Sigurður Helgi Hallvarðsson fæddist á Siglufirði 2. janúar 1963. Hann lést á Líknardeildinni í Kópavogi 10. júlí 2014.

Foreldrar hans eru Hallvarður Sævar Óskarson, f. 24.11. 1944 og Ágústa Lúthersdóttir, f. 2.8. 1945. Sigurður átti eina systur, Írisi f. 23.11. 1966. Sigurður giftist Ingu Maríu Friðriksdóttur, f. 20.8. 196, þann 20. ágúst 2004. Foreldrar Ingu Maríu eru Friðrik Lindberg, d. 2004 og Steinþóra Ingimarsdóttir. Sigurður og Inga eiga 9 börn samtals en einnig tvo fóstursyni sem eru barnabörn þeirra. Börn Sigurðar og Ingu Maríu eru Sigurður Ingi, f. og d. 1997 og Hallvarður Óskar, f. 1999. Breki Steinn, f. 2003 og Sölvi Páll, f. 2005 eru fóstursynirnir. Sigurður átti áður Ágústu Marsibil, f. 1989 sem er gift Mikkel Sørensen og eiga þau synina Óskar Sigurð, f. 2010 og Aron Sigurð, f. 2013 en þau eru búsett í Danmörku, Snorra, f. 1991 og Aron, f. 1993. Inga María á Rakel, f. 1980, Írisi, f. 1983 og Viktor og Katrínu, f. 1987

Sigurður bjó á Siglufirði til fimm ára aldurs en flutti þá með foreldrum sínum til Reykjavíkur, á Langholtsveg 102, og ólst þar upp en foreldrar hans búa á Selfossi í dag. Sigurður var ekki lengi að þefa uppi fótboltavöll í nágrenninu og varð Þróttari frá fyrsta degi. Mörg sumrin fór hann þó til Siglufjarðar og spilaði þá með vinum sínum þar. Sigurður spilaði alla sína tíð með Þrótti en sumarið 1993 þjálfaði hann og spilaði með Hugin á Seyðisfirði, 1999-2000 spilaði hann með Haukum en einnig var hann eitt ár með Fjölni. Þróttarahjartað var samt aldrei langt undan og nú síðustu árin var það fastur punktur í tilverunni að hitta félagana í hádeginu. Hann lauk sveinsprófi í málaraiðn 1987, meistararéttindi fékk hann 1989 og löggildingu sem málarameistari árið 2000. Vann hann lengi vel með föður sínum og stofnuðu þeir fyrirtækið Gæðamálun saman. Sigurður og Inga María hafa búið öll sin ár saman í Grafarvogi, fyrst í Dalhúsum en síðustu árin í Hvannarima.

Útför Sigurðar fer fram í Hallgrímskirkju í dag, 18. júlí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.15.

Í dag er Siggi stjúpi minn borinn til grafar. Hann verður jarðaður með syni sínum Sigurði Inga, sem fæddist andvana árið 1997. Siggi talaði oft um að hann hlakkaði til að hitta hann og verður gott að vita af þeim saman. Siggi var yndislegur maður sem hugsaði alltaf um aðra á undan sjálfum sér. Hans mesta gleði var að gleðja aðra. Þessir eiginleikar komu sérstaklega vel fram á síðustu mánuðum og héldu honum bókstaflega gangandi. Í haust afrekaði hann að ganga með bræðrum mínum alla leið frá Hveragerði til Reykjavíkur til þess að afla fjár sem rann óskipt til Ljóssins, en þar átti hann öruggt athvarf. Þetta gerði hann, haltur og hálflamaður, með bros á vör. Hann tók meira að segja nokkur dansspor efst á heiðinni. Ef Siggi ákvað að gera eitthvað til að hjálpa öðrum þá einfaldlega gekk hann í það verk og lét ekkert stoppa sig. Við gætum öll tekið hann okkur til fyrirmyndar.

Ég get því miður ekki verið með fjölskyldu minni og vinum í dag en á vormánuðum tók ég þá ákvörðun að fara til Argentínu og hefja störf fyrir mannréttindasamtök þar í landi. Það var mjög erfið ákvörðun. Þá hafði ég verið heima frá því í september í fyrra til þess að vera með Sigga og fjöskyldunni og hjálpa til á þessum mjög svo erfiða tíma. Ég settist reglulega hjá honum með kaffibolla og spurði hann þá nánast alltaf hvort ég ætlaði ekki að fara eitthvað fljótlega og vildi fá að vita hvert yrði næsta ævintýrið mitt. Hann virtist lítið skilja hvað ég væri að gera hér að „vesenast yfir honum“ eins og hann orðaði það. Þegar ég sagði honum að ég hefði loks sótt um starf í Argentínu brosti hann og sagði að honum þætti það frábært. Ég er innilega þakklát fyrir þennan tíma sem ég fékk með honum og hugur minn er hjá honum, mömmu og systkinum í dag sem og aðra daga.

Fram í hugann kemur falleg minning um Sigga: Við systkinin komum heim úr skólanum og inni glymur hávær tónlist. Siggi dansar um, spilar á þverflautuna sína og syngur þess á milli. Hann er kominn í jakkafötin og ætlar greinilega að bjóða mömmu eitthvað út. Hann var glaður og það gladdi okkur.

Ég er viss um að þetta verður fjölmenn jarðarför. Siggi var mjög vinamargur, enda eru óteljandi ástæður til þess að þykja vænt um hann og fjölskyldan er stór. Hann sagði stundum í gríni að draumur hans væri að eiga sitt eigið fótboltalið og það átti hann: Börnin hans, stjúpbörn og afabörn voru fótboltaliðið hans.

Siggi er kominn í jakkafötin, tilbúinn að stíga dansinn og þverflautan ómar. Hans verður sárt saknað. Hann var hjartagóður maður sem vildi allt fyrir aðra gera.

Katrín.

Mikið eigum við eftir að sakna þín, elsku Siggi minn. Þú komst eins og ferskur gustur inn í fjölskylduna með skemmtilegar athugasemdir, glettni og oft svolítið stríðinn. Þú varst alltaf hreinn og beinn og sagðir þína meiningu og maður gat aldeilis verið viss um að heyra hljóð úr horni ef þú varst ekki sammála einhverju. Þetta kunni ég alltaf vel að meta og því náðum við ágætlega saman. Nú ertu kominn á hinn staðinn og ég hlakka til að hitta þig aftur þegar að því kemur. Þá verða fagnaðarfundir.

Þinn vinur og mágur,

Ingimar Þór Friðriksson.

Afi-pabbi okkar er glaður núna. Hann var oft búinn að segja okkur hvað hann hlakkaði til að spila fótbolta með stráknum sínum sem er á sama góða staðnum og afi er núna á. Við erum búnir að eiga afa að lengi og höfum verið heppnir að fá að búa með honum og upplifðum oft að enginn annar átti afa eins og við. Allir vissu hver Siggi Hallvarðs var og við erum alltaf að heyra meira og meira um hann. Hann var besti fótboltamaður á Íslandi fyrir okkur. Hann sagði bestu sögur í heiminum og hélt spennunni alltaf þangað til næsta kvöld og ævintýrin voru oft hluti af því sem hann gerði á Siglufirði þegar hann var á okkar aldri.

Fengum oft að fara með honum í bíltúra niður í Þróttaraheimili og í Ljósið þar sem allar konur vildu kyssa hann og þegar við kjöftuðum því í ömmu þá sagði hún alltaf brosandi: því fleiri sem þykir vænt um afa, því betur líður afa ykkar. Afa Sigga þótti ótrúlega vænt um okkur og var montinn þegar hann sagði okkur vera yngstu strákana sína og við erum montnir af honum.

Breki Steinn og Sölvi Páll.

Siggi frændi hefur fengið hvíldina eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Minningarnar streyma fram í hugann. Margar voru stundirnar í æsku þar sem við lékum okkur saman sem áhyggjulaus börn og alltaf var hægt að finna eitthvað skemmtilegt að gera. Okkur systkinum eru í fersku minni skiptin sem Siggi kom til okkar niður á Kleppsveg á laugardagsmorgnum að horfa á teiknimyndir í „kanasjónvarpinu“, sumrin þegar leikið var úti klukkustundum saman, prakkarastrik og glens og grín. Fjölskylduveislur, afmæli og matarboð þar sem Siggi lék venjulega á als oddi og skemmti sér og frændsystkinum. Siggi átti afmæli 2. janúar og snemma á þrítugsaldrinum var því oft fagnað með miklu partíi og flugeldasýningu á Langholtsveginum. Ógleymanlegar samverustundir sem geymast í minningabankanum. Þannig var Siggi, gleðigjafi og alltaf stutt í brosið og húmorinn. Okkur grunaði ekki að þetta lundarfar ætti eftir að hjálpa honum að takast á við erfið veikindi seinna meir, en það varð raunin. Siggi tókst á við sjúkdóminn af einstöku æðruleysi og hugrekki og nýtti sér húmorinn í að gera grín að sjálfum sér. Hver finnur sína leið til að takast á við slík áföll og Siggi valdi þá leið sem hjálpaði honum.

Elsku Inga og fjölskylda, Halli, Gústa, Íris, Ágústa, Snorri, Aron og Hallvarður Óskar, megi Guð og góðar vættir styrkja ykkur í sorginni. Minningin um góðan dreng lifir um ókomna tíð.

Árni og Kristín (Linda).

Kveðja frá skólafélögum

Elsku Siggi okkar er farinn, gamall skólafélagi úr Langholtsskóla. Við krakkarnir úr 1963-árganginum höfum verið að hittast undanfarin ár að frumkvæði Sigga og höfum við hist með fjögurra mánaða millibili en þegar leið á fannst okkur þetta allt of lítið og fórum að hittast mánaðarlega og þá oftast á Kaffi Flóru sem er í okkar uppeldishverfi. Við í árganginum höfum hist reglulega frá því við útskrifuðumst úr Langholtsskóla, á ca. fimm ára fresti, en árið 2009 var 30 ára „reunion“ og eftir það hafði Siggi alveg verið driffjöðrin í hópnum. Siggi var mikill baráttumaður, uppalinn Þróttari og mjög sterkur karakter. Hann var algjörlega með munninn fyrir neðan nefið, við héldum stundum þegar við hittumst á kaffihúsum að okkur yrði hent út, þvílík voru lætin þegar best lét.

Hann hafði ótrúlegan húmor fyrir sjálfum sér og öðrum sem eflaust hefur bjargað honum við að takast á við þessi erfiðu veikindi sem vörðu í tíu ár, en á þeim tíma afrekaði hann margar hetjudáðir sem við hin dáðumst að og fengum að taka þátt í með honum, eins og t.d. gangan sem hann fór frá Hveragerði til Reykjavíkur og var stór hluti af okkur sem labbaði með honum síðasta spölinn fyrir utan smá spjall á heiðinni með einum skólafélaga. Það var mikill heiður að fá að taka þátt í þessu. En það var ekki nóg, hann vildi gera meira og var sífellt að hugsa leiðir til að hjálpa öðrum. Eftir eina hvíldarinnlögnina á líknardeildinni fannst honum skammarlegur aðbúnaður fyrir börnin og fór hann að safna fyrir nýjum sjónvörpum og tölvum fyrir börnin í Rjóðrinu og tók ekki nema nokkra daga fyrir hann að láta hlutina gerast. Næsta verkefni var hann með á prjónunum sem hann náði ekki að klára en er örugglega byrjaður að láta gott af sér leiða í Draumalandinu. Eitt af því sem hann lagði stund á var eins og hann kallaði það „að trufla vinnandi fólk“ og nutu margir heimsókna hans á meðan heilsan leyfði.

Það er stórt skarð höggvið í okkar hóp á þessu ári, þar sem tveir félagar hafa fallið frá með aðeins tveggja mánaða millibili

Við lofuðum Sigga að hafa alltaf lausan stól við borðið og stóran bjór og hans loforð var að láta vita af sér og jafnvel fella glasið, þannig fyndum við að hann væri með okkur.

Um leið og við kveðjum yndislegan dreng viljum við senda Ingu og fjölskyldu Sigga innilegar samúðarkveðjur.

Þín verður sárt saknað, elsku kallinn okkar.

Kveðja frá skólafélögum, árg. 1963 í Langholtsskóla.

Rósa, Vigdís, Elín

og Örn (Gulli).

Þá er hann farinn, hetjan okkar hann Siggi. Í 10 ár barðist hann við heilaæxli. Fór í fjóra uppskurði. Var borinn ofurliði að lokum.

Við kynntumst í Ljósinu. Vorum ljósberar. Hann vildi félaginu vel og ákvað að ganga frá Hveragerði til Reykjavíkur með Willum, vini sínum, og örfáum félögum til styrktar Ljósinu. Ótrúlegt þrek, haltur og skakkur. Viljinn hélt honum uppi. Hafi hann þökk fyrir. Bjargaði fjárhag Ljóssins í heilt ár, en starfsemin gengur út á velvilja fólks.

Siggi mætti í Ljósið á morgnana þegar hann hafði þrek til. Sveiflaði sér inn og sagði: Hvar er Mafíuósan? en það var Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Ljóssins. Honum fannst hún frábær en stundum svolítið ákveðin.

Brandararnir dundu á okkur. Alltaf hress. Við skyldum aldrei, aldrei vorkenna honum. Hún Inga, kona hans, er stórkostleg og frábær. Studdi hann að eilífu. Og börnin þeirra gerðu allt til að gera honum lífið bærilegt. Ótrúlegt þrek hjá öllum. Frá okkur fór hann í mat í félagsheimili Þróttar, þar sem hann náði sér einnig í andlega næringu. Hann hafði alltaf brandara á reiðum höndum. Inga er heill kafli út af fyrir sig. Hvað er hægt að leggja á eina konu? Með allan barnafjöldann auk tveggja barnabarna sem þau tóku að sér.

Við ljósberar þökkum Sigga innilega fyrir árin sem við nutum hans. Ingu og allri fjölskyldunni þökkum við alla samveruna. Vonum að hún hafi þrek til að hitta okkur. Sigga þökkum við yndislegar samverustundir. Fyrir hönd ljósbera segi ég: hvíldu í friði, elsku Siggi minn.

Kveðjustundin komin er

kæri Siggi ofurhressi,

Guð um eilífð fylgi þér

og Ingu þína blessi.

(SA)

Sigurbjörg Axelsdóttir.

Í júlímánuði fyrir ári hringdi síminn snemma að morgni. Á línunni var Siggi. Hann spurði hvort ég væri í vinnunni. Ég játti því. Þá spurði hann hvort hann mætti koma við í morgunkaffi. Ég sagði það sjálfsagt, en velti fyrir mér erindinu. Nokkuð var síðan við Siggi höfðum hist og hann hljómaði eins og erindið væri áríðandi. Hann kom á slaginu tíu, brosandi út að eyrum með útbreiddan faðminn. Hann sagðist vera kominn til að kveðja mig. Mig setti hljóða. Ég var ekki undir þetta búin þrátt fyrir að ég hefði vitað innst inni hve alvarlega veikur hann var.

Þetta reyndist þó ekki vera okkar síðasta samverustund. Við áttum saman fleiri notalegar og einlægar stundir yfir kaffibolla áður en yfir lauk.

„Meðan ég get glatt einhverja með einhverju, geri ég það,“ sagði Siggi í sjónvarpsviðtali í aprílmánuði og hann lifði svo sannarlega samkvæmt því til hinstu stundar. Síðasta ár ævi sinnar vann hann stórvirki. Eldmóður hans og lífskraftur gerði honum kleift að styrkja málefni sem komu mörgum að ómetanlegu gagni. Siggi, sem hafði í áratug tilheyrt hópi sjúkra og kynnst aðbúnaði þeirra og aðstæðum af eigin raun, lét hendur standa fram úr ermum og safnaði hárri fjárhæð fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Þá komst hann að því eftir eina innlögnina á líknardeild hve litla afþreyingu langveik og fötluð börn bjuggu við í Rjóðrinu og dreif í að safna fyrir sjónvarpi og leikjatölvu á hvert herbergi.

Siggi átti samhenta fjölskyldu og trausta vini, sem umvöfðu hann kærleika og lögðu sitt af mörkum til að draumar hans mættu rætast.

Við Siggi kynntumst er ég flutti á Langholtsveginn árið 1974. Þá var ég 10 ára en hann ellefu. Við urðum nágrannar, bekkjarsystkin og vinir. Siggi var glæsilegur fótboltastrákur sem bræddi margt stúlkuhjartað. Hann var grallari og skemmtilegur en umfram allt góður drengur sem vildi öllum vel.

Ég sendi eiginkonu hans, börnum og öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um heilsteyptan og góðhjartaðan dreng lifir – hann var hetja sem sýndi okkur að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Svala Ísfeld Ólafsdóttir.

Siggi Halla var eins og farfuglarnir fyrir okkur strákana á Sigló, hann kom á vorin og flaug burt á haustin. Við vorum svo heppnir að fá þennan fótboltakappa til liðs við okkur í yngri flokkum KS, enda var Siggi fæddur á Siglufirði. Þegar við vorum að taka af okkur skíðaskóna og malarvöllurinn að koma undan snjó þá birtist þessi markahrókur að sunnan á takkaskónum.

Siggi fékk að kynnast hinum stóra leikvelli sem Sigló var eftir að síldin hvarf, brakkar og bryggjur, sjoppur og kaupmenn, bíóið, fjallið og eilíft lognið. Umhverfið bauð upp á endalausa leiki og grallaraskap fyrir unga drengi. Við fórum í fótboltaferðalög um Norðurland – unnum góða sigra en stundum var tapið sárt.

Sú minning sem lifir lengst er þegar við í 3. flokki KS fórum í eftirminnilega keppnisferð til Danmerkur 1978. Flestir vorum við að fara til útlanda í fyrsta sinn og það var ekki sjálfgefið á þeim árum að unglingar norðan af heimskautsbaug færu í slíka för. Ferðin var eitt endalaust ævintýr og síðustu árin höfum við hist reglulega og rifjað upp sögurnar. Sveitastrákarnir frá Sigló voru ekki eingöngu að komast í snertingu við grasvelli, öl og rauðar pylsur í fyrsta sinn, heldur líka danskar stelpur. Kvöld eitt höfðu nokkrir í hópnum komist í kynni við framandi fljóð. Voru þær dregnar út á grasvöllinn í Asnæs og þegar hvolpavitið gerði vart við sig, þá stóðu Siggi og félagar hjá og kveiktu á flóðljósunum á vellinum og komu í veg fyrir að bráðþroska drengir eignuðust erfingja á danskri grundu. Í 50 ára afmæli Sigga ákváðum við að hittast á Sigló þá um sumarið. Það gerðum við og áttum saman góðar stundir ásamt Sigurjóni, gamla þjálfaranum okkar. Ári síðar er þessi snjalli knattspyrnukappi allur.

Í allri sinni baráttu stóð Siggi ekki einn. Stór fjölskylda, foreldrar, vinir, Þróttarar, KS-ingar og fleiri stóðu að baki honum. En kletturinn í baráttunni var þó án efa Inga – konan í lífi Sigga, hún hefur sýnt ótrúlegan styrk.

Óþrjótandi kraftur Sigga, jákvæðni og baráttuþrek vakti athygli þjóðarinnar. Í veikindum sínum var Siggi alltaf að spá í hvað hann gæti gert fyrir sitt umhverfi, hvort sem það var Ljósið, líknardeildin eða annað. Hann taldi það ekki eftir sér að fara gangandi ásamt sonum sínum og vini frá Hveragerði til Reykjavíkur til styrktar Ljósinu. Þegar Siggi gat glatt aðra þá leið honum best. Hann hafði ekki dvalið lengi á líknardeildinni þegar sú hugmynd kviknaði að safna fyrir tækjum fyrir langveik börn sem þar dvöldust. Síminn tekinn upp, vinir og velunnarar heimsóttir og ný tæki voru komin innan nokkurra daga. Svona var Siggi – alltaf að gleðja.

Nú er baráttu vinar okkar, Sigga Halla, lokið. Hafðu, vinur, þökk fyrir áratuga vináttu sem við mátum mikils. Ljúfar og góðar minningar um frábæran vin munum við ætíð geyma með okkur.

Komið er að kveðjustund

hetju er létti marga lund.

Þróttmikill á drottins vegi

orðstír góður deyr aldregi.

(Sig. Tómas)

Ingu, börnum þeirra, barnabörnum, foreldrum, systur og öðrum vottum við dýpstu samúð.

Birgir Gunnarsson,

Hermann Einarsson,

Jónas Skúlason og

Sigurður Tómas

Björgvinsson.

Snaggaralegur, fjótur og alltaf líklegur til að skora. Þannig man ég fyrst eftir Sigga Hallvarðs í yngri flokkum Þróttar í fótbolta. Framherjinn í Þrótti sem við KR-ingar réðum oftast illa við að hemja. Löngu seinna, vorið 1996, urðum við síðan samherjar í Þrótti. Eitthvað fannst mér hann ósáttur við þennan liðsauka því hann vart yrti á mig fyrstu vikurnar, helst þá að hann hreytti í mig fúkyrðum og skrítnum glósum. Eitt sinn í lok æfingar tókum við spjall saman og það augnablik er mér mjög minnisstætt því upp frá þeirri stundu, eftir að Siggi hafði á sinn hreinskilna hátt hreinsað andrúmsloftið, þá small eitthvað ósnertanlegt og sterkt og með okkur tókst órjúfanleg vinátta.

Kæri vinur, minningarnar hrannast upp og orð á prenti verða heldur fátækleg þegar kemur að verðmæti vináttunnar og þeirri fallegu manneskju sem þú hafðir að geyma. Þú komst til dyranna eins og þú varst klæddur, hreinn og beinn. Þegar kom til kastanna hafðir þú afdráttarlausar skoðanir þannig að þegar sá gállinn var á þér áttir þú til að stuða fólk, sérstaklega þá sem ekki þekktu þig en um leið svo réttsýnn, ærlegur og glettinn að allir hrifust með á endanum.

Þau eru ófá augnablikin sem við upplifðum saman, oftast skemmtilega sigra en stundum ósigra en það skipti litlu hvernig byrinn stóð, alltaf mátti treysta á þig innan sem utan vallar og auðvitað mátti stóla á mörkin frá þér. Þér fannst einfaldlega gaman að skora og varst marksækinn í eðli þínu. Þú varst stoltur maður með stórt hjarta og náðir í samvinnu við þína heittelskuðu Ingu að gefa af þér og áorka alveg ótrúlega miklu. Þú varst stoltur Þróttari. Þú varst stoltur af fjölskyldunni þinni og strákunum þínum, í boltanum fylgdir þú af öllu hjarta. Þú varst stoltur fagmaður og stoltur af fyrirtækinu ykkar pabba þíns. Það kom alltaf blik í augun þegar þú talaðir um æskuárin og boltann, mömmu og pabba og systur þína og vinina á Sigló. Inga og börnin voru svo alltaf miðpunkturinn, jafnvægið í þínu lífi. Á sama tíma og þú hafðir fyrir stórri fjölskyldu að sjá og vannst myrkranna á milli gafstu þér tíma fyrir félagið þitt og vini þína. Ég dáðist að þessu þreki og þessari æðrulausu umhyggju fyrir öllum. Þannig tókst þú svo á við illvígan sjúkdóm og í þeirri langvinnu baráttu tókst þér að bæta umhyggju fyrir samfélaginu öllu við þitt stolta risastóra hjarta. Þjóðin fékk að fylgjast með þér í Ljósagöngunni frá Hveragerði til Reykjavíkur og eins þegar þú safnaðir fyrir skjám handa langveikum börnum á líknardeildinni.

Kæri vinur, við áttum margar góðar stundir saman og fyrir það er ég þakklátur. Síðustu árin tefldum við oft og lengi vel töldum við sigrana í því einvígi en við vorum hættir að telja og síðasta skákin er búin í bili. Orðstír þinn lifir og lífsþróttur þinn og umhyggja er okkur öllum lífsbót og til eftirbreytni.

Ég vil minnast á og þakka starfsfólki líknardeildar fyrir kærleiksríka umönnun og hlýtt viðmót.

Hugur minn er hjá Ingu, börnunum þínum og barnabörnum, foreldrum og systur.

Willum Þór Þórsson.

Kynni okkar Sigga hófust þegar hann kom til liðs við Hauka frá Þrótti árið 2000, með vini sínum, Willum Þór Þórssyni. Þá hafði hann tímabilið áður verið kallaður úr sumarfríi til að tryggja Þrótti áframhaldandi veru í 1. deild þar sem hann skoraði sigurmark Þróttar í lokaleiknum.

Siggi kom inn í Haukahópinn með sína alkunnu nærveru, hvatti menn áfram, reif kjaft og sagði brandara og sögur. Ég tel að það að fá Sigga inn í liðið hafi á endanum gert gæfumuninn fyrir velgengni liðsins. Fyrir utan ótrúlega mikilvæg mörk á ögurstundu í leikjum þá var það keppnisskapið og sigurviljinn sem smitaði alla í kringum hann. Okkar samskipti héldu svo áfram eftir að ég fór að starfa fyrir Knattspyrnufélagið Þrótt sem má kalla okkar stórfjölskyldu og þar fylgdum við liðinu okkar upp og niður til skiptis úr úrvalsdeild.

Það fyrsta sem kom upp í huga mér þegar ég frétti af andláti þínu var þegar við sátum saman í rútu á leið í leik gegn Hugin á Seyðisfirði, í úrslitakeppni 3. deildar. Þú sagðir mér frá því að þú hafðir farið nokkru áður í stúdíó hjá Jóni vini þínum Ólafssyni og tekið upp lag fyrir Ingu konuna þína. Þú leyfðir mér síðan að hlusta á upptökuna sem þú varst með í spilaranum. Þetta var lagið It must be love með Madness. Virkilega vel gert hjá þér og sýndi þig svolítið í hnotskurn og ást þína til Ingu. Það var þetta lag og þessi minning sem fyrst kom upp í huga mér. Allt þitt viðhorf í þessum löngu veikindum þínum hefur rækilega tryggt að minning þín mun lifa um langa tíð. Þegar þú vissir í hvað stefndi þá tekur þú upp á því að ganga frá Hveragerði til Reykjavíkur, til þess að hjálpa öðrum. Ég á ekki til önnur orð að lýsa því en It must be love.

Ég vil að lokum fá að senda fjölskyldu þinni og nánustu vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði, kæri vinur. Þinn vinur,

Helgi Sævarsson.

Mamma kallaði þig aldrei annað en Sigga senter og margir þekktu þig aðeins undir því nafni. Enda spilaði ég aldrei með eins hreinræktuðum senter og þér, allt frá því við vorum smápollar, upp alla yngri flokka og svo í mörg ár með meistaraflokki í okkar ástkæra félagi Þrótti.

Við urðum Íslandsmeistarar í 5. flokki 1975. Það ár spilaði ég senter með þér og voru það fullkomlega kvótalausar veiðar – við mokuðum inn mörkum en það sem meira var, feður okkar tóku upp á því að greiða okkur fyrir hvert skorað mark. Er það fyrsti vísir að atvinnumennsku í Þrótti þótt sú þróun hafi í kjölfarið verið hæg og róleg. Eftir leiki var síðan farið út í sjoppu og gúffað í sig fyrir allan peninginn, enda voru engir sérstakir nammidagar á þeim árum.

Það er dálítið merkilegt þegar maður horfir nú um öxl og rifjar upp ferðasöguna hve mikill senter þú varst. Og þá á ég ekki bara við inni á fótboltavellinum, heldur í lífinu sjálfu. Það var alltaf stefnt fram á við – stiklað stórum skrefum fram þá velli sem á veginum urðu. Barátta þín við veikindin síðustu 10 árin er eitthvert besta dæmið um þetta. Þar var spilaður sóknarleikur allt þar til dómarinn flautaði leikinn loksins af eftir ótal framlengingar og vítaspyrnukeppni. Æðruleysi, jákvæðni og framtakssemi var leiðarvísir hvers dags og gerði þetta okkur öllum, sem í kringum þig voru, svo miklu auðveldara að takast á við þetta með þér.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar þú komst á tímabili reglulega til mín á skrifstofuna til að fá lúpínuseyðið. Ég hafði þá nýlega bragðbætt seyðið, en þú sýndir þeirri viðleitni enga virðingu svo ég varð að framleiða ákveðinn skammt fyrir þig án bragðefna – þetta var síðan tekið á stút og farið langt ofan í tveggja lítra flöskuna í einum teyg.

Allt eins „original“ og maðurinn sjálfur.

Þróttur hefur orðið stærri með þér, Siggi minn. Þrótturinn sem þú hefur sýnt í baráttu þinni er aðdáunarverður og okkur Þrótturum öllum leiðarvísir inn í framtíðina. Hvernig eigi að berjast við mótlæti og vinna eins marga sigra og mögulega geta verið í boði. Mig langar fyrir hönd okkar strákanna í Þrótti, sem vorum þér samferða í boltanum, að þakka þér fyrir öll mörkin innan vallar sem utan. Við sendum Ingu þinni og barnahópnum innilegar samúðarkveðjur og geymum minningu um góðan dreng.

Haukur Magnússon.

Vinur minn og félagi, Siggi Hallvarðs, er fallinn frá. Sigga kynntist ég fyrst 1990 þegar ég var púpa í meistaraflokki Þróttar en hann stjarna liðsins sem maður var búinn að horfa á á vellinum og dást að og því merkilegt að vera byrjaður að æfa með honum. En Siggi tók manni vel eins og honum einum var lagið, enda skemmtilegur með eindæmum og góð manneskja sem var ekki í vandræðum með að kynnast fólki. Siggi var mikill markaskorari og var það allan sinn feril en hann þjálfaði líka með fínum árangri enda var hann tilbúinn til að leiðbeina mönnum og gefa góð ráð. Sigga þekkti maður ekki öðruvísi en sem glaðværan mann sem gott var að vera með enda var alltaf gaman þegar hann var með okkur í Þrótti hvort sem það var á æfingum eða í leikjum. Siggi var mikill Þróttari sem gerði mikið fyrir félagið og mun nafn hans lifa í félaginu um ókomna tíð.

Kæri vinur, ég kveð þig með söknuði en minningarnar eru góðar, en það verður samt skrítið að geta ekki kallað þig með færeysku nöfnunum aftur, Högni og Súni, sem við bjuggum til á færeyska tímabilinu hér á Íslandi. En ég trúi því að þér líði vel á nýjum stað. Fjölskyldu Sigga sendi ég samúðarkveðjur.

Páll Einarsson.

Kveðja frá Knattspyrnusambandi Íslands

Genginn er góður félagi, Sigurður Hallvarðsson, markaskorari af Guðs náð. Ég minnist ófárra stunda á vellinum þar sem Siggi Hallvarðs skoraði og gerði út um leikinn, oft á einstaklega glæsilegan hátt. Hann hafði einfaldlega þessa gáfu að skora mörk og þau urðu mörg á ferlinum. Sigurður er tíundi markahæsti leikmaður íslenskrar deildarkeppni í knattspyrnu frá upphafi. Það var einnig sérlega skemmtilegt að fylgjast með Sigga á fjölum Laugardalshallar en þar lék hann manna best og raðaði inn mörkum til fjölda ára í Íslandsmótinu innanhúss í knattspyrnu. Hæfileikar Sigga til að koma skoti á mark úr hvaða færi sem var á litlum leikvelli komu þar bersýnilega í ljós og oftar en ekki lá boltinn í netinu.

Siggi Hallvarðs var Þróttari inn að hjarta og í raun setti ég alltaf samasemmerki á milli Þróttar og Sigga. Þróttarar og knattspyrnuhreyfingin öll hafa misst góðan félaga en minningin um Sigga Hallvarðs mun lifa. Mörkin, sigrarnir og sanna Þróttargleðin gleymist ei – sem endurspeglast svo fallega í Lifi Þróttur!

Knattspyrnuhreyfingin saknar góðs félaga sem lagði sitt af mörkum fyrir okkar góðu íþrótt innan sem utan vallar. Ekki síst hin síðustu ár utan vallar með einstökum dugnaði og baráttu sem er okkur öllum til eftirbreytni.

Við sendum fjölskyldu Sigga og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Geir Þorsteinsson,

formaður.

Okkur langar í fáeinum orðum að minnast liðsfélaga okkar og vinar, Sigurðar Hallvarðssonar, sem fallinn er frá eftir hetjulega baráttu.

Siggi Hallvarðs skipti yfir í Hauka árið 2000 og það reyndist gæfuspor fyrir félagið. Hann átti stóran þátt í því að við unnum 3. deildina það sumar og 2. deildina ári síðar eftir mörg ár án árangurs.

Siggi var einstakur maður, glettinn húmoristi og sterkur karakter sem hafði mikil áhrif á liðið. Siggi bjó yfir gríðarlegum sigurvilja sem smitaði út frá sér og gerði líklega á endanum gæfumuninn í árangri liðsins, ásamt mörkunum en Siggi hafði einstakt nef fyrir að skora – ósjaldan þegar neyðin var mest, þegar næsta mark skipti sköpum. Við gleymum því líklega seint þegar hann skoraði mark gegn Fjölni í undanúrslitum 3. deildar sem nánast tryggði það að við færum upp um deild. Það var sem þungu fargi væri af okkur létt, markmiðið var í sjónmáli. Siggi var einnig léttur sem fjöður eftir markið og hljóp alla leið út að sundlauginni, nokkurn spöl frá Fjölnisvellinum, til að fagna markinu. Það var honum líkt.

Við minnumst Sigga af hlýhug en munum ekki aðeins mikilvægu mörkin heldur minnumst líka tryggðar hans og ósérhlífni, hárbeittrar kímnigáfu og traustrar vináttu. Siggi hafði sterk áhrif á okkur strákana og ekki grunaði okkur þá hversu víðtæk og djúpstæð þau áhrif yrðu nokkrum árum síðar þegar hann hélt áfram að vera okkur sannur innblástur er hann barðist á öðrum vettvangi, öllu erfiðari viðureignar. Siggi var baráttujaxl og sönn hetja sem tókst á við veikindi sín af æðruleysi og einstöku hugrekki.

Siggi var Siglfirðingur og Þróttari en okkur finnst við þó eiga svolítið í honum líka. Þó svo Siggi hafi aðeins leikið með okkur í tvö ár, og komið fram á seinni hluta ferilsins, þá var tilfinning okkar aldrei sú að hann nálgaðist það sem hvert annað verkefni. Siggi var samherji af heilum hug sem lagði sig alltaf allan fram fyrir hönd liðsins og liðsfélaga sinna. Eftir að Siggi hætti hélt hann áfram að koma á leiki, stóð í brekkunni í bláa kuldagallanum og hvatti okkur áfram. Hann var félagi okkar og góður vinur. Ef við hittum Sigga á förnum vegi mörgum árum síðar og heilsuðum honum með útrétta höndina þá bandaði hann henni bara í burtu, lagði frá sér hækjurnar og faðmaði mann að sér. Þannig var Siggi.

Þegar við yfirgefum þessa veröld þá skiljum við fátt eftir annað en það sem við gáfum af okkur á meðan við lifðum. Og það gerði Siggi, hann gaf meira en margir. Hann skilur eftir sig minningar um skemmtilegan félaga, ótrúlegan keppnismann og einstaka manneskju. Siggi var okkur öllum hvatning til að gera betur og þannig minnumst við vinar okkar og samherja. Í leik fór hann fyrir liðinu með góðu fordæmi og stýrði síðan fagnaðarópunum eftir sigurleiki á sinn einstaka hátt: „Var það ekki!?“ Jú, það var það svo sannarlega, Siggi minn.

Við vottum fjölskyldu Sigga samúð okkar og óskum henni styrks í sinni sorg. Siggi, hvíldu þig nú hvar sem þú ert niðurkominn.

Fyrir hönd félaga þinna í meistaraflokki Hauka 2000-2001,

Darri Johansen.

Nöfn Þróttar og Sigurðar H. Hallvarðssonar hafa verið og munu verða samofin um ókomna tíð. Óhætt er að segja að Siggi sé einn af dáðustu sonum félagsins. Þróttur naut hans bestu ára í boltanum, bæði sem leikmanns og eins eftir að ferlinum lauk.

Siggi var fæddur á Siglufirði en fluttist ungur með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Foreldrar hans settust að í ört vaxandi hverfi sem í dag er kennt við Laugardal. Á malarvellinum inn við Sæviðarsund steig hann sín fyrstu spor á knattspyrnuvellinum. Og það varð ekki aftur snúið, Þróttur varð stór hluti af lífi Sigga og Siggi varð stór hluti af Þrótti.

Siggi hafði sannkallað markanef og hrelldi markmenn um árabil. Um leið var hann mikill leiðtogi innan sem utan vallar og sannkallaður grallari. Þó Siggi hafi lengst af leikið með Þrótti þá lék hann eitt tímabil með Hugin Seyðisfirði ásamt því að þjálfa liðið Fjölni og loks tvö tímabil með Haukum. Alls staðar þar sem Siggi kom við á sínum langa knattspyrnuferli er hans minnst með hlýhug.

Fyrir um áratug greindist Siggi með heilaæxli. Með sömu eljunni og kraftinum sem hafði einkennt hann sem knattspyrnumann tókst honum að sigrast á veikindunum, þó aðeins tímabundið. Í erfiðleikum sínum var honum mikið í mun að hjálpa öðrum eins og kom svo berlega í ljós þegar hann safnaði 8 milljónum króna fyrir endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðina Ljósið. Siggi var okkur öllum mikil fyrirmynd í leik og starfi.

Knattspyrnufélagið Þróttur sendir aðstandendum Sigga innilegar samúðarkveðjur.

Sigurlaugur Ingólfsson,

formaður Knattspyrnufélagsins Þróttar, f.h. aðalstjórnar félagsins.

Í mínum augum var Sigurður Hallvarðsson eins og verðhlaupahestur sem sætti sig aldrei við að bíða lægri hlut. Hann var reistur á velli, stórstígur, eldfljótur og einbeittur, með markanef enda útsjónarsamur með eindæmum. Leið hans lá ekki til hliðar, heldur beint að markinu og fyrirstaðan var engin. Siggi var erfiður viðureignar og málaði leikinn yfirleitt sínum litum þótt hann léki fyrir liðsheildina. Fyrir mér hefur Siggi Hallvarðs ævinlega verið sendiherra Þróttar. Þegar ég hugsa um félagið kemur Siggi fyrst upp í hugann. Og hann var líka sendiherra manngæsku, hugprýði og dugnaðar enda drengurinn einstakur persónuleiki. Þótt Þróttarinn mikli, þessi elskandi faðir og eiginmaður, sé fallinn frá er hann engu að síður sigurvegari og skilur okkur eftir djúpt snortin yfir þeirri sýn sem hann hafði á lífið og því sem hann lagði á sig fyrir aðra.

Fyrir hönd Valsmanna sem öttu kappi við Sigurð Hallvarðsson og nutu vináttu hans utan vallar sendi ég fjölskyldu hans, ættingjum og vinum samúðarkveðjur.

Þorgrímur Þráinsson.