Í Námaskarði Sýslumaðurinn á Húsavík hefur samþykkt lögbannskröfu.
Í Námaskarði Sýslumaðurinn á Húsavík hefur samþykkt lögbannskröfu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Það er alltaf gaman að vinna leikinn og sýslumaður hefur tekið undir sjónarmið okkar sem óskuðum eftir lögbanninu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Það er alltaf gaman að vinna leikinn og sýslumaður hefur tekið undir sjónarmið okkar sem óskuðum eftir lögbanninu. Hér í sveitinni voru miklir hagsmunir í húfi en stóri punkturinn í málinu er samt sá að þetta er spurning um hver framtíðarskipan ferðamála í landinu skuli vera,“ segir Pétur Snæbjörnsson, hótelstjóri í Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit.

Sýslumaðurinn á Húsavík, Svavar Pálsson, samþykkti í gær lögbannskröfu félagsmanna í Landeigendafélagi Reykjahlíðar við gjaldtöku félagsins við Námafjall og Leirhnjúk. Lögbannið tekur gildi þegar lögð hefur verið fram 42 millj. kr. trygging. Frestur til að ganga frá henni er til miðvikudags í næstu viku.

Upphaflega stóð til að innheimta gjald af ferðamönnum við Leirhnjúk, Námaskarð og Dettifoss. Fallið var frá því á síðastnefnda staðnum þegar samningur náðist við forsvarsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs um uppbyggingu og úrbætur við fossinn sem miðast við að hlífa landinu eftir megni við álagi vegna vaxandi fjölda ferðamanna sem þangað koma á hverju ári.

Gjaldtaka hófst hinsvegar við hveri austan Námafjalls og við Leirhnjúk sem er á Kröflusvæðinu fyrir um mánuði. Alls 17 eiga hlut í Landeigendafélaginu Reykjahlíð. Sjö þeirra fóru fram á lögbannið.

„Í sjálfu sér eru engin viðbrögð af okkar hálfu við þessu. Niðurstaðan er fengin og við lútum henni. Það fór sem fór og nú bíðum við eftir því hvort þeir sem höfðu betur geta lagt fram þá tryggingu sem krafist er,“ sagði Guðrún María Valgeirsdóttir, formaður Landeigenda við Mývatn ehf., sem er jafnframt sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Guðrún María minnir á að lögbannskrafan hafi í raun snúist um hvort samþykki allra félagsmanna þyrfti fyrir því að hefja innheimtu aðgöngugjalds á umræddum ferðamannastöðum eða hvort samþykki meirihlutans dygði í þessu sambandi.