Þorsteinn Magnússon
Þorsteinn Magnússon
Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum vegna framgöngu frambjóðenda Framsóknar og flugvallarvina í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í vor.

Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum vegna framgöngu frambjóðenda Framsóknar og flugvallarvina í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í vor. Hann segir að flokkurinn hafi engan veginn gert málið upp með viðunandi hætti.

Í tilkynningu frá Þorsteini segir hann m.a. að í aðdraganda kosninganna hafi ítrekað birst af hálfu framboðs Framsóknar og flugvallarvina boðskapur „sem helst varð skilinn svo að framboðið teldi að með tilkomu mosku í Reykjavík ykjust líkur á ýmsum samfélagslegum vandamálum, þ.ám. lögbrotum.“

Þá segir Þorsteinn: „Með þessu var annaðhvort meðvitað eða ómeðvitað alið á andúð á tilteknum trúarhópi í kosningabaráttu en slíkt sæmir engan veginn siðuðu stjórnmálaafli. Umræðan sem framboðið efndi til var að mínu mati tilefnislaus, meiðandi í garð múslima og til þess fallin að ýta undir fordóma og mismunun. Þá fær hún að mínum dómi með engu móti samræmst grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins, enda birtust þar viðhorf sem tengjast mun frekar þjóðernissinnaðri íhaldsstefnu heldur en frjálslyndri miðjustefnu.“

Í tilkynningunni segir Þorsteinn jafnframt að formaður Framsóknarflokksins og flest annað lykilfólk í forystu flokksins hafi látið hjá líða að gera opinberlega athugsemdir við framgöngu framboðsins á meðan á kosningabaráttunni stóð.

„Þá fela orð formanns flokksins undanfarið að mínum dómi í sér fullkomna afneitun á því að nokkuð hafi verið athugavert við það hvernig kosningabarátta flokksins var háð. Verða orð hans vart skilin öðruvísi en hann hafi ekkert við umræddan málflutning framboðsins að athuga.“

Þorsteinn segir forsendur fyrir veru hans í Framsóknarflokknum brostnar og hann geti ekki, samvisku sinnar og sannfæringar vegna, haldið áfram að starfa fyrir flokkinn. Hann segist munu segja sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og varaþingmennskunni sömuleiðis.