Kristján Gunnlaugur Bergjónsson, trésmiður, f. 3. október 1932, d. 4.7. 2014, sonur hjónana Ásthildar Jónasdóttir frá Gilsbakka, f. 19.10. 1893, d. 1.7. 1970, og Bergjóns Kristjánssonar frá Snóksdal, f. 5.6. 1893, d. 23.12. 1980. Kristján átti eina systur, Jónu Bergjónsdóttur, f. 16.11. 1927, d. 3.6. 2013.

Kristján kvæntist Guðbjörgu Margréti Jónsdóttur 3.9. 1960. Guðbjörg fæddist 25.11. 1929, dóttir Jóns Jóhannesar Jósepssonar, f. 3.6. 1897, d. 23.1. 1997, frá Vörðufelli, og Magnúsínu Steinunnar Böðvarsdóttur, f. 13.4. 1889, d. 7.10. 1977, frá Sámsstöðum í Laxarárdal.

Kristján byggði hús sitt Dalbraut 6 í Búðardal 1966 og bjó þar alla tíð. Kristján og Guðbjörg eignuðust þrjár dætur. 1) Magnína Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 3.9. 1959, viðskiptafræðingur, sambýlismaður Sigurður Ingvason, f. 15.5. 1959. Börn þeirra: a) Eva Björk, f. 1983, maki René Jenke, og eiga þau Breka Örn og Bergjón Paul. b) Ernir Freyr, f. 1993.

2) Ásthildur Kristjánsdóttir, f. 16.12. 1964, stuðningsfulltrúi, maki Jóhann Þór Baldursson, f. 6.3. 1965. Börn þeirra: a) Kristján Rafn, f. 1985, sambýliskona Guðrún Bryndís Jónsdóttir, b) Ruth Kjærnested, f. 1990, sambýlismaður Einar Haukur Björnsson. Barn: Emma Sjöfn. c) Birta Kjærnested, f. 1999.

3) Jónheiður Berglind Kristjánsdóttir bankastarfsmaður, f. 30.6. 1969. sambýlismaður Pétur Ólafur Pétursson, f. 24.2. 1971. Börn þeirra: a) Auður Björg, f. 1994, unnusti Karl Sigurvinsson, b) Alex Snær, f. 2000, c) Petra Lind Welker, f. 2010.

Kristján fæddist í Snóksdal og ólst þar upp. Stundaði nám í farskóla, fór ungur að vinna og stundaði ýmis störf, meðal annars smíðar, sem sjúkrabílstjóri með vinnu í 30 ár, löggæslustörf, húsvörður en aðalstarf hans var smíðar.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Kristján Bergjónsson var einn af þeim mönnum sem ég kynntist fyrst er ég kom til starfa í Búðardal fyrir rúmum hálfum fjórða áratug. Þannig var, að tveir menn höfðu aðallega með höndum að sjá um sjúkraflutninga frá Heilsugæslustöðinni i Búðardal. Kristján var annar þeirra en Baldvin Guðmundsson hinn. Þurfti ég fljótlega á hjálp þeirra að halda eins og gengur. Annar gegndi hverju sinni. Læknirinn var jafnan með.

Mér varð fljótlega ljóst, að Kristján hafði sérstæða skapgerð og bjó yfir mikilli reynslu sem gagnaðist honum vel í þessu ábyrgðarmikla starfi. Hann var ætíð rólegur og yfirvegaður á vettvangi. Það var eftirtektarvert, hve Kristján varð sífellt rólegri og fumlausari eftir því sem alvaran og spennan jókst og hafði þannig jákvæð áhrif á alla í kringum sig og vakti traust aðstandenda hins sjúka eða slasaða.

Ég fékk snemma að kynnast því trausta hraustmenni sem hann var öll sín starfsár í sjúkraflutningunum. Ég þurfti í vitjun út á Fellsströnd síðdegis snemma í nóvembermánuði 1978. Það snjóaði; spáin erfið og ég ákvað að fá flutning. Kristján var á vaktinni og féll það í hans hlut að aka. Þetta var ekki nema liðlega hálftíma akstur á góðum sumardegi og ég gerði ráð fyrir að koma fljótlega heim. Ófærðin byrjaði strax inni við Ljárskóga og þurfti að fara út að moka. Eftir það taldi ég 26 skafla sem moka þurfti þar til komið var í áfangastað. Á bakaleið vorum við á Skerðingsstöðum í Hvammssveit um miðnætti og fékk ég þurr föt, því ekki var á mér þurr þráður. Þurfti áfram að fara reglulega af bílnum og moka undan honum. Þegar við sátum alveg kolfastir undir morgun í síðasta skaflinum við Ljárskóga, var orðið stjörnubjart í logni og hart frost. Ljósin í Búðardal sáust vel. Þetta virtist snertispölur. Ég stakk upp á að við gengjum af bílnum og í Búðardal. „Það gerir þú ekki,“ sagði þá Kristján ákveðinn. „Þá drepurðu þig.“ Þarna kynntist ég fyrst umhyggju hans.

Eitt sinn vorum við á leið í vitjun á Reykhóla en fastir á fjörunum vestan megin í Gilsfirði. Það var blindbylur en við vorum vel búnir og þurrir og ákváðum að ganga út í Gilsfjarðarmúla. Þegar kom af fjörunum upp í múlann, þá herti norðanbálið og átti ég fullt í fangi með að halda mig á veginum. Undan vindinum var hlíðin sæbrött. Þá fann ég að tekið var utan um mig og Kristján setti mig upp fyrir sig og sagði: „Þú skalt vera ofan við mig. Ég verð fyrir neðan.“

Konan mín segir, að í aðdraganda þess að við fluttum suður hafi hún hitt Kristján á kveðjusamkomu sem okkur var haldin í Búðardal. Gaf hann sig á tal við hana og fann því allt til foráttu að við flyttum suður; það væri bara eftirsókn eftir vindi. Hún sagðist hafa reynt að skýra fyrir honum að Sigurbjörn gæti ekki elst í þessu starfi við vaktir og erfiðar aðstæður. Þá svaraði Kristján með tár á hvarmi: „Ég skal bera hann.“

Traustur og þrekmikill samstarfsmaður er fallinn og hans er saknað. Við Elín Ásta sendum Guðbjörgu og afkomendum þeirra Kristjáns okkar hjartanlegustu samúðarkveðjur.

Sigurbjörn Sveinsson

Látinn er vinur minn og samstarfsfélagi Kristján (Diddi). Við byrjuðum að vinna saman 1963 þannig að það er orðið æði langt sem kynni okkar hafa staðið, vinna hjá Benna á Saurum sem við unnum hjá við Dalabúð, Laugum og víðar.

Eitt er það sem vakti hjá mér skelfingu um að stórslys hefði orðið eða þaðan af verra, við Diddi vorum á vinnupalli í Dalabúð að höggva víra af bitum sem voru fyrir ofan loftið sem danssalurinn er í dag. Stigi með uppgöngu um op á pallinum og vorum við staddir á pallinum og Diddi var að höggva mótavíra af með múrexi en gætti ekki að sér og hrapaði niður um opið í gegnum stigann og út í glugga sem plast var í og snýst þá þannig að hann lendir á bakinu á steingólfinu. Niðri voru tveir menn, annar sagði „hrinti Baddi þér“ við Didda en hinn sagði „hvaðan kom hann“. Diddi stóð upp smá marinn en jaxlinn hélt áfram að vinna, gerðum oft grín að viðbrögðum þessara manna.

Svo er mér minnisstætt er við vorum í sveinsprófi í Stykkishólmi, kom í hlut minn að smíða m.a. geirneglingu, þá man ég að við mig sagði piltur: „Þú verður að passa þig að höggva ekki úr vitlausa tappa,“ þá sagði Diddi: „Það er engin hætta á því, hann hefur aldrei gert þetta áður.“ Gleymi aldrei svipnum á drengnum.

Svo er það sjúkrabíllinn sem við unnum við um 30 ár saman en það var að tilstuðlan Didda að ég byrjaði í því, en fyrst var það lögreglubíllinn en í ársbyrjun 1979 kom fyrsti sjúkrabílinn og var það stórkostlegt að fá fullbúinn sjúkrabíl og öryggi sjúklinga ekki sambærilegt. Skiptum við fyrst vöktum þannig að þær voru einn mánuð í senn en var síðan breytt í hálfan mánuð. Oft voru vaktir langar og oft einir með sjúkling og ekið allt að 600-700 km á sólarhring og mætt í okkar föstu vinnu þó komið væri undir morgun en svona var þetta, reyna að láta þessa aukavinnu okkar hafa sem minnst áhrif á okkar föstu vinnu. En í dag þætti þetta ekki boðlegt, sem betur fer er öryggi sett í forgang í dag. Er litið er yfir farinn veg þá vorum það við Diddi sem komum á föstu skipulagi á sjúkraflutninga á svæði Heilsugæslustöðvarinnar í Búðardal og við skiluðum af okkur þessum málum í því góða ástandi sem sjúkraflutningar eru í dag.

Við Diddi stofnuðum ásamt tveimur öðrum Trésmiðjuna Megin ehf. og áttum og rákum í tæp 10 ár en seldum þá trésmiðjuna því heilsa okkar fór versnandi.

Á heimili þeirra Biggu og Didda var ég í fæði hjá þeim í mörg ár, það má segja að það hafi verið mitt annað heimili á tímabili og fyrir það ber að þakka alveg sérstaklega og Didda fyrir alla þolinmæðina að hafa mig með sér í leik og starfi og ég hef örugglega reynt á þolinmæði hans en einhvernveginn hefur þetta gengið þessi 50 ár. En mín síðasta heimsókn var að Dalsmynni núna í vetur og þá fylgdi hann mér út á hlað og það er sú minning sem ég vil eiga um hann Didda.

Takk fyrir samfylgdina, Diddi, við áttum margar stundir sem í minningunni geymast.

Elsku Bigga, Ína, Ásta og Nonna, innilegar samúðarkveðjur.

Fallinn er frá sá sem lokið hefur dagsverki sínu.

Baldvin Guðmundsson

og fjölskylda.