Stúdentshúfa.
Stúdentshúfa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkvæmt Vinnumálastofnun voru alls 6.053 án vinnu í lok júní. Af þeim hafði 2.701 lokið grunnskólanámi en ekki öðru námi, en til samanburðar voru 3.283 í þeim hópi án vinnu í sama mánuði í fyrrasumar.

Samkvæmt Vinnumálastofnun voru alls 6.053 án vinnu í lok júní. Af þeim hafði 2.701 lokið grunnskólanámi en ekki öðru námi, en til samanburðar voru 3.283 í þeim hópi án vinnu í sama mánuði í fyrrasumar. Alls 622 með framhaldsnám ýmiss konar voru án vinnu í júní, 689 í júní í fyrrasumar. Alls 545 sem höfðu lokið iðnnámi voru atvinnulausir í júní en 820 í júnímánuði árið áður.

Þá voru 754 sem höfðu lokið stúdentsprófi atvinnulausir í júní en þeir voru 933 fyrir ári. Loks var 1.431 sem lokið hafði háskólanámi án vinnu í júní en þeir voru 1.546 í sama mánuði 2013. Atvinnuleysi í þeim hópi hefur því lítið breyst.

Atvinnuleysið er á undanhaldi

• Hlutfall atvinnulausra á landsbyggðinni er að meðaltali 2,5% • Sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun segir nú „mjög lítið“ atvinnuleysi á Íslandi • Atvinnuleysi hjá iðnmenntuðum er 34% minna en í fyrra Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra hefur lítið breyst í sumar frá fyrra ári en störfum fyrir iðnmenntaða fjölgar hins vegar hratt.

Þetta má lesa út úr greiningu Vinnumálastofnunar á atvinnuleysinu í júní. Segir þar að 545 einstaklingar sem lokið hafa iðnnámi hafi verið án vinnu í júní, borið saman við 820 í fyrra. Það er fækkun um 34% á einu ári. Staðan er önnur hjá háskólamenntuðum. Alls 1.431 einstaklingur með slíka menntun var án vinnu í júní sl. en 1.546 í júní í fyrrasumar. Það er um 7% fækkun.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá VMST, telur aðspurður að margir sem lokið hafa grunnnámi í háskóla eigi erfitt með að fá vinnu, t.d. verkfræðingar og tölvunarfræðingar. Gjarnan sé nú krafist meistaraprófs.

Meiri hreyfing á vinnumarkaði

Hann segir þá breytingu hafa orðið á vinnumarkaði frá því í fyrrasumar að nú sé meiri hreyfing á fólki milli starfa. Það staldri skemur við á atvinnuleysisskrá en áður. Það bendi til aukins framboðs starfa.

Afar lítið atvinnuleysi er á landsbyggðinni eða 2,5% að meðaltali, samkvæmt skilgreiningu Vinnumálastofnunar.

Karl telur aðspurður líklegt að skortur sé orðinn á starfsfólki í vissum greinum. Alls eru 1.593 skráðir án vinnu á landsbyggðinni en til samanburðar er vinnuafl þar áætlað 63.720 einstaklingar. Á höfuðborgarsvæðinu eru 4.124 án vinnu og samsvarar það 3,6% atvinnuleysi. Landsmeðaltalið er 3,2%.

„Þetta er að verða mjög lítið atvinnuleysi og nálgast það sem var í kringum 2002-2004“ segir Karl. „Og það er minna en lengst af á tíunda áratug síðustu aldar. Það var þannig mikið atvinnuleysi á árunum 1993-1996 og fór ársmeðaltalið þá hæst í 5%.“

Að sögn Karls hefur atvinnuleysi á landsbyggðinni verið minna en á höfuðborgarsvæðinu alla þessa öld, ef undan eru skilin árin 2006-2008, þegar þetta snerist við vegna spennu á vinnumarkaði á suðvesturhorninu.

Breyttist árið 1995

Fram til ársins 1995 var að jafnaði meira atvinnuleysi á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu og telur Karl eflaust margar skýringar á því, t.d. að mikið árstíðabundið atvinnuleysi í fiskveiðum og fiskvinnslu víða á landsbyggðinni hafi farið minnkandi á árunum 1990-2000. „Þá virðist samdráttur í iðnaði og almennt aukin samkeppni erlendis frá eftir aðildina að EES-svæðinu árið 1994 hafa átt hlut að máli að atvinnuleysið varð á þessum tíma að jafnaði meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni,“ segir Karl um þróunina.

Margir falla af skránni

Spurður hversu margir hafa verið án vinnu í 12 mánuði eða lengur segir Karl að hlutfall þeirra af fólki á atvinnuleysisskrá sé nú 25-28%, borið saman við 35-40% á árunum 2011 og 2012. „Hlutfallið hefur lækkað bæði vegna þess að fólk hefur verið að klára bótarétt sinn og svo hefur starfsþjálfunarúrræðum sérstaklega verið beint að þessum hópi.“

Hann áætlar að 80-100 manns hafi klárað bótarétt sinn og því fallið af atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun á mánuði á árunum 2012 og 2013, eða frá um 1.900 til 2.400 eftir því með hvorri tölunni er margfaldað. „Það má áætla að fjöldinn sé svipaður á þessu ári,“ segir Karl.

Má af því ráða að frá ársbyrjun 2012 og fram á mitt þetta ár hafi um 2.500-3.000 manns fallið af atvinnuleysisskrá, eftir að hafa misst rétt til atvinnuleysisbóta.

Karl bendir á að þátttaka fólks í þessum hópi í átaksverkefnum á vinnumarkaði eigi þátt í að hlutfall þess af heildarfjölda atvinnulausra hafi farið lækkandi, en fjölmargir þeirra sem voru langt komnir með bótarétt sinn fengu vinnu í gegnum slík átaksverkefni.

Þúsundir án vinnu

» Samkvæmt talningu Vinnumálastofnunar voru 5.717 einstaklingar án vinnu í júní.

» Af þeim voru 2.540 karlar og 3.177 konur.

» Til samanburðar voru 6.935 án vinnu í júní í fyrrasumar, skv. sömu skilgreiningu.

» Af þeim voru 3.195 karlar og 3.740 konur og er fækkunin á atvinnuleysisskránni því áþekk hjá kynjunum.