Valur Erling Ásmundsson fæddist 28. október 1932. Hann lést 14. júlí 2014. Hann var jarðsunginn 22. júlí 2014.

Faðir minn er látinn og sárt að þurfa að kveðja. Hann er faðir sem skilur eftir minningar um stórkostlega æsku mína, fulla af ævintýrum og gæsku.

Hann kenndi mér svo mikið um snyrtimennsku, hvort sem það var í klæðaburði, að bursta skó eða þrífa bíl – og þó erfitt sé reyni ég enn að feta í fótspor hans þar.

Hann kenndi mér þó ekki einungis það, heldur svo margt um manngæsku, réttlæti, fallegt innræti og húmor.

Skrifstofan hans pabba í kjallaranum á Ölduslóðinni var sannkallaður ævintýraheimur barna er þangað komu. Þar úði og grúði af allskyns hlutum sem hann hafði safnað að sér, sannkölluð skipulögð óreiða. Oftar en ekki spurði einhver krakkinn um eitt eða annað og sagði pabbi þá „augnablik“ og skimaði í eða á bakvið einhverja „hrúguna“ og dró það fram með bros á vör – það var eins og galdrar, að hann vissi nákvæmlega hvar hlutirnir voru í þessum mikla skógi – og oft fylgdu skemmtilegar sögur með þessum hlutum.

Í kjallaranum, fyrir utan allsérstaka skrifstofu pabba, var oft skapaður annarskonar heimur út af fyrir sig, sem hann bjó til með krökkunum, m.a. með kvikmyndasýningum og oftar en ekki voru þar smíðaðir ævintýrakastalar og leikföng og þar var teiknað og ýmsir hlutir límdir og settir saman – skrýtnir og spennandi hlutir skoðaðir og skapaðir.

Pabbi var einstakur húmoristi og hafði mikla sköpunargleði sem stundum glatast er fólk fullorðnast – en hann glataði aldrei barninu í sér enda var hann alltaf sérstaklega vinsæll af börnunum – og eru þau ófá sem muna hann sem „þarna skemmtilega karlinn“.

Valur hafði mikið dálæti á ferðalögum og eru margar góðar minningar okkar barnanna bæði í bílunum á leiðinni og í tjaldinu eða tjaldvagninum á áfangastað, oft við vötn þar sem köst og fiskihnútar voru kenndir, stundum róið út á vötn og sagðar sögur til að stytta biðina eftir að bitið yrði á.

Það var ævintýri að ferðast með pabba enda var hann frábær ferðafélagi – hvort sem ferðast var innan heimilis eða að heiman.

Hann hafði mikil áhrif á þá lífsleið sem ég valdi mér. Hann og móðir mín fóru á margar myndlistarsýningar og tóku þau mig ungan son sinn oft með og má vel vera að þar hafi kviknað áhugi minn á þeirri grein. Enda voru þessar ferðir eftirminnilegar þar sem pabbi gat sagt svo margar sögur um bæði verk og listamenn, mörgum af þeim hafði hann kynnst sjálfur vel á lífsleiðinni og í Bókabúð Ísafoldar þar sem hann eitt sinn vann. Pabbi var alltaf hvetjandi þegar sköpun var annars vegar og gerði veginn þannig greiðfæran fyrir mig að fara, enda þótt hann hafi ekki farið þann atvinnuveg sjálfur var áhugi og sköpunarkraftur hans aldrei langt undan í svo mörgum af hans gjörðum. Og svo þegar ég fór sjálfur að sýna myndlist, vantaði sjaldan föður og móður á þær sýningar.

Pabbi var ekki einungis hrifinn af einni listgrein og það var ósjaldan sem góður djass ómaði nálægt Vali Ásmundssyni og má kannski segja að lífið hans hafi verið líkt og allir tilfinningaskalar djassins.

Elsku faðir minn, þú ert stórt safn minninga. Hvíl í friði.

mbl.is/minningar

Erling Þór Valsson

Klingenberg.

Ég hef búið mörg ár í Noregi en á samt margar góðar minningar um hann Val afa. Frá löngum sumarfríum á Íslandi þegar afi og amma bjuggu á Ölduslóð og Álfaskeiðinu og einnig þegar þau komu í heimsóknir til okkar í Bergen.

Reglulega komu sendingar frá afa með allskonar litlum pökkum og úrklippum úr blöðum, yfirstrikað með gulum penna það sem honum fannst mikilvægast úr textanum. Fyrst barnasíður úr Mogganum og síðar tískusíðurnar.

Afi hugsaði vel um okkur. Til dæmis kíkti hann allaf inn þegar við horfðum á sjónvarp og spurði hvort hann ætti ekki að draga fyrir gardínurnar eða slökkva ljósið. Þegar við vorum að lesa spurði hann hvort við höfðum nægt ljós. Hann var alltaf góður og gerði mikið til að skemmta okkur með sögum, bíltúrum, dótasafni eða gervitönnum.

Annar fyrirmyndar eiginleiki afa var hvað hann var góður safnari. Hann sýndi okkur hvernig ætti að skipuleggja safn og passa upp á hlutina til að þeir entust lengur.

Það má nefna að afi gaf gamla skólanum sínum Verzlunarskóla Íslands veglegt safn fornra reiknivéla og ritvéla.

Það gerði mig stolta hvað afi var alltaf snyrtilegur og flott klæddur. Ávallt voru fallegu skórnir nýburstaðir og í stíl við fötin. Ég gleymi ekki eitt sumarið þegar afi og amma komu til Bergen og afi fór í hvít jakkaföt og með hatt niður í miðbæ. Ömmu fannst þetta einum of mikið en við krakkarnir vorum ánægð með stílinn.

Elsku afi minn, ég sakna þín.

Sigrún Ólöf.