Á flugi Reglur þykir skorta varðandi flug smárra flygilda. Samgöngustofa vinnur nú að smíði nýrra laga sem eru til þess gerð að fylla tómarúmið.
Á flugi Reglur þykir skorta varðandi flug smárra flygilda. Samgöngustofa vinnur nú að smíði nýrra laga sem eru til þess gerð að fylla tómarúmið. — Ljósmynd/Guðbrandur Örn Arnarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Skúli Halldórsson sh@mbl.is Sífellt oftar getur að líta flygildi af ýmsu tagi á flugi yfir holt og hæðir jafnt sem götur og torg.

Sviðsljós

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Sífellt oftar getur að líta flygildi af ýmsu tagi á flugi yfir holt og hæðir jafnt sem götur og torg. Hafa ýmsir aðilar lýst yfir óánægju með aukna umferð flygildanna, og sýnist sumum sem för þessara ómönnuðu loftfara ætti að vera takmörkuð.

Um ómönnuð loftför munu almennt gilda sömu reglur og um mönnuð loftför, til dæmis lög um loftferðir og reglugerð um flugreglur. Í sértækum reglum fyrir flugvélalíkön, sem talin eru ná til ómannaðra loftfara, segir að ekki þurfi leyfi fyrir flugi þeirra líkana sem vega minna en sem nemur fimm kílóum. Þá er þess einnig getið að bannað sé að fljúga flugvélalíkönum innan 1,5 kílómetra frá svæðamörkum flugvalla.

Víða glímt við sama vanda

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu berast stofunni nú í auknum mæli fyrirspurnir um flug ómannaðra loftfara. Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að sérákvæði skorti um þau flygildi sem eru léttari en fimm kílógrömm.

„Það er orðið býsna aðkallandi að smíða sértækara regluverk utan um notkun þessara litlu flygilda, þar sem nú ríkir í rauninni svolítið lagalegt tómarúm,“ segir Þórhildur.

„Flugmálayfirvöld í nágrannalöndunum hafa verið að glíma við sama vanda en það hefur ekki enn verið fullmótuð stefna í þessum málum. Leitast verður við að smíða lagaákvæði í samræmi við alþjóðlegar reglur,“ segir Þórhildur og bætir við að stofan vinni nú að söfnun gagna víðs vegar að, sem höfð verði til hliðsjónar við gerð laganna.

„Þetta er forgangsmál hjá okkur og við vonumst til að reglurnar verði smíðaðar á þessu ári. Samgöngustofa mun vinna að tillögum að reglugerð í samvinnu við innanríkisráðuneytið.“

Ekki ennþá orðið vandamál

Að sögn Hjördísar Stefánsdóttur, forstjóra Persónuverndar, hefur Persónuvernd ekki þurft að svara fyrirspurnum um flygildi. „Engar kvartanir hafa borist Persónuvernd og hér á landi er þetta ekki enn orðið að vandamáli. Því er engin mótuð stefna sem lýtur að þessu.“

Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir engar kvartanir vegna flygilda hafa borist embættinu. „Ekki ennþá,“ segir Hörður.

Þegar bruninn átti sér stað í Skeifunni fyrr í júlí varð vart við nokkur flygildi sveimandi yfir vettvangnum. Aðspurður hvort flygildi almennings og fjölmiðla hafi verið lögreglunni til trafala svarar Hörður neitandi.

„Þvert á móti, við nutum góðs af því að þarna voru menn með flygildi og myndavélar og við gátum nýtt okkur það,“ segir Hörður, og bætir við að innan raða lögreglunnar sé rætt um að fjárfesta í flygildum.

Nýtast við störf lögreglu

„Ég geri ráð fyrir því að við munum fá okkur flygildi, fyrr en síðar. Þetta er á dagskránni en vonandi verður það í bráð ef fjárráð leyfa. Notkun þeirra er þekkt í Evrópu þar sem þau eru notuð til að taka vettvangsmyndir. Þetta er ágætis tæki og gæti komið okkur að gagni þegar mynda þarf aðstæður við slys.“

Hann segir að þó þurfi að huga að ýmsu í sambandi við aukna notkun flygilda. „Það má ímynda sér að hægt sé nota þessi tæki á fjölmarga vegu, og þá í misgóðum tilgangi.“