frá unga aldri sungið sér og öðrum til skemmtunar og vann það sér helst til frægðar að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2009 sem haldin var í Moskvu. Þrímenningarnir eru hoknir af reynslu og ættu því að geta töfrað fram sveitaball að gömlum sið.

Að sögn Hlífars Ingólfssonar staðarhaldara er mikil stemning fyrir ballinu en búist er við fjölda tónleikagesta. Nálgast má frekari upplýsingar í Hreðavatnsskála sem og á vefsvæðinu promo.is.

davidmar@mbl.is