Leitandinn Ber er hver leðurskvísa að baki nema sér síðhærðan öldung eigi!
Leitandinn Ber er hver leðurskvísa að baki nema sér síðhærðan öldung eigi!
Ég sakna Leitandans. Hann er horfinn. Leitandinn (Legend of the Seeker) gekk um langt árabil í Ríkissjónvarpinu en hefur ekki látið sjá sig um hríð.

Ég sakna Leitandans. Hann er horfinn. Leitandinn (Legend of the Seeker) gekk um langt árabil í Ríkissjónvarpinu en hefur ekki látið sjá sig um hríð. Best að taka strax fram að ég hef aldrei horft á heilan þátt af Leitandanum (þannig að ég er ekki dómbær á gæði hans) en náði stundum nokkrum mínútum meðan ég beið eftir 10-fréttunum á mánudagskvöldum. Þær vöktu forvitni mína og undrun.

Af einhverjum ástæðum fannst mér alltaf sama atriðið vera í gangi. Hópur manna var samankominn í þokukenndum skógi og ræddist ýmist við á misjafnlega málefnalegum nótum eða skylmdist. Í forgrunni voru gjarnan leðurklæddar og stífmálaðar skvísur og síðhærðir öldungar. Á hvaða tímum á þátturinn að gerast?

Stundum spruttu menn í kuflum eða serkjum fullskapaðir upp úr jörðinni og stundum hurfu persónur sporlaust og birtust jafnvel á allt öðrum stöðum – mögulega í allt öðrum veruleika. Einhverjir sáluðust, jafnvel aftur og aftur. Að lokum féll allt í ljúfa löð og persónur slógu á létta strengi. Skvísurnar brostu sínu blíðasta.

Hvað er eiginlega á seyði í Efstaleitinu? Hafa menn eitthvað á móti síðhærðum öldungum, leðurdressuðum skvísum og skylmingum?

Orri Páll Ormarsson