Lundar á verði.
Lundar á verði.
Sú ákvörðun bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum að leyfa lundaveiðar í fimm daga, frá 7. til 12. ágúst, er umdeild. Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, hefur rannsakað stofnstærð lunda á Íslandi.

Sú ákvörðun bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum að leyfa lundaveiðar í fimm daga, frá 7. til 12. ágúst, er umdeild. Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, hefur rannsakað stofnstærð lunda á Íslandi. „Það eru jafnlitlar forsendur til veiðannna og í fyrra,“ segir Erpur.

Í fyrra veiddust um 300 fuglar í Vestmannaeyjum en í eðlilegu árferði veiðast um 120 þúsund fuglar. Erpur telur því veiðina ekki hafa áhrif á stofnstærðina. „Þeir veiðimenn sem ég hef heyrt í ætla ekki einu sinni að lyfta háfi,“ segir Erpur. Hann áttar sig ekki á því hvers vegna bæjarstjórnin velji að fara þessa leið í stað þess að banna veiðina í ár. „Ég skil ekki alveg ávinninginn. Ég held að menn hefðu frekar átt að halda að sér höndum og fá virðinguna fyrir að sýna ráðdeild,“ segir Erpur, sem telur að fámennur þrýstihópur Vestmannaeyinga sé ástæða þess að leyfið var veitt. „Annars er fuglinn eiginlega sjálffriðaður því fullorðnir fuglar veiðast illa en ungfyglin eru eiginlega ekki í boði þar sem þau hafa ekki komist á legg í 12 ár og eru ekki til. Í eðlilegu árferði eru 70% af stofninum ungfygli. Það er aðallega sá fugl sem er hringsólandi í kringum vörpin. Fullorðni fuglinn liggur hins vegar á eggjunum eða er úti á sjó til veiða,“ segir Erpur.

Veitt á fleiri varpstöðum

Spurður hvort hann eða aðrir sérfræðingar hafi komið áliti sínu á framfæri við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, segir Erpur það ekki hafa verið gert nú. „Við höfum gert það með skýrslum og fréttatilkynningum í gegnum árin. Framan af sendum við bæjarstjórninni bréf en undanfarin ár höfum við ekki séð ástæðu til þess þar sem ástandið á stofninum hefur ekkert breyst og það vita allir sem vilja vita.“

Veitt verður á fleiri varpstöðum í sumar. Meðal annars á norðursvæði sem nær frá Vigur að Hafnarhólma. „Þar vilja menn ekki hætta veiðum því þeir telja stofninn sterkan og vilja ekki horfast í augu við að einn stofn sé hér við land. Það er fyrst og fremst sérhagsmunagæsla sem stendur þar að baki fremur en að um líffræðilega nálgun sé að ræða,“ segir Erpur.

vidar@mbl.is