Tónleikar Góð stemning myndast jafnan á Akureyri á Einni með öllu.
Tónleikar Góð stemning myndast jafnan á Akureyri á Einni með öllu. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is Varla þarf að kynna hátíðina „Eina með öllu“ sem haldin verður á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Páll Fannar Einarsson

pfe@mbl.is

Varla þarf að kynna hátíðina „Eina með öllu“ sem haldin verður á Akureyri um verslunarmannahelgina. Þessi hátíð var fyrst haldin á Melgerðismelum í Eyjafirði árið 1978 en hefur mörg undanfarin ár farið fram á Akureyri.

„Þetta er fjölskylduvæn bæjarhátíð fyrir alla og við verðum með þétta dagskrá frá morgni til kvölds fyrir bæði krakka og fullorðna. Á næturnar mun akureyrska næturlífið svo taka við keflinu,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, viðburðastjóri Einnar með öllu.

Dagskráin hefst í dag með útitónleikum í Skátagilinu klukkan 20:30. Í kvöld verður einnig dagskrá á veitingahúsunum Græna hattinum, Kaffi Akureyri og Café Amour.

Tónleikar í Akureyrarkirkju

Dagskráin á morgun hefst klukkan 13 í miðbæ Akureyrar. Á Glerártorgi verður boðið upp á eina með öllu og kók í bauk fyrir gesti og gangandi, ásamt Dynheimastemningu og fjölskyldujóga. Á milli klukkan 14 og 18 verður skemmtileg stemning fyrir alla fjölskylduna á tjaldsvæðinu Hömrum og á sama tíma mun leikhópurinn Lotta hita upp fyrir kirkjutröppuhlaupið, sem er fastur liður á hátíðinni.

Það er orðin föst hefð á Einni með öllu að halda óskalagatónleika en þar munu Eyþór Ingi Jónsson organisti og stórsöngvarinn Óskar Pétursson skemmta gestum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 og eru haldnir í Akureyrarkirkju.

Eftir tónleikana tekur við kvölddagskrá og eftir miðnætti mun hið akureyrska næturlíf standa undir nafni eins og segir í tilkynningu.

Dagurinn er tekinn snemma á laugardeginum með vatnasafaríi á Hömrum klukkan 10:30 og sirkus neðan við Samkomuhúsið klukkan 11. Frá 14-16 verður dagskrárliðurinn Mömmur og muffins í Lystigarðinum á Akureyri en þar selja konur kökur og rennur söluverðið til góðgerðarmála.

Klukkan 16 verður fimleikasýning við Sundlaug Akureyrar ásamt Íslandsmeistaramóti í götuspyrnu hjá Bílaklúbbi Akureyrar. Um kvöldið verður hátíðardagskrá á Ráðhústorginu og litbolti og tívolí verða opin frá klukkan 13-23.

Eftir kvölddagskrá verður svonefnt Dynheimaball og Páll Óskar verður í Sjallanum svo eitthvað sé nefnt.

Skipulagðri dagskrá lýkur á sunnudeginum en þá verða hoppkastalar, söngvakeppni og margt fleira í boði.