Ásgeir Pétur Ásgeirsson fæddist 17. janúar 1944. Hann lést 15. júní 2014. Útför hans fór fram í kyrrþey 25. júní 2014.

17. júní var fram undan og skólaslit Menntaskólans á Akureyri. Stúdentsárgangar höfðu safnast saman ásamt mökum til þess að fagna. Glaður hópur 50 ára stúdenta hluti af útskriftarhópi 73 stúdenta sem naut þriggja daga vel skipulagðrar dagskrár. Liður í þeirri dagskrá var að ganga um gamla skólann. Safnast var saman í gömlu náttúrufræðistofunni þar sem þeirra 13 samstúdenta sem horfnir voru var minnst af séra Láru G. Oddsdóttur. Tár blikuðu á vöngum við afar fallega athöfn. Séra Lára hafði kveikt á tveimur kertum við kennarapúltið. Allt í einu slokknaði á öðru kertinu. Daginn eftir, þann 17. júní, þegar við hittumst í hádegissúpu hjá Hólmfríði skólasystur okkar fengum við spurnir af því að 14. ljósið í árganginum hafði slokknað deginum áður. Samstúdent okkar Ásgeir Pétur Ásgeirsson var allur.

Ég kynntist Ásgeiri Pétri í þriðja bekk MA haustið 1960, en við bjuggum á sama gangi í heimavistinni. Hann bauð mér til helgardvalar á heimili foreldra sinna á Dalvík. Þessar helgarferðir voru mikil tilbreyting fyrir 16 ára ungling með svolitla heimþrá. Ég minnst þess hve foreldrar Ásgeirs Péturs tóku einstaklega vel á móti mér og hve ég var velkominn. Ég hef oft minnst á það áður hvað það var mikils virði fyrir okkur utanbæjarunglingana í heimsvistinni að vera boðin á heimili félaga okkar á Akureyri. Við Ásgeir Pétur áttum svo samleið öll árin í nýju heimavistinni. Við sex góðir félagar bjuggum í þremur samliggjandi herbergjum á fjórða-, fimmta- og sjöttabekkjargangi. Oft var gengið á milli herbergja og hin ólíklegustu mál rædd. Ásgeir Pétur var ekki hraðmæltur en ákaflega rökfastur og hafði skoðun á flestum málum. Ef ég man rétt var málfundafélagið Óðinn starfandi fyrir þriðju bekkinga (fyrsta árs nemendur). Ásgeir Pétur var formaður þann vetur og hóf þar í raun rökleg málflutningsstörf. Lögfræðin lá vel fyrir honum sem ævistarf. Ásgeir Pétur starfaði alla tíð á Akureyri, lengst af við Héraðsdóm Norðurlands. Hann starfaði einnig að félagsmálum, m.a. fyrir Sjálfsbjörg á Akureyri.

Ásgeir Pétur var góður félagi en að vissu marki lokaður persónuleiki sem ekki var auðvelt að komast að. Hann varð fyrir því að fá mænuveiki 11 ára gamall og lamast að hluta á hendi og fæti. Hann gekk því með fótspelku og við göngustaf alla tíð. Án efa hefur þessi hreyfihömlun haft varanleg áhrif á skapgerð hans. Mér var sagt að fyrir veikindin hefði hann verið kraftmikill og líflegur unglingur og efnilegur skíðamaður í heimabæ sínum með mikinn metnað til þess að ná árangri í þeirri íþrótt.

Þegar horft er til baka yfir lífsgönguna höfum við mætt miklum fjölda samferðamanna. Sameiginleg ganga er þó mislöng. Flestir hverfa í móðu liðins tíma, með öðrum eigum við samleið í leik, starfi og minningum. Einn af þeim sem ekki hverfa úr minningunni er Ásgeir Pétur. Hann var hjartahlýr, traustur og góður félagi. Við samstúdentar hans frá MA 1964 minnumst hans með mikilli virðingu. Guð blessi minningu góðs drengs.

Þráinn Þorvaldsson.