Guðmundur Ingi Ásmundsson
Guðmundur Ingi Ásmundsson
Landsnet ætlar að hefjast strax handa við að undirbúa tengingu fyrirhugaðs kísilvers United Silicon við meginflutningskerfi raforku á Fitjum á Reykjanesi.

Landsnet ætlar að hefjast strax handa við að undirbúa tengingu fyrirhugaðs kísilvers United Silicon við meginflutningskerfi raforku á Fitjum á Reykjanesi.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, sagði að lagður yrði níu kílómetra langur jarðstrengur frá Fitjum til Helguvíkur. Spennan á strengnum verður 132 kílóvolt (kV). Jafnframt verður byggður fyrsti áfangi nýs tengivirkis í Helguvík sem hefur fengið nafnið Stakkur. Nýja tengivirkið verður yfirbyggt eins og öll ný tengivirki Landsnets. Í því verður háspennubúnaður fyrir 132 kV og 33 kV spennu. Framkvæmdakostnaður Landsnets vegna þessara framkvæmda er áætlaður vera um 1,3 milljarðar. Framkvæmdirnar eiga að fara á fullan skrið í byrjun næsta árs.

Jafnframt vinnur Landsnet að því að ljúka leyfisferli vegna Suðurnesjalínu 2. „Við vonumst til að framkvæmdir við hana hefjist í haust,“ sagði Guðmundur Ingi. Reiknað er með að kostnaður við gerð Suðurnesjalínu 2 verði um 2,1 milljarður króna.

Guðmundur Ingi sagði að mikil álagsaukning hefði verið á Reykjanesi vegna aukins iðnaðar, netþjónabúa og annarrar nýrrar starfsemi. „Það er orðið mjög brýnt að koma Suðurnesjalínu 2 inn til að tryggja afhendingaröryggi raforku til allrar þessarar starfsemi.“