Útsýni Horft af Nöfunum yfir elsta hluta Sauðárkróksbæjar. Norðar eru elstu hús bæjarins, mörg byggð fyrir 1800.
Útsýni Horft af Nöfunum yfir elsta hluta Sauðárkróksbæjar. Norðar eru elstu hús bæjarins, mörg byggð fyrir 1800.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Kirkjutorgið í hjarta bæjarins er upphafspunktur,“ segir Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Sauðárkróki.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Kirkjutorgið í hjarta bæjarins er upphafspunktur,“ segir Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Sauðárkróki. Hún hefur nú í sumar staðið fyrir skemmtilegum sögugöngum um göturnar á Króknum, þar sem blandað er saman útiveru og fróðleik. Hringurinn er um 6 km og er tekinn á um hálfri annarri klukkustund. Saman standa þær Kristín og Sigrún Fossberg, sem starfar hjá Minjahúsinu á Sauðárkróki, að þessum ferðum.

Frá kirkjunni upp á Nafir

Hugmynd þessi kom frá Kristínu sem vildi nýta sér þá þekkingu sem hún hafði aflað sér sem svæðisleiðsögumaður á Norðurland vestra og Vestfjörðum. Samkvæmt góðra manna ráðum setti hún á dagskrá ferðir sem eru á dagskrá alla daga í sumar kl. 20:30. Til viðbótar eru ferðir á morgun, föstudag, og á laugardag kl. 13:00, en nú er Ungmennalandsmót UMFÍ haldið á Króknum og því verða væntanlega margir í bænum.

„Sauðárkrókskirkja er ágætt kennileiti og auðvelt að finna leiðsögumanninn áður en lagt er af stað,“ segir Kristín Sigurrós kímin á svip. „Héðan þræðum við stígana um bæinn; elstu hús hans eru norðan við kirkjuna og síðan hefur byggðin teygt sig til suðurs og upp í hlíðarnar. Svo göngum við upp á Nafir þaðan sem sést vel yfir. Þegar svo er komið hingað aftur niður í bæ verður frásögnin eitthvað nær nútímanum – í rúmi og tíma – uns aftur er komið að kirkjunni sem er byggð árið 1892 og er því eitt elsta hús bæjarins. Reyndar spilum við þetta svolítið eftir eyranu og Sigrún fer ekki alveg sama hring og ég – en það gerir ferðirnar bara fjölbreyttar og skemmtilegri en ella væri.“

Kristín er Borgfirðingur að ættum en kom ung norður í Fljótin sem unglingur og festi þar rætur. Var tvö ár í framhaldsskóla á Sauðákróki. Bjó seinna í nokkur ár á Hólmavík og var þar meðal annars fréttaritari Morgunblaðsins. Hún er hún aftur komin á Krókinn og er blaðamaður á Feyki, héraðsblaði Norðurlands vestra.

Held ótrauð áfram

„Fyrir utan að hafa numið svæðisleiðsögn þá hefur maður lært margt, bæði í gegnum blaðamennskuna og sem almennur íbúi hér. Ég tel mig þekkja bæinn orðið býsna vel. Engu að síður lagðist ég í töluverða heimildavinnu, til að fara nú sem réttast með, þó að sagt sé að góð saga eigi aldrei að gjalda sannleikans. En Saga Sauðárkróks, Skagfirðingabók, Grettis saga og ýmsar bækur með vísum og ljóðum hafa reynst drjúgar heimildir,“ segir Kristín. Bætir við að fólk komið yfir miðjan aldur hafa verið áberandi í göngum þessa sumars. Hún segir að vegna rigningartíðar hafi þátttakan á stundum verið upp og ofan, en hærra sé þó stefnt í framtíðinni.

„Þetta sumar verður tilraun sem við höldum ótrauðar áfram með næsta sumar, já og raunar í vetur líka, ef hópar óska eftir.“

Vesturfarar og skáldin

Það auðveldaði Kristínu að skipuleggja sögugöngur að Sauðárkrókur er frekar ungur bær, er ekki nema um 140 ára og á þeim tíma hefur fólk verið duglegt að halda heimildum til haga og færa í letur. Saga Sauðárkróks eftir Kristmund Bjarnason er mikið verk sem markaði kaflaskil. Sögufélag Skagfirðinga gefur út Skagfirðingabók, sem kemur út árlega, og Byggðasaga Skagfirðinga sem Hjalti Pálsson skráir er komin út í nokkrum bindum og fleiri eru væntanleg. Þá er Ferðafélag Íslands nýbúið að gefa út aðra bók sína af þremur um Skagafjörð.

„Það var raunar hægur vandi að finna heimildir. Mín reynsla er sú að erfiðast sé að velja og hafna. Sama lúxusvandamál var raunar uppi á teningnum á Ströndum, þar sem ég fór nokkrar ferðir sem leiðsögumaður. Held að þar sé jafnvel meira til af rituðum heimildum en um Skagafjörðinn,“ segir Kristín Sigurrós og bætir við:

„Á þessu ferðalagi um bæinn koma ýmsar persónur við sögu. Einna vænst þykir mér um Gretti og Guðrúnu frá Lundi. Síðan er minnst á vesturfara, skáldin og listamennina, svo sem Geirmund Valtýsson og Eyþór Stefánsson. Ég er smám saman að viða að mér fleira og fjölbreyttara efni og um þessar mundir er ég talsvert að grúska í bókunum Jarðlagi í tímanum eftir Hannes Pétursson og Afdalabarni Guðrúnar frá Lundi.“

Vilja vita um daglegt líf

Í bæjargöngum sínum miðar Kristín Sigurrós upphaf bæjarsögunnar við árið 1872, en það ár var fyrsta íbúðarhúsið á Sauðárkróki reist. Sögu bæjarins má þó rekja alveg aftur til landnáms og fram til líðandi stundar.

„Það er algengt að ferðafólk vilji vita um daglegt líf okkar sem búum á stöðunum, við hvað við störfum, hvað við gerum í frítíma okkar og svo framvegis. Það eru líka til skemmtilegar sögur af samtímafólki en þær eru auðvitað vandmeðfarnari og þá kemur sér vel að hafa skráðar heimildir til að vitna í,“ segir Kristín Sigurrós.

„Mér finnst fjölbreytnin líka mikilvæg, það er að tala um söguna, náttúruna, jarðfræðina, þjóðsögur, bókmenntir og hvaðeina sem til er að moða úr. Þannig fyllir maður „út í eyðurnar með lífinu sjálfu“ eins og Sauðárkróksskáldið Hannes Pétursson segir einhversstaðar.“