Guðmundur Andri Skúlason
Guðmundur Andri Skúlason
Eftir Guðmund Andra Skúlason: "Þessi skringilegu orð upplýsingafulltrúans eru auðvitað hrein fjarstæða og sett fram í þeim tilgangi einum að slá ryki í augu viðskiptavina Lýsingar."

Það er mikið fjallað um Lýsingu hf. og hvernig það fyrirtæki túlkar niðurstöður Hæstaréttar með öðrum hætti en önnur fjármálafyrirtæki. Lýsing ber þannig fyrir sig eigin túlkun á dómi sem varðaði bílasamning við allt annað fjármálafyrirtæki og var því allt annars eðlis en samningar sem þeir sömdu.

En það er þeirra val, að túlka dóma og niðurstöður þeirra með þeim hætti sem þeir telja að rúmist innan ramma laganna. Sama val eiga að sjálfsögðu allir þeir sem eru hinum megin borðs í ágreiningnum. Það eru þær þúsundir sem eru í samningssambandi við Lýsingu.

Það er því hálf furðulegt þegar upplýsingafulltrúi Lýsingar, Þór Jónsson, stígur fram og tortryggir þau fyrirtæki sem í gegnum árin hafa staðið með lánþegum og haldið uppi vörnum gegn einhliða túlkun Lýsingar á niðurstöðum í dómsmálum.

Telur upplýsingafulltrúi Lýsingar að starfsemi lögfræðistofa líkt og þeirrar sem undirritaður veitir forstöðu og nú aðstoðar þessar þúsundir lánþega sé aðeins til þess fallin að draga fé af tryggingafélögum og hamla fyrirtæki á borð við Lýsingu að sinna sínu starfi.

Þessi skringilegu orð upplýsingafulltrúans eru auðvitað hrein fjarstæða og sett fram í þeim tilgangi einum að slá ryki í augu viðskiptavina Lýsingar.

Forsvarsmenn Lýsingar hafa sjálfir sagt, að hvert mál sé einstakt og því þurfi að skoða hvert mál sérstaklega. Af einhverjum ástæðum á þetta ekki við um fjármögnunarleigusamninga, þar eru allir eins, enda féll í því undantekningartilviki dómur Lýsingu hf. í vil.

Ef það er hins vegar svo, að hvert mál er einstakt og að í hverju máli telji lánþegar á sér brotið, þá er ekki að undra að málafjöldinn sé verulegur. Það er hins vegar fráleitt að tala um færibandavinnu og get ég fullyrt að á skrifstofu Procura er vandlega farið yfir hvert einasta mál, það metið út frá væntri niðurstöðu og áhættugreint fyrir hvern lánþega.

Því við vitum, að þó Lýsing hf. hafi yfir að ráða lögfræðideildum og fjármagni til að standa í svona slag, þá á það ekki við um gagnaðilana. Þeir þurfa því að velta vandlega fyrir sér hvenær það borgar sig að fara í mál og hvenær ekki. Ég get jafnframt fullyrt að starfsemi Procura er ekki fjármögnuð af tryggingafélögum né er Procura að standa í tilraunastarfsemi í dómsal. Við höfum einfaldlega unnið að þessum málum um árabil og vitum sem er, að eina leiðin til að sækja rétt sinn gagnvart Lýsingu er að leita aðstoðar dómstóla. Ekkert af þeim málum sem undirritaður hefur sett af stað eða komið að með einhverjum hætti fyrir lánþega, hefur hingað til tapast. Líklega er það vegna þess að hér er vandað til verka og réttlætið haft að leiðarljósi.

Þeir sem síðan eru svo forsjálir að vera vel tryggðir, þeir hafa greitt sínar tryggingar svo þær komi að notum í tjónum sem þessum og þannig minnkað áhættu sína ef mál tapast. Vinnist málið hins vegar, þá eru yfirgnæfandi líkur til þess að málskostnaður greiðist af Lýsingu hf. og kannski er það nákvæmlega málið sem upplýsingafulltrúi Lýsingar hf. óttast fyrir hönd vinnuveitanda síns.

Höfundur er framkvæmdastjóri Procura.

Höf.: Guðmund Andra Skúlason