Draumabyrjun Atli Jóhannsson og Ólafur Karl Finsen höfðu ríka ástæðu til að fagna gegn Motherwell á fimmtudag, en Stjarnan tekur í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppni í ár.
Draumabyrjun Atli Jóhannsson og Ólafur Karl Finsen höfðu ríka ástæðu til að fagna gegn Motherwell á fimmtudag, en Stjarnan tekur í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppni í ár. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Það er mikið álag á Stjörnunni og FH þessa daga og vikur. Eftir að hafa komist áfram úr 2.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Það er mikið álag á Stjörnunni og FH þessa daga og vikur. Eftir að hafa komist áfram úr 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudag spiluðu þau í deildinni hér á sunnudag og leika í þriðju umferð í kvöld.

FH-ingar fengu lítinn tíma til að jafna sig eftir sigurinn á Fylki, en liðið fór í byrjun vikunnar til Svíþjóðar þar sem Elfsborg bíður í kvöld, en Stjarnan fær fyrri leik sinn gegn Lech Poznan á heimavelli sínum í Garðabæ. Síðari leikirnir fara svo fram eftir viku og liðið sem kemst áfram fer í 4. umferðina þar sem sjálf riðlakeppnin er í húfi.

Pólverjarnir lögðu Man City

Stjarnan er að taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn og hefur vægast sagt byrjað vel, er taplaust í fyrstu fjórum leikjum sínum og hefur þar af unnið þrjá þeirra. Það þarf vart að taka fram að þetta er langbesta frumraun íslensks liðs í Evrópukeppni, en nú bíður pólska liðið Lech Posnan sem sex sinnum hefur orðið pólskur meistari, síðast fyrir fjórum árum. Í kjölfarið jafnaði liðið sinn besta árangur á alþjóðlegum vettvangi veturinn 2010/2011 þegar liðið keppti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, vann meðal annars Manchester City 3:1 á heimavelli og komst í sextán liða úrslit. Síðustu tvö ár hefur liðið hins vegar verið slegið út á þessum tímapunkti í keppninni, en vonandi fyrir Stjörnuna er ekki allt þegar þrennt er fyrir Pólverjana í þetta sinn. Tímabilið heima fyrir er nýhafið, liðið situr í þriðja sætinu eftir tvo leiki og spilaði einnig á sunnudag eins og Stjarnan en gerði þá jafntefli við Górnik Zabrze. Þeirra reyndasti maður er Luis Henríquez, landsliðsmaður Panama, en hann er að glíma við meiðsli og óvíst er hvort hann taki þátt.

Það eru skörð í liði Stjörnunnar. Veigar Páll Gunnarsson meiddist gegn Motherwell og getur ekki tekið þátt í leiknum og hið sama gildir um félaga hans í framlínunni, Garðar Jóhannsson, sem er að stíga upp úr meiðslum. En Jóhann Laxdal má spila eftir að hafa snúið aftur í Garðabæinn og áhrif Ólafs Karls Finsen eru ótvíræð, en eftir fimm mörk frá honum í Evrópuleikjunum fjórum hafa einungis fjórir leikmenn skorað fleiri Evrópumörk fyrir íslensk lið frá upphafi.

FH-ingar spila á gervigrasi

FH-ingar settu nýtt met með sigrinum á Neman Grondo á fimmtudag í 2. umferðinni, en þetta var 16. sigurleikur FH á þessum vettvangi og Hafnfirðingar fóru þar með framúr Skagamönnum sem hafa unnið 15 Evrópuleiki. Liðið er mætt til Svíþjóðar þar sem mótherjinn er Elfsborg, en Svíarnir komust áfram eftir vítaspyrnukeppni gegn Inter Bakú frá Aserbaídsjan. Hafnfirðingar voru því nálægt ansi löngu ferðalagi.

Eins og FH þá spilaði Elfsborg á sunnudag og lagði þá Norrköping, 3:0. Liðið er í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar nú þegar deildin er rúmlega hálfnuð, níu stigum frá toppnum. Elfsborg hefur oft dottið út á þessum stað í keppninni undanfarin ár, nú síðast fyrir tveimur árum gegn danska liðinu Horsens. Með liðinu leikur varnarmaðurinn Skúli Jón Friðgeirsson, en hann kom frá KR fyrir tveimur árum. Hann er hins vegar í láni hjá Gefla í sænsku 1. deildinni.

Það er spurning hvernig FH-ingar mæta til leiks, en leikið er á heimavelli Elfsborg, Borås Arena, og spilað á gervigrasi. Liðið getur þar að auki teflt fram nokkuð breyttu sóknarliði þar sem Kristján Gauti Emilsson er farinn til Hollands en þeir Steven Lennon og Indriði Áki Þorláksson komnir í staðinn. Kassim Doumbia er í banni hér heima en getur leikið í Evrópukeppni og ætti að vera fullur orku.

Sigurliðin úr þessum tveimur viðureignunum fara í 4. umferðina þar sem sjálf riðlakeppnin er í húfi, en FH-ingar komust svo langt í fyrra áður en Genk hafði af þeim riðlakeppnina.