Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "Nú komst ég í hóp 30 manna sem slógu í púkk 300 kr. hver, fórum niður í Útvegsbanka og völdum okkur skip á leigu fyrir vátryggingu 50 kr. á dag + kol..."

Eftir andlát föður míns fékk ég handskrifað bréf frá Jenny fjármálastjóra Plastos, sem skrifaði:

„Siggi.

Þetta skrifaði pabbi þinn í sept '93, um efnahagslífið sl. 60 ár. Hann vildi að ég færi yfir þetta og vélritaði. (Ég held hann hafi ætlað að senda það í Moggann eða Dagblaðið). Úr því varð aldrei, en þú hefur ábyggilega gaman að lesa þetta.“

Bréfið hefur öðru hvoru skotið upp kollinum sl. 20 ár. Nú seinast þegar við fluttum úr Grafarholti í Fossvog. Það lýsir ástandinu í heimskreppunni, sem pabbi kallaði alltaf krakkið. Kreppuna fyrir þjóðarsátt sagði hann ekkert miðað við krakkið. Það lýsir líka sjálfsbjargarviðleitni við útskrift frá Versló, þegar enga vinnu var að fá aðra en kaupamennsku í sveit á mikið lægri launum en á togara í sumarfríum frá skóla árin á undan.

Ég hefi oft velt fyrir mér, hvort ég ætti að senda bréfið til birtingar og geri það nú árið sem Oddur hefði orðið 100 ára. Bréfið fer orðrétt hér á eftir.

„Vísbending 23.8.93,

Staksteinar 31.8.93.

Við lestur þessara pistla um kreppur á öldinni finnst mér vanta ýmislegt, sem hefði mátt gera betri skil. Ég kann lítið að tjá mig um hagtölur og hagvöxt, en mér finnst að þeir sem um þetta skrifa og hafa menntun til ættu að rýna betur í skrif frá þessum tíma og tala við fólk, sem man þessa tíma í staðinn fyrir að birta línurit, sem 80% landsmanna skilja ekki og kunna ekki að lesa úr.

Ég er fæddur 1914 og man ekki um kreppuna 1916-1920, þó man ég frostaveturinn mikla 1918 og spönskuveikina. Ég kom á vinnumarkað 1930 og man glæsilega þjóðhátíð. Kreppan kom strax á eftir. Þann 9. nóvember 1932 fylgdist ég með Gúttó-slagnum og ef ég man rétt þá kom atvinnubótavinna, sem gekk undir nöfnunum ýmist Síberíuvinnan eða Abessinuvinnan nema hvortveggja sé. Vinnumiðlunarskrifstofa var í Alþingishúsinu. Þangað komu menn vikulega að láta stimpla sín kort. Vikan gaf 75 kr., ef menn áttu fleiri en tvö börn þá fengu þeir tvær vikur. Ég horfði á menn brotna niður á þessari skrifstofu og lögregla varð að flytja þá burt. Svona var ástandið allt þar til blessað stríðið kom. 1/3-1/4 hluti Reykjavíkurbúa þáði af sveit að einhverju eða öllu leyti. Tveir fátækrafulltrúar voru. Annar var Samúel Ólafsson söðlasmiður, nafn hins man ég ekki, en þessir menn skrifuðu uppá reikninga á bæjarfélagið. Allt niður í 5 kr. fyrir skósólningu.

Ég kom úr verslunarskóla 1932 og var orðinn leiður á að fara í sveit, sem kaupamaður fyrir 15-20 kr. á viku. Ég hafði verið á togara þrjár vertíðir eftir lok skóla svo ég kunni svoldið til verka. Togaraflotinn lá á Viðeyjarsundi eiginlega allur flotinn nema Kveldúlfstogarar, Alliance, Blöndalsskipin Karlsefni og Geir. Nú komst ég í hóp 30 manna, sem slógu í púkk, 300 kr. hver, fórum niður í Útvegsbanka og völdum okkur skip á leigu fyrir vátryggingu 50 kr. á dag + kol sem í skipinu voru. Kolin og mánaðarleiga greidd fyrirfram. Tókum skip, sem hét Þorgeir Skorrageir, settum upp síldardekk, tókum nót og nótabáta, sem skipið átti og héldum norður. Eftir mánuð stóðum við á núlli og héldum áfram í ½ mánuð þá var hluturinn komin upp í 350 + framlag = 650 kr. Útgerð hafði verið frá Viðey og þar voru hin skipin á legunni. Þarna var blómleg byggð. Síðar voru húsin rifin og sett upp í Skerjafirði. Síðar voru þessi hús ásamt fleirum rifin og ekki sett upp aftur, því nú var hafin gerð flugvallar og allir höfðu nóg að gera.

Árið 1987 á nemendamóti VÍ flutti ég skólanum kveðjur frá nemendum útskr. 1932 = 55 ára. Þá sagði ég að gefnu tilefni. Ég vona að árin 1932-1938 komi aldrei aftur. Árið 1992 sagði ég við sama tækifæri. Nú er komin kreppa, en það er ekki heimskreppan frá 1932. Hún var „made in USA“. Þessi er „made in Iceland“. Þetta var í lok apríl, en merkilegt nokk. Stjórnarskipti voru um þetta leyti. Síðan hefur allt farið úr böndunum. Menn hafa ekkert lært. Það eru notaðar sömu aðferðir og 1930, bara pínulítið öðruvísi. 1930 voru sett innflutningshöft, sem entust í mismunandi útgáfum og nöfnum til 1960. Stóru fyrirtækin sögðu upp fólki og héldu útsölur á gömlum lagerum og skrimtu á þessum innflutningsleyfum sem mjatlað var út ársfjórðungslega. Nú er ekki braskað með innflutningsleyfi. Nú er það fiskurinn í sjónum, sem ekki er búið að veiða. Það er búið að hagræða svo mikið í landi að helmingur af frystihúsum er gjaldþrota og fiskvinnsla komin um borð í öll skip. Það er búið að fara svoleiðis með fyrirtækin á gengisfellingum að jafnvel SÍS er ekki lengur til.

Sem sé menn hafa ekkert lært á 60 árum. Það er alltaf verið að tala um hagræðingu. Slengja fyrirtækjum saman og ef það er ekki samþykkt þá þjarma að þeim þangað til þau gefast upp. Bankarnir og sjóðirnir fá alltaf sitt. Þeir sem eftir eru fá töpin og ekki nóg með það þeir verða líka að greiða töp bankanna með hærri vöxtum, af því að þar er ekki sparað.

Ríkisstjórnin talar um að skera niður og spara, en útgjöldin hækka ár frá ári. Meira að segja að sá sem var skattmann í síðustu stjórn er nú hvítþveginn með geislabaug.

Reykjalundi 10/9 93.

Oddur Sigurðsson.“

Vona að einhverjir hafi haft gaman af að lesa þetta og læt þeim eftir að meta hvort eitthvað hafi breyst síðan greinin var skrifuð fyrir 20 árum.

Höfundur er verkfræðingur.