Tveir menn, sem handteknir voru eftir alvarlega líkamsárás á Grundarfirði í fyrrinótt, voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í gærkvöld.

Tveir menn, sem handteknir voru eftir alvarlega líkamsárás á Grundarfirði í fyrrinótt, voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í gærkvöld.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Akranesi rannsakar málið og fór fram á gæsluvarðhaldið á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Mennirnir voru yfirheyrðir í gærkvöldi og síðan leiddir fyrir dómara.

Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í gærmorgun. Þar gekkst hann undir aðgerð á höfði en maðurinn hlaut alvarlega höfuðáverka við árásina. Hann liggur á gjörgæsludeild og er haldið sofandi í öndunarvél.