Snorri Þorsteinsson fæddist á Hvassafelli í Norðurárdal hinn 31. júlí 1930. Hann lést 9. júlí 2014 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

Foreldrar Snorra voru Þorsteinn Snorrason bóndi, f. 28.8. 1892 á Laxfossi, Stafholtstungum, d. 2.8. 1978, og Sigurlaug Gísladóttir, f. 6.1. 1891 í Hvammi í Norðurárdal, d. 5.6. 1974. Bróðir Snorra er Gísli Þorsteinsson, f. 15.12. 1935. Snorri var kvæntur Eygló Guðmundsdóttur, f. 14.12. 1935, d. 1.11. 2012. Foreldrar hennar voru Guðmundur Sölvason verslunarmaður, f. 3.2. 1910, d. 17.6. 1995, og Undína Sigmundsdóttir, f. 6.6. 1912 í Vestmannaeyjum, d. 19.5. 1981. Snorri og Eygló voru barnlaus en Eygló átti dótturina Margréti með fyrri manni sínum Guðjóni Sigurbjörnssyni lækni.

Snorri ólst upp á Hvassafelli og bjó þar þangað til hann tók við starfi fræðslustjóra þá flutti hann í Borgarnes. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1952. Hann stundaði nám við Háskóla Íslands í uppeldisfræði, ensku og íslensku og lauk þaðan BA-prófi í íslensku og sögu svo og kennsluréttindaprófi í uppeldis- og kennslufræðum. Auk þess sótti hann ýmis námskeið hérlendis og erlendis. Frá 1949 var hann farkennari í Norðurárdal og Þverárhlíð. Þá kennari og síðan yfirkennari við Samvinnuskólann í Bifröst. Hann var lengst af fræðslustjóri Vesturlandsumdæmis og síðar forstöðumaður Skólaskrifstofu Vesturlands. Fyrstu árin sem fræðslustjóri var hann jafnframt framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvar Borgarness.

Snorri var virkur í félagsmálum og sinnti mörgum árbyrgðarstörfum sem hér verður einungis tæpt á. Hann var í stjórn Ungmennafélagsins Baulu og UMSB á árunum 1949-1958. Hann tók þátt í störfum Framsóknarflokksins á árunum 1949-1971, sat í stjórn FUF í Borgarfirði og var formaður FUF í Mýrasýslu. Hann sat í stjórn SUF og í miðstjórn Framsóknarflokksins og var formaður kjördæmissambands framsóknarmanna í Vesturlandskjördæmi. Hann sat í fyrstu stjórn Kennarasambands Vesturlands og í stjórn Félags fræðslustjóra, hann var einnig fyrsti formaður Sambands verslunarskólakennara. Var formaður Þroskahjálpar á Vesturlandi og í svæðisstjórn um málefni þroskaheftra. Sögufélag Borgarfjarðar var Snorra einkar hugleikið og var hann formaður þess á árnum frá 2000-2014, félagið gaf út Borgfirskar æviskrár ásamt Borgfirðingabók og íbúatali. Snorri var félagi í Rótarý-klúbbi Borgarness og var forseti klúbbsins 2014-2015. Hann gegndi embætti umdæmisstjóra 1999-2000. Eftir hann liggja bækurnar „Sparisjóður í 90 ár. Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913-2003“ frá 2004 og „Barna- og unglingafræðsla í Mýrasýslu, 1880-2007“ frá 2009 Snorri skrifaði greinar um bókmenntir og sagnfræði, leikþætti, kennsluefni o.fl.

Útför Snorra fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 18. júlí 2014, kl 11.

Á þeim fáu dögum sem liðnir eru frá andláti Snorra bróður míns hefur hugurinn leitað til bernskuáranna. Ég fæddist 15. des. 1935, daginn áður gekk stórviðri yfir landið og fórust margir sjómenn. Frá því var sagt í útvarpi og það heyrði hinn fimm ára gamli bróðir minn og spurði foreldra okkar hvort svona margir hefðu orðið að deyja vegna þess að litli bróðir kom í heiminn.

Það hefur verið þessum fimm ára snáða blendin ánægja að vera sendur að heiman strax eftir að þessi litli, skrítni og grenjandi bróðir kom í heiminn. Á móti kom að ferðinni var heitið til ömmu og föðursystkina á Laxfossi, þar var gott að vera. Jólin voru á næsta leiti og að sjálfsögðu var gefið loforð um að hann yrði kominn heim fyrir hátíðina. Það var eitt verkefni sem sá stutti fól pabba áður en hann fór að heiman. Hann hafði komið sér upp kerfi til að telja niður dagana til jóla og því mátti ekki raska. Upp á skáp hafði hann raðað tindátum og þangað kallaði hann pabba og gaf fyrirmæli um að það ætti að fella einn á dag, ekki gleyma því og ekki fella tvo í einu. Svo var hann farinn niður á veg og var sendur einn með mjólkurbílnum að Laxfossi. Enginn sími var á þessum árum og því ekki hægt að láta vita um ferðir hans. Hann bjargaði sér sjálfur úr bílnum og til bæjar. Eitthvað hafa foreldrar okkar rætt þessa kennslustund í meðferð tindátanna því ég hafði komið mér upp svo sterkri mynd af þessu í huganum að á tímabili hélt ég að ég myndi eftir þessum fyrsta ævidegi mínum. Ég hlaut að sjálfsögðu nokkrar háðsglósur fyrir það en sé þetta samt fyrir mér enn í dag.

Bernskuár okkar á Hvassafelli voru góð og skemmtileg. Við fórum eins og aðrir á þeim tíma snemma að reyna að hjálpa til en lékum okkur samt mikið. Hamrarnir fyrir ofan bæinn höfðu sérstakt aðdráttarafl á Snorra sem vissi ekki hvað lofthræðsla var. Níu ára gamall klifraði hann, í óleyfi að sjálfsögðu, upp hamrana þar sem ekki var vitað til að áður hefði nokkur farið. Upp komst hann en hundurinn sem fylgdi honum sneri heim til bæjar. Snorri var töluvert uppátækjasamur sem barn og ég man eina tilraun sem hefði getað farið illa, hefði hún heppnast.

Okkur bræðrunum kom vel saman. Einhvers staðar stendur „það eru ekki bræður sem rífast ekki“ og auðvitað rifumst við stundum enda báðir skapstórir og bráðlyndir. Sá munur er þó á okkur að Snorri tamdi sitt skap mjög fljótt sem ég aftur á móti gerði aldrei. Ég get þó óhikað sagt að það hafa ekki verið mörg kvöld sem við höfum gengið til hvílu ósáttir við hvor annan. Einn er sá hlutur sem ég vil sérstaklega minnast á en það er hversu létt hann átti með að semja gamanmál hvort sem var í bundnu eða óbundnu máli. Það efni var mikið notað á þorrablótum Norðdælinga og víðar. Á minningu um samfylgd okkar bræðra í 78 ár ber engan skugga en hún einkennist öðru fremur af því að hann var veitandi og ég þiggjandi. Kannski ber fundum okkar saman á öðru tilverustigi, það væri gaman.

Blessuð sé minning þín.

Gísli Þorsteinsson.

Það er ekki létt verk að skrifa stutta minningargrein um Snorra föðurbróður okkar. Það er líka eitthvað skrítið að nota orðið „stuttort“ í tengslum við Snorra. Það skipti engu máli frá hverju hann var að segja, við fengum aldrei „stuttu útgáfuna.“ Enda grínaðist hann með það sjálfur að honum þætti best að ná okkur þegar við værum niðursokkin í einhver verk þá gæti hann þulið yfir okkur ævisögu sína án þess að við veittum því of mikla eftirtekt. Húmorinn hans var einstakur. Fáir hafa fengið okkur til að hlæja jafn dátt og líklega notum við ekki meira af beinum tilvitnunum í nokkur annan en hann þegar við tölum saman.

Minningar okkar um Snorra frá barnæskunni á Hvassafelli eru margar. Skrifstofan hans í húsi afa og ömmu, lyktin af bókum, frauðplast Geirfuglinn og stóri kuðungurinn með sjávarhljóðunum, blár Ópal sem hann var óspar á, Útvarp Matthildur og allar gáturnar. Heyskapurinn er líka ógleymanlegur. Snorri sat á traktorunum frá morgni til kvölds. Það var ekki erfitt að vita hvar hann var staddur því söngur hans náði næstum að yfirgnæfa vélarhljóðin og hann sló taktinn á stýrið. Hugur hans átti til að reika og því lenti hann oftar en aðrir í því að vélarnar flæktust í girðingum eða fóru yfir grjót, við lítinn fögnuð föður okkar sem sá um viðgerðirnar. Það þurfti ekki að hvetja börn og ungmenni á bænum til að fara með Snorra að gera við girðingarnar þar naut hann sín spaugandi og segjandi sögur umkringdur litlum lærisveinum og meyjum.

Áhrif Snorra á líf okkar voru mikil og góð. Hann sýndi því sem við tókum okkur fyrir hendur áhuga og ekki skorti á stuðning hans og hvatningu. Það var gott að geta sagt honum það og þakkað fyrir okkur á meðan að hann lifði og gat meðtekið. Þegar ljóst var að lífsgöngu hans væri að ljúka sýndi Snorri styrk sinn og reisn. Hann hófst strax handa við að ganga frá því sem honum fannst hann þurfa að ljúka en tíminn var styttri en okkur öll grunaði. Um dauðann, lífshlaupið og trúna á Guð sem hafði svo oft verið honum haldreipi í lífinu ræddi hann af hispursleysi. Hann tók því sem að höndum bar og talaði ávallt með þakklæti og hlýju um alla þá sem að umönnun hans komu þó að eflaust hafi ekki alltaf verið auðvelt fyrir jafn sjálfstæðan mann og Snorri var að þurfa að þiggja þá aðstoð. Stundirnar með Snorra þessa síðustu mánuði lífs hans voru ljúfsárar en viðhorf hans og það hvernig hann tókst á við þau erfiðu verkefni sem fylgja lífslokum gerðu þær að dýrmætum minningum og lærdómi.

Elsku frændi, við munum halda áfram að leggja stund á eitthvert „fíflarí,“ passa okkur á að „fordjarfa ekki meiningunni“ og „náttera hlutina með okkur“. Takk fyrir öll orðin og sposka svipinn sem fylgdi þeim. Takk fyrir faðmlögin og handaböndin sem voru svo þétt að þau entust út daginn. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur og kenndir.

Þorsteinn, Sigurlaug, Ingibjörg, Anna Bryndís og börn.

Vorið 1959 var ég að ljúka landsprófi og þurfti að taka ákvörðun um hvert skyldi stefna í áframhaldandi námi. Um þetta leyti var í Iðnskólanum í Reykjavík kynning á námsmöguleikum fyrir unglinga á mínum aldri. Þar vakti einkum athygli mína kynning Einars Ólafssonar í Lækjarhvammi á námi í Bændaskólanum á Hvanneyri og kynning Örlygs Hálfdánarsonar á Samvinnuskólanum í Bifröst. Nokkru síðar var Snorri Þorsteinsson, kennari við Samvinnuskólann á ferð í Reykjavík og kom eins og venja var í heimsókn til Ragnheiðar ömmu minnar, sem var móðursystir hans. Ég notaði tækifærið og spurði þennan frænda minn spjörunum úr varðandi Samvinnuskólann og námið þar. Þar með var teningnum kastað. Ég ákvað að sækja um skólavist í Bifröst og þreyta inntökupróf í skólann þá um haustið. Reyndist vera einn í hópi þrjátíu og tveggja nýrra nemenda sem fengu skólavist og hófu nám í byrjun október þetta haust. Snorri Þorsteinsson var í hópi þeirra kennara sem hófu störf við Samvinnuskólann haustið 1955 þegar skólinn var fluttur frá Reykjavík upp að Bifröst í Borgarfirði. Það hefur verið mikil áskorun fyrir hann, 25 ára gamlan, að takast, ásamt fámennu kennaraliði undir forystu séra Guðmundar Sveinssonar, skólastjóra, á við það verkefni að skapa það uppbyggilega skólastarf sem framundan var á nýjum stað. Kennslugreinar Snorra voru á þessum tíma einkum íslenska og enska auk þess að kenna nemendum undirstöðuatriði í fundarsköpum og fundarstjórn og þjálfa þá í ræðumennsku. Ég hygg að ég geti mælt fyrir munn okkar margra sem stunduðum nám í Samvinnuskólanum á þessum árum, að þar var lagður góður grunnur fyrir lífsstarf margra, sem reynst hefur okkur afar hagnýtt á starfsævinni. Við tveggja ára dvöl í Bifröst mynduðust persónuleg tengsl og vinátta nemenda og kennara, sem áttu eftir að endast ævilangt og víst er að Snorra var í mun að fylgjast með fyrrverandi nemendum sínum eftir að skólavist þeirra lauk. Eftir að hafa starfað sem kennari og síðar yfirkennari við Samvinnuskólann í 19 ár lét hann af störfum þar árið 1974. Við tók starf sem fræðslustjóri á Vesturlandi þannig að segja má að hann hafi varið starfsævi sinni við fræðslustörf í sínu fæðingarhéraði. Eftir að hann lauk starfi sem fræðslustjóri var hann afkastamikill við ritstörf og skráði meðal annars heimildarit um fræðslustarf í Mýrasýslu 1880 til 2007. Eftir að skólavistinni í Bifröst lauk hef ég m.a. fyrir frændsemi sakir átt þess kost að njóta þekkingar Snorra og ánægjuleg og eftirminnileg er leiðsögn hans með okkur systkinunum frá Hjalla í Kjós og fylgdarliði okkar fyrir réttum tveimur árum, þegar við fórum um Borgarfjarðarhérað í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu móður okkar, sem fædd var á Glitsstöðum í Norðurárdal. Snorri missti mikið þegar Eygló eiginkona hans lést í nóvember 2012, en þau voru afar samrýmd og nutu þess meðal annars að ferðast saman bæði erlendis og hérlendis. Ég minnist Snorra frænda míns með hlýhug og virðingu og sendi aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Hermann Hansson.

Fallinn er frá heiðursmaðurinn Snorri Þorsteinsson frá Hvassafelli, áður kennari við Samvinnuskólann á Bifröst og fræðslustjóri Vesturlands um árabil.

Leiðir okkar Snorra lágu saman í gegnum störf fyrir Rótarýhreyfinguna á Íslandi en hann gegndi embætti umdæmisstjóra starfsárið 1999-2000. Það féll í minn hlut að taka við því embætti af honum og var það mér dýrmæt reynsla að kynnast honum og njóta leiðsagnar hans við undirbúning starfsins. Það var ósjaldan sem ég leitaði til hans með spurningar og íhugunarefni. Oftar en ekki var það að kvöldi dags og svaraði þá Snorri að bragði af sinni alkunnu hógværð. Er mér ekki grunlaust um að hann hafi þá setið að ritstörfum eða við lestur.

Þegar ég hafði starfað um nokkurt skeið með Snorra komst ég að því að þó nokkur skyldleiki var með okkur, enda báðir af ætt séra Snorra á Húsafelli. Snorri vissi þetta frá fyrstu kynnum enda með ættfróðari mönnum. Um ætt séra Snorra var sagt m.a. að menn væru frómir og iðjusamir. Er enginn efi í mínum huga að Snorri hafði erft þá eiginleika enda leysti hann með sóma allt sem hann tók að sér enda voru heiðarleiki og nákvæmni einkenni hans. Með Snorra er horfinn á braut áhugasamur og heill rótarýfélagi sem ég minnist með virðingu og þökk.

Við Anna nutum ánægjulegra samverustunda með Snorra og Eygló eiginkonu hans bæði hér heima og erlendis. Það er eftirsjá að þeim hjónum en gott að eiga þá góðar minningar. Við Anna færum ættingjum Snorra og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Steinar Friðgeirsson.

Miðvikudagur 9. júlí. Ég er staddur á Sjúkrahúsinu á Akranesi, degi tekið að halla. Þremur vikum fyrr ræddum við saman í síma, sami góði Snorri og ávallt áður, en því miður hafði krabbinn enn knúið dyra hjá honum í vor. Um leið og ég kom inn á sjúkrastofuna skynjaði ég að komið var að kveðjustund. Ég tók um hönd hans, en nú kom ekkert þétt handtak á móti. Nokkrum klukkustundum síðar var hann allur.

Til hliðar við sjúkrarúmið hékk innrömmuð staðfesting frá Rótarýklúbbi Borgarness, dagsett 4. júlí 2014. Heiðursfélagi! Ég velti fyrir mér að Snorri vinur minn hefði margar viðurkenningar hlotið, og gladdist innra með mér að hafa átt þátt í að gamlir nemendur hans frá Bifröst héldu honum fjölmennt afmælishóf á Hraunsnefi árið 2010.

Kynni okkar Snorra hófust nokkru áður en ég hóf nám á Bifröst, en í þeim góða skóla mynduðust ævarandi vináttubönd milli nemenda og við kennara, m.a. á milli okkar Snorra. Skarð er því stórt fyrir skildi í mínum huga. Ég hef sagt það áður að alla tíð síðan hef ég fundið fyrir áhrifum frá honum úr íslenskukennslunni, ekki síst þegar ég skrifa texta til opinbers flutnings, hvort heldur er handritsgerð fyrir útvarp, eða blaðagrein. Áhrifin ekki minni frá honum þegar stigið er í ræðustól eða fundi stjórnað. Ég segi því að Snorri hafi haft margvísleg áhrif á lífshlaup mitt og þakklæti því ofarlega í huga á kveðjustund.

Af hálfu okkar bekkjarsystkinanna, sem brautskráðumst frá Bifröst vorið 1964, flyt ég aðstandendum Snorra einlægar samúðarkveðjur. Við minnumst með gleði góðra stunda með honum, bæði úr skólanum og þegar hann heiðraði okkur með nærveru sinni á afmælisárum. Vegna veikinda sinna komst hann því miður ekki í Bifröst þann 1. maí sl. þegar við minntumst þess að hálf öld var liðin frá því að við gengum glöð út í lífið í umhverfinu fallega í Norðurárdal.

Við leiðarlok er mér minnisstætt úr enskukennslunni að Snorri vitnaði í mismuninn á big og great. Í mínum huga var Snorri og verður ætíð „Great“. Blessuð sé minning góðs drengs.

Óli H. Þórðarson.

Með söknuði í hjarta kveð ég vin minn Snorra Þorsteinsson, fyrrverandi fræðslustjóra á Vesturlandi. Leiðir okkar lágu saman við fjölmörg tækifæri, enda unnum við lengi vel á sama starfsvettvangi. Er skemmst frá því að segja að öll þau kynni voru hin ánægjulegustu. Snorri var einstaklega háttprúður og heilsteyptur maður sem ávinningur var að kynnast og eiga samskipti við. Einnig minnist ég sérstaklega ógleymanlegra stunda sem við fræðslustjórar áttum á fögru heimili þeirra hjóna, Snorra og Eyglóar, í Borgarnesi. Þar ríkti sönn gestrisni, gleði og góðvild sem er mér enn í fersku minni, þótt árum fjölgi og fenni í gömul spor. Þá minnist ég líka samfunda og samstarfs sem við Snorri áttum í félagsskap okkar Rótarýmanna. Einnig það var mjög gefandi og skemmtilegt og með miklum ágætum í hvívetna. En nú hefur þessi góði og vandaði drengskaparmaður verið kallaður burt til æðri heima þar sem hans bíða ný verkefni á öðru og hærra tilverustigi. Að leiðarlokum kveð ég hann með trega, en jafnframt með miklu þakklæti fyrir ágæt og gefandi kynni um langt árabil. Ég sendi ástvinum hans einlægar samúðarkveðjur og bið góðan Guð að blessa minningu Snorra Þorsteinssonar.

Jón R. Hjálmarsson.

Það var fyrir meira en 60 árum sem ég sá Snorra fyrst. Hann var þá einn keppenda í ræðukeppni sem Ungmennasamband Borgarfjarðar efndi til í Logalandi í Reykholtsdal. Hann var þá, þrátt fyrir ungan aldur, orðinn flugmælskur og áhrifamikill ræðumaður.

Ég kynntist Snorra fyrst í Bifröst þegar ég var nemandi þar á öðru og þriðja starfsári skólans. Hann var í hópi fyrstu kennara skólans og átti örugglega mikinn þátt í mótun skólastarfsins á nýjum stað. Kynni mín við Snorra voru síðan endurnýjuð nokkrum árum seinna þegar ég var samkennari hans við skólann um þriggja ára skeið.

Leiðir okkar Snorra lágu síðan saman í Borgarnesi. Hann tók við starfi fræðslustjóra á Vesturlandi sem varð hans aðalstarf upp frá því. Jafnframt veitti hann forstöðu Fræðsluskrifstofu Vesturlands í Borgarnesi. Mikil samvinna var auðvitað milli sveitarstjórna á svæðinu og fræðslustjórans. Sem sveitarstjórnarmaður í Borgarnesi kynntist ég því vel hversu rösklega Snorri gekk til verks sem fræðslustjóri. Hann lagði sérstaka áherslu á að bæta hag þeirra nemenda sem áttu við einhverskonar fötlun að stríða og tók virkan þátt í stuðningssamtökum fatlaðra á Vesturlandi.

Samstarf okkar Snorra hélt áfram eftir að ég hóf störf í félagsmálaráðuneytinu 1985. Stór hluti af framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga rann til sveitarfélaganna vegna reksturs grunnskólanna. Fræðslustjórarnir önnuðust margskonar upplýsingagjöf til sjóðsins sem var síðan notuð við ákvörðun framlaganna. Snorri átti einnig ríkan þátt í hversu vel tókst til með flutning málefna grunnskólanna til sveitarfélaganna.

Snorri var mikill félagshyggjumaður og var mjög virkur í samfélaginu í Borgarfirði. Ég ætla að nefna hér félagsskap sem hann tók mikinn þátt í. Það var Rótarýhreyfingin en hann var félagi í Rótarýklúbbi Borgarness. Mér er það minnisstætt þegar ég tók að mér að vera umdæmisstjóri Rótarý 1985-1986 hversu mikils virði það var mér að geta þá oft leitað ráða hjá Snorra. Hann gegndi svo starfi umdæmisstjóra fyrir nokkrum árum. Hann sinnti starfinu af alúð og myndarskap og hlaut að launum lof og þakklæti félaga sinna í Rótarýhreyfingunni.

Snorri átti við erfið veikindi að stríða seinustu árin. Það var honum þungt áfall þegar kona hans féll frá 2012. Við Erla heimsóttum hann á sjúkrahúsið á Akranesi nokkrum dögum áður en hann dó. Þótt hann væri enn nokkuð hress í tali var ljóst að hverju dró.

Þegar ég sagði gömlum vini og samstarfsmanni okkar Snorra frá andláti hans varð honum að orði: „Snorri var drengur góður.“ Það skulu vera lokaorðin og kjarninn í eftirmælum mínum um Snorra.

Að leiðarlokum þökkum við Erla, Snorra fyrir margra áratuga vináttu og samskipti um leið og við sendum ættingjum hans og venslafólki innilegar samúðarkveðjur.

Húnbogi Þorsteinsson.

Margar minningar leita á hugann þegar rifjuð eru upp kynni af Snorra Þorsteinssyni. Snorri var okkur vinur og samverkamaður, en sem yfirmaður sýndi hann traust og stuðning bæði persónulega og í starfi, hvatti okkur til starfsþróunar og til eflingar fagmennsku, sem hann síðan reiddi sig á sem fræðslustjóri Vesturlands. Snorri hlustaði, bar virðingu fyrir fagmennsku okkar og tók mark á manni, lét mann finna til sín og finnast maður vera traustsins verður sem hann bar til okkar. Snorri flíkaði ekki oft tilfinningum sínum, en þegar hann tók til máls var hlustað. Mannkostir hans voru kannski einkum þeir að hann þorði að vera manneskja. Hann var traustur, bar aldrei illt á milli fólks, lagði gott til manna og málefna og hafði auk þess lúmskan húmor. Og svo hafði hann hjartað á réttum stað og lét sér annt um lítilmagnann. Hann var örlátur á tíma sinn og krafta, hafði tíma til að hlusta. Auk þess gerði hann fólki greiða eins og ekkert væri eðlilegra, fór jafnvel heim á bæi og hjálpaði gömlum nágrönnum. Við minnumst hans einnig sem skólamanns, skólamanns í þeim skilningi að skóli skyldi vera menntandi, fræðandi og uppalandi, og þó að hann hefði góðan skilning á mikilvægi umgjarðar skólastarfs og stærstur hlutur þar væri mannaflinn, þá var hann fyrst og fremst talsmaður barna og þótti afar vænt um börn. Skóli skyldi sjá til þess að allir nytu stuðnings í samræmi við þarfir sínar, óháð getu eða öðrum forsendum einstaklinga til lífs og sálar. Hann hafði sérstakt lag á því við okkur og stjórnendur í skólum og sveitarfélögum að styðja við gott starf, en á sama tíma veita allt það aðhald sem embætti hans bar. Snorri var einnig mannasættir og þá fenginn til að jafna ágreining hvort heldur var milli skóla og sveitarstjórna eða skóla og foreldra þegar þeim fannst skólar Vesturlands geta gert betur og börn þeirra lentu í klemmu. Snorri kenndi ræðumennsku á árum áður á Bifröst, og hafði sérstakt lag á því á mannamótum eins og þegar kennarar héldu þing sín að hausti á Vesturlandi að lyfta sér yfir smáatriði og ræða þau mál sem meira máli skiptu. Oftar en ekki var hann gagnrýninn en fyrst og síðast hvetjandi og kennarar höfðu á orði að alltaf væri gott að hlusta á eldræður Snorra. Og ekki má undan skilja áhuga hans á íslenskri menningu og sögu. Minni hans á ljóð, Íslendingasögur og sagnfræði heimahéraðsins var viðbrugðið. En Snorri var ekki bara samverkamaður, hann var líka Snorri og Eygló. Eygló var allaf við hlið hans og hann við hennar og þannig hittumst við oft glöð og ánægð utan starfsins. Síðast fyrir rúmum tveimur árum í sumarhúsi Elmars, en minningin um þann fund er minningin um þá miklu vináttu sem þessi hópur átti saman. Um leið og við kveðjum þennan fyrrverandi yfirmann okkar, mætan samstarfsmann, framsýnan, grandvaran og velviljaðan, þökkum við fyrir allan þann stuðning í lífi og starfi á tímum Fræðsluskrifstofu og síðar Skólaskrifstofu Vesturlands. Kveðja,

Ásþór, Bergþóra, Björn Þráinn, Elmar, Harpa, Jóhanna S., Ragnheiður

og Sigurveig.

Nú sefur jörðin sumargræn.

Nú sér hún rætast hverja bæn

og dregur andann djúpt og rótt

um draumabláa júlínótt.

Í hafi speglast himinn blár.

Sinn himin á hvert daggartár.

Í hverju blómi sefur sál,

hvert sandkorn á sitt leyndamál.

Nú dreymir allt um dýrð og frið

við dagsins þögla sálarhlið,

og allt er kyrrt um fjöll og fjörð

og friður drottins yfir jörð.

Svo kvað Davíð Stefánsson á sinni tíð og er ég spurði lát vinar míns og leiðtoga, Snorra Þorsteinssonar frá Hvassafelli, kom ljóðið mér í hug. Þegar leiðir okkar lágu fyrst saman, varst þú á miðjum aldri orðinn fræðslustjóri Vesturlands eftir glæstan kennsluferil á Bifröst með búskap á Hvassafelli. Ég, ungur að aldri, að verða skólastjóri á Kleppjárnsreykjum. Þá var fræðslustjóri ríkisstarfsmaður eins og grunnskólakennarar og skólastjórar. Á þessum árum var skólastjórum gert að skipuleggja skólastarf komandi vetrar, og halda sig innan reiknireglu ríkisins, en færa ella gild rök fyrir frávikum. Þó að ég hafi kviðið fyrstu heimsókn minni til þín lærðist mér þegar í upphafi að það var óþarft. Mér varð nefnilega strax ljóst að þú kunnir að hlusta, varst ófeiminn við að rökræða og mynda þér skoðun á því hvort skipulagið væri í jafnvægi, eða hvort sækja þyrfti um viðbót. Þú varst í þessu embættismaður ríkisins með hjartað í sveitinni og vissir, hversu mikilvæg fræðsla og menntun æskumanna sveitanna var. En þú varst ekki aðeins sanngjarn við fjárlagagerðina, heldur varstu góður áheyrandi ungs skólastjóra sem viðraði hugmyndir sínar um skólastarf og stefnu. Ekki endilega sammála, en ræddir og ráðlagðir til heilla. Þú varst líka þeirrar gerðar að vilja reynast verkefninu vaxinn hverju sinni. Notaðir hvert tækifæri þegar haldin voru skólastjóra- og kennaraþing að brydda upp á nýjungum, minna á gömlu gildin og hvetja okkur öll til dáða. Að vera framsækin og leitandi fyrir æskumenn. Það var mikil afturför að sá háttur fræðslustjóra að örva og leiðabeina okkur skyldi leggjast af er þú lést af störfum. Fyrir alla aðstoð og hvatningu þína fæ ég seint fullþakkað.

En þú varst ekki aðeins fræðslustjóri í mínum huga, heldur voruð þið Eygló okkur Jónínu einlægir vinir og velgjörðarmenn, utan starfans og allan tímann er ykkar naut við. Það fylgdi því ætíð einhver birta að hitta ykkur, hvort heldur var á mannamótum eða heima fyrir. Börnin okkar þekktu ykkur sem vini foreldra sinna. Ýmis samskipti síðustu árin, bæði tengd Borgfirðingabók og undirbúningi bókarinnar um héraðsskóla Borgfirðinga, minntu á liðna og góða tíð.

En svo fer um síðir að vinir skiljast, og þrátt fyrir söknuð, gleðst ég yfir því að þú kveðjir á blessaðri sumartíð, þegar allur gróður er í blóma, því þannig vil ég muna þig, óbilandi baráttumann betri tíma í sveitum og sannrar menntunar æskunnar.

Nú dreymir allt, hvert foldarfræ,

að friður ríki um lönd og sæ.

Nú lifir allt sinn dýrðardag.

Nú drottnar heilagt bræðralag.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.)

Guð styrki þá er þig nú syrgja og blessi minningu góðs drengs.

Guðlaugur Óskarsson,

Reykholti.

Snorri Þorsteinsson var félagsmálamaður sem lét sig ýmis samfélagsmál varða, ekki síst stöðu og líf samferðafólks síns. Hann var frumkvöðull og hann var góður liðsmaður sem lét verkin tala. Snorri var forystumaður í Rótarýhreyfingunni bæði á landsvísu og í Borgarfirðinum. Hann var mikilvirkur fræðimaður í sagnfræði og í forystu Sögufélags Borgfirðinga. Samhliða starfi sínu sem fræðslustjóri lét Snorri til sín taka í málefnum fatlaðs fólks og var ötull baráttumaður fyrir fólk með þroskahömlun. Það er eftirsjá að slíkum hugsjónamanni.

Snorri var forystumaður í uppbyggingu á þjónustu við fatlað fólk á Vesturlandi. Hann réð fyrsta starfsmanninn til að sinna fötluðu fólki og sérstaklega fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra. Hann átti frumkvæði að því að kalla saman hóp fólks sem stóð að stofnun Þroskahjálpar á Vesturlandi. Hann var frumkvöðull að öflugu samstarfi milli Landssamtakanna Þroskahjálpar og þeirra sem börðust fyrir bættu lífi fatlaðs fólks á Vesturlandi. Ásamt öðrum stóð hann að því að kallaðir voru saman aðstandendur þroskahefts fólks á Vesturlandi, þar sem fólk gat miðlað af sameiginlegri reynslu sinni sem aðstandendur. Þannig fékk fólk stuðning frá öðrum sem voru í sömu stöðu. Með því voru stigin mikilvæg skref í uppbyggingu á þjónustu við fatlað fólk.

Snorri sat í svæðisstjórn og síðar í svæðisráði Vesturlands um málefni fatlaðs fólks, þar sem hann lét mikið að sér kveða og var þar lengi vel formaður. Hann hafði forystu á Vesturlandi, í uppbyggingu á þjónustu fyrir fatlað fólk, m.a. dagþjónustu, vernduðum vinnustöðum og á heimilum fyrir fatlað fólk. Undir forystu Þroskahjálpar á Vesturlandi var farið af stað með sumardvöl og síðan skammtímavistanir. Hann var í forystu við uppbyggingu á öflugri ráðgjafarþjónustu við fatlað fólk, þar sem áherslan var á aukinn styrk og völd fatlaðs fólks í eigin lífi. Virðing og bætt staða fatlaðs fólks var honum alltaf hugleikin. Snorri var ötull baráttumaður fyrir bættri þjónustu við fatlað fólk og margar ferðir fór hann í ráðuneyti sem málsvari Vestlendinga í þessum málum.

Snorri var hugsjónamaður. Hann var talsmaður mennsku og mannúðar. Hann lagði áherslu á að allir nytu virðingar á sínum forsendum. Þannig var hann fyrirmynd okkar hinna. Að lokum vil ég þakka Snorra fyrir samfylgdina, fyrir vináttu hans og stuðning. Ég mun sakna góðs félaga.

Magnús Þorgrímsson.

Við andlát Snorra Þorsteinssonar frá Hvassafelli í Norðurárdal lýkur ákveðnum kafla í sögu skólasetursins á Bifröst. Skal það skýrt nánar. Þegar Samvinnuhreyfingin ákvað að ráðast í það verkefni að færa Samvinnuskólann upp í sveit frá Reykjavík, þar sem hann hafði verið í nærfellt 40 ár, þótti mörgum það hið mesta glapræði. Slíkur skóli ætti að vera áfram í Reykjavík þar sem höfuðstöðvar Sambandsins voru og þar sem hjarta viðskiptalífsins slær. Ekkert annað kæmi til greina. Forystumenn SÍS voru á öðru máli og undir styrkri stjórn hins merka skólamanns Guðmundar Sveinssonar var Samvinnuskólinn fluttur á Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði og settur í fyrsta skiptið haustið 1955.

Kennaraliðið var fámennt fyrsta árið en fljótlega vakti athygli að meðal kennara var ungur maður frá Hvassafelli í Norðurárdal, Snorri Þorsteinsson. Síðan eru liðin tæplega 60 ár og nú eru þeir allir burtkallaðir sem hófu kennslu við skólann haustið 1955, Snorri þeirra síðastur enda yngstur í kennaraliðinu. Þar með er ákveðnum kafla lokið í skólastarfinu á Bifröst, eins og áður greinir.

Snorri var afbragðs kennari og minnast nemendur Samvinnuskólans hans með hlýju og vinsemd. Sérstaklega var til þess tekið hversu góður kennari hann var í bókmenntasögu. Hinu verður líka að halda til haga að Snorri var ekki mörgum árum eldri en nemendur hans og jafnvel í sumum tilvikum yngri og því mynduðust ævilöng vináttubönd milli hans og fjölmargra nemenda skólans.

Þegar Snorri hvarf frá Samvinnuskólanum vorið 1974 tóku við önnur og spennandi verkefni sem fræðslustjóri Vesturlands. Mér er kunnugt um að öll þau störf vann Snorri af sérstakri alúð og samviskusemi. Verður honum fullseint þakkað fyrir öll þau verkefni sem hann tók að sér heima í héraði, hvort sem þau tengdust fræðslumálum eða öðrum verkefnum sem honum voru hugleikin.

Ég átti því láni að fagna að vera í senn nemandi hans, samstarfsmaður hans í kennslunni og vinur í hartnær hálfa öld. Hvers getur maður óskað sér betra þegar um er að ræða jafn mikinn drengskaparmann og merkan samferðarmann og Snorra Þorsteinsson?

Ég átti síðast tal við Snorra í maí sl. Hann var þá nýkominn heim af spítalanum á Akranesi og bar sig vel en var þó nokkuð máttfarinn. Hann bað fyrir góðar kveðjur til skólasystkina minna sem þá höfðu nýlega komið saman í tilefni hálfrar aldar útskriftar frá Bifröst. Hann hefði gjarnan viljað vera með okkur þennan dag en gat það ekki sökum veikinda.

Við Kristín sendum Margréti, fósturdóttur Snorra, og Gísla, bróður hans, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Atvikin haga því þannig til að við getum því miður ekki verið við jarðarför Snorra en hugur okkur er með honum í dag og fjölskyldu hans.

Hrafn Magnússon.

Snorri var drengur góður, vinur okkar, kennari, uppalandi og fræðari. Hann gaf okkur fyrirmyndir í stíl og framsögn sem áttu eftir að nýtast mörgum í starfi og tómstundum.

Með Snorra og síðar Eygló heitinni áttum við margar gleðistundir þegar fagnað var endurfundum bekkjarfélaga.

Í meira en hálfa öld hefur Snorri verið tryggur vinur, nú eru góðar minningar einar eftir. Rétt er að kveðja með gullkornum úr Hávamálum sem hann kynnti fyrir okkur og benti á frábært mál og orðkynngi.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

Endurfundirnir verða ekki fleiri, en minningin um Snorra frá Hvassafelli lifir áfram í hugum okkar.

Árgangur 1962 frá Bifröst,

Ágústa Þorkelsdóttir.

Snorri Þorsteinsson frá Hvassafelli í Norðurárdal er fallinn frá. Enn er höggvið skarð í raðir okkar samstúdenta MR52.

Snorri stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1950 til 1952 eftir landspróf frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Það er oft erfiðara að koma inn í hóp þeirra, sem verið hafa saman í skóla í mörg ár, en Snorri var vinsæll og og auðgaði árganginn okkar. Hann aðlagaðist hópnum vel og sótti samkomur og viðburði þótt hann væri í raun búsettur í Borgarfirði. Snorri var ekki hávaxinn, en samsvaraði sér vel. Hann var einstakt prúðmenni, hafði bjart yfirlit og fallegt og smitandi bros. Hann var snyrtimenni, vel máli farinn, talaði fallegt mál, en tranaði sér aldrei fram í umræðum.

Á kaffisamkomu árgangsins í janúar 2013 flutti Snorri okkur fróðlegt og skemmtilegt yfirlit yfir sína ævi og störf. Má segja að það hafi verið með ólíkindum hve víða hann kom við um ævina sem bóndi, kennari, forstöðumaður Skólaskrifstofu Vesturlands, fræðslustjóri Vesturlands, formaður Sögufélags Borgarfjarðar, umdæmisstjóri íslenska umdæmis Rótarýklúbba, auk mikilla afkasta við ritstörf.

Aðrir munu væntanlega gera þessum þáttum betri skil.

Á nefndum fundi skaut sýslungi hans, Bjarni Valtýr Guðjónsson, fram eftirfarandi:

Snorri flutti ferðarollu stóra.

Gat um alla léttri lund

lífsins för á hálfri stund.

Þjónað hefur mörgum menntagyðjum.

Enn er knár og ungur sveinn

áfram sækir hreinn og beinn.

Samstúdentar Snorra þakka góðum dreng fyrir gefandi viðkynningu og senda aðstandendum bestu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd MR52-stúdenta,

Gunnar Torfason.

Við, Rótarýfélagar í Borgarnesi, kveðjum í dag einn félaga okkar, Snorra Þorsteinsson, fyrrverandi yfirkennara og fræðslustjóra. Hann gerðist félagi í klúbbnum árið 1977, varð síðan ritari og enn síðar forseti, 1982-1983. Þá varð hann umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins á Íslandi 1999-2000.

Af þessu má sjá að vel treystum við þessum félaga til að takast á við hin margvíslegu störf sem til falla í klúbbi sem þessum. Og það gerðum við af því að við vissum að hann myndi leysa þau vel og farsællega af hendi eins og raunar þau önnur störf margvísleg sem honum voru falin á langri ævi. Enda gerðum við hann að heiðursfélaga.

En nú söknum við vinar í stað og það er skarð fyrir skildi. Nú njótum við þess ekki lengur að hlusta á hann halda ræðu um Rótarýmálefni, sem hann gjarnan gerði, ekki síst til að minna okkur á að við værum hluti af heimshreyfingu.

Margs er að minnast frá langri samveru.Við félagarnir þökkum fyrir hana og kveðjum látinn félaga og biðjum honum allrar blessunar. Far þú í friði,vinur, friður Guðs þig blessi.

Fyrir hönd Rótarýklúbbs Borgarness,

Daníel Haraldsson, forseti.

Það var haustið 1956 sem við lögðum leið okkar í Borgarfjörðinn. Íslenskt þjóðfélag var á leið inn í nútímann. En okkar 35 bekkjarsystkina, sem höfðum valist eftir inntökupróf til að setjast á skólabekk í Bifröst, beið framtíðin. Þetta var annað ár Samvinnuskólans þarna uppfrá og fyrsta árið sem þessi tveggja vetra skóli var fullsetinn. Þetta var einmitt haustið sem Elvis Presley var að gera allt vitlaust í Ameríku og bandarísk dægurmenning átti greiða leið að íslenskum ungmennum.

Það var að vísu rokkað í Bifröst en að öðru leyti ríkti þar klassísk menning. Það voru Grikkir og Rómverjar, að ógleymdum vefurum frá Rochdale. Þeir voru undirstaðan, ásamt bókhaldinu og logaritmanum. Þetta var frábær blanda, þegar við bættist það besta úr íslenskri menningu að fornu og nýju. Þar kom Snorri Þorsteinsson til sögunnar og var réttur maður á réttum stað. Hann var sonur Borgarfjarðar, átti þar ættir sínar, allt til Snorra á Húsafelli. Foreldrar hans voru af aldamótakynslóðinni. Hann átti því sterkar rætur í sveitasamfélaginu en fékk notið þess að horfa lengra og tók nú þátt í að fræða okkur, sem allmörg vorum börn dreifbýlisins eins og hann. Kennarar okkar, sem sátum á skólabekk fyrir meira en fimmtíu árum, eru margir gengnir til feðra sinna og Snorri Þorsteinsson kveður seinastur þeirra, sem störfuðu á Bifröst fyrstu árin.

Fyrstu kynni mín af Snorra eru minnisstæð. Það var í inntökuprófinu, sem háð var í MR. Ég ætlaði að fljúga til Reykjavíkur en flugveður gafst ekki og þegar ég komst suður var stærðfræðiprófinu að ljúka. En íslenskuprófið hafði verið daginn áður og ég fékk að taka það munnlega. Það var Snorri, sem sá um þessa athöfn og Hörður Haraldsson var prófdómari. Ekkert man ég hvar ég kom upp, eða hvernig mér gekk en ekki held ég þarna hafi verið hart gengið fram. Ég vissi ekki heldur alveg hvernig ég átti að túlka orð Snorra um mig sem væntanlega skólasystur bílstjórans á Bifröst, nokkuð sem mér fannst nú ekki beinlínis borðleggjandi, þarna í miðjum prófunum. En Borgnesingurinn Grétar Ingimundarson var bílstjóri Snorra þennan dag og þeir skiluðu mér vestur í bæ að loknu prófi.

Árin í Bifröst voru flestum notadrjúg til menntunar og þroska. Þetta var heimili okkar þessa vetur og kennararnir gengu okkur í foreldra stað. Vildu veg okkar sem mestan, hvatning þeirra var öflugt veganesti. Ekki vissum við þá hve í raun við þurftum á þessu veganesti að halda, því ekki er hægt að segja að þjóðarskútan íslenska hafi siglt sléttan sjó síðustu áratugi. En hæfileg rótfesta í hinu gróna og staðföst trú á allt sem íslenskt er, ásamt framfaratrú og bjartsýni var arfur kynslóðar Snorra Þorsteinssonar. Hann lagði sig allan fram um að miðla þessum arfi og kynna okkur jafnframt það besta í íslenskum samtíma. Honum fylgja þakkir okkar fyrir samfylgdina og leiðsögnina í Bifröst en ekki síður fyrir áframhaldandi vináttu og þátttöku hans í margháttuðu félagslífi okkar bekkjarsystkinanna í meira en hálfa öld.

Dagbjört Torfadóttir.

Héraðsins ásýnd er hrein og mild,

í háblóma er lífið á völlum og sléttum

og úi og grúi af grænum blettum

hjá gráum, sólbrenndum klettum.

Náttúran sjálf er hér góð og gild;

Sem glitborð, dúkað með himneskri snilld,

breiðir sig engið. Allt býðst eptir vild.

Borðið er þakið með sumarsins réttum.

(Einar Benediktsson.)

Enginn sem fer um Norðurárdal er ósnortinn af náttúrufegurðinni. Í þessu umhverfi hefur vaxið kraftmikill landbúnaður, ferðaiðnaður og öflugt skólastarf. Þar hefur Samvinnuskólinn dafnað í örmum Grábrókarhrauns. Þarna lagði samvinnuhreyfingin vöggu menningar og mennta. Í forystu var sr. Guðmundur Sveinsson, sem vann þrekvirki með eljusemi og víðsýni.

Guðmundur fékk með sér margt gott fólk. Einn af þeim var Snorri Þorsteinsson, uppalinn og mótaður af borgfirsku umhverfi og menningu. Hægur í framkomu, en undir bjó mikið skap, seigla og glaðværð. Hann var vel máli farinn, víðlesinn um allt sem varðaði íslenskt mál, bókmenntir, menningu og sögu. Hann var umfram allt mikill félagsmálamaður og lagði sig fram um að miðla af þeirri þekkingu.

Fyrir nokkrum dögum ók ég framhjá Hvassafelli og varð sem oftar hugsað til Snorra. Hann kenndi okkur ensku, íslensku og bókmenntir. Undirstöðu sem öllum er nauðsynlegt veganesti í lífinu. Minnisstæðast er þó fræðsla hans um fundarsköp og ræðumennsku. Allir áttu að geta stjórnað fundum, staðið upp og haldið ræður og þær áttu að vera stuttar. Best væri að skrifa þær, læra utan að og flytja af skörungskap. Enginn slapp við að reyna og það voru oft þungbær spor. Kennslan hefur reynst nemendum gott veganesti og við þakkað Snorra það oft á lífsleiðinni.

Snorri var fyrst og síðast góður félagi. Honum var annt um velferð nemenda. Fylgdist grannt með framvindu allra og ávallt tilbúinn til aðstoðar. Hann lagði áherslu á góða framkomu, minnti nemendur á strangar reglur um bindindi og góðan klæðaburð. Við áttum að vera vel klædd í kennslustundum. Hann sagði að enginn vildi mæta fólki í flaksandi skyrtum í viðskiptalegum samskiptum. Margir mættu læra af því í dag.

Snorri bar ekki aðeins umhyggju fyrir nemendum er á dvölinni stóð. Hann var áhugasamur um gengi okkar í lífinu, mundi eftir öllum. Fannst hann bera vissa ábyrgð á að okkur farnaðist vel. Hann leit á skólann sem sterkan þátt í uppeldi og undirbúning fyrir margslungið líf. Gat verið strangur uppeldisfaðir, en skilaði til okkar undirstöðu og lífsgildum sem aldrei fyrnist yfir. Að loknu giftusömu starfi í Samvinnuskólanum gerðist hann fræðslustjóri á Vesturlandi. Í því starfi miðlaði hann af mikilli reynslu í öllu kjördæminu og hafði þar mótandi áhrif.

Snorri tók á móti mér ungum og óreyndum unglingi með litla kunnáttu og lélegan undirbúning. Hann átti ríkastan þátt í að vekja áhuga minn á að læra og skila árangri á prófum. Það gerði hann af nærgætni og vakti sjálfstraust. Síðar á lífsleiðinni mætti hann oft á fundi sem ég boðaði til, fylgdist grannt með nemanda sínum og lét vita ef honum mislíkaði.

Við skólafélagarnir frá 1963-65 stöndum í mikilli þakkarskuld við látinn meistara og biðjum góðan Guð að blessa minningu hans. Aðstandendum færum við einlægar samúðarkveðjur.

Halldór Ásgrímsson.

Sumir menn verða hluti af umhverfi sínu – æskuheimilinu, dalnum, héraðinu. Þar er starfsvettvangurinn og þar liggja áhugamálin og mannlífið. Þegar þeir falla frá verður allt eitthvað fátæklegra. Einn þeirra var minn gamli fræðari við Samvinnuskólann í Bifröst, Snorri Þorsteinsson.

Þegar sú djarfa ákvörðun var tekin að flytja hinn gróna skóla í Reykjavík, Samvinnuskólann, upp í Borgarfjörð haustið 1955, gerðist Snorri ungur kennari við skólann. Hann var nánast jafnaldri fyrstu nemendanna í Bifröst. Frekara langskólanám var lagt á hilluna og þess í stað tekið til hendi við það sem stundum kallaðist Bifrastarævintýrið.

Við sem settumst á skólabekk í Samvinnuskólanum á næstu árum, upplifðum einstakan heimilisbrag og fegurð Norðurárdalsins og eignuðust minningar sem verða kærkomnari með hverju árinu. Samnefnari alls þessa til síns síðasta dags var Snorri á Hvassafelli og afkomandi nafna síns á öðru felli, Húsafelli.

Vagga þeirra nafna var Borgarfjörðurinn og annar þeirra lagði til kryddið í sögurnar og hinn sá um að halda þeim til haga. Um það vitnar Borgfirðingabók, ársrit Sögufélags Borgarfjarðar, sem Snorri Þorsteinsson stýrði af alúð og myndarskap síðustu árin. Þar var héraðssögunni nánast bjargað á hverri síðu og ávallt tilhlökkunarefni að fá nýtt hefti í hendurnar.

Rétt eftir að við Snæfellingarnir, Sigurjón Jónasson frá Neðri-Hóli og ég vorum sestir á bekkinn í Bifröst, þurftu Snorri og Gísli bróðir hans að verða sér úti um smalastráka til að smala heimalandið á Hvassafelli. Þá voru smalahundar ekki orðnir jafn sprækir og nú til dags og við Sigurjón reyndum okkur við brekkur og gil. Kannski yrði frammistaðan metin til prófs. Svo var sest að hlaðborði heima í húsi með foreldrum þeirra bræðra. Á eftir settist Gísli við orgelið og segulbandið og tók fyrir okkur lagið. Svona lifa minningarnar.

Þegar við höfðum hvatt Bifröst tveimur árum síðar, fengum við Sigurjón aftur boð frá þeim bræðrum. Værum við til að fara með þeim um Snæfellsnes sem eins konar leiðsögumenn? Úr varð afar eftirminnilegt ferðalag með litlum svefni og á bakaleiðinni reyndust Mýrarnar ótrúlega langar fyrir Landroverinn og bílstjórana.

Oft hafa leiðirnar legið saman síðan og við gamlir nemendur Snorra fengum að upplifa enn eina eftirminnilega stund í Norðurárdalnum, þegar honum var samfagnað á áttræðisafmælinu. Kennari okkar í ræðumennsku í Bifröst, sannaði þá enn einu sinni að kennarinn þarf að kunna sitt fag.

En nú hefur hinn snjalli mælskumaður yfirgefið ræðustólinn. Einlægar þakkir fyrir allt og allt.

Gísla og öðrum ættingjum votta ég samúð mína.

Reynir

Ingibjartsson.