Gunnhildur Svana Sigurðardóttir fæddist 21. október 1956. Hún lést 14. júlí 2014. Jarðarför hennar fór fram 22. júlí 2014.

Á leið okkar í gegnum lífið söfnum við minningaperlum um ánægjulegar stundir liðinna ára. Gunnhildur er ein af þessum perlum sem varðveitist í minningu okkar.

Kynni okkar hófust árið 1983 þegar hún gekk til liðs við Leikfélag Mosfellssveitar sem varð byrjun á margra ára vináttu og samstarfi. Hún varð strax einn af máttarstólpum félagsins, sinnti ýmsum störfum fyrir félagið, lék, sat í stjórn og sá um annað er gera þurfti fyrir uppsetningu leikverka. Gunnhildur og Pétur maður hennar fluttu í Mosfellssveitina, þegar sveitin var lítið og notalegt samfélag, sundurskorin af þjóðvegakerfi, örfoka melum og fellum sveitarinnar, og settu niður sitt bú í Tangahverfinu. Í litlu byggðarlagi reyndi oft meira á samheldni íbúanna en í stóru, öflugt og gott félagslíf skipti sköpum um það hvernig var að búa í slíku samfélagi. Og Gunnhildur átti sinn þátt í að auðga mannlífið í sveitinni með störfum sínum fyrir Leikfélag Mosfellssveitar.

Hún hafði ljúft og notalegt viðmót, sem gerði það að verkum að manni leið vel í návist hennar. Við sem unnum með henni í LM erum þakklát fyrir að hafa fengið að starfa með henni og njóta samvista við hana. Minningin um góðan félaga mun lifa í hjörtum okkar.

Kæra vinkona – það er ekki langt þetta korter sem við köllum líf, stundum breytist það í fimm mínútur.

Jón Sævar

Baldvinsson.

Með svanaflugi flýr hún

til fegri landa snýr hún

þar sól og sæla er vís

þar blómalund sér býr hún

mín blíða sumardís.

Ég heyri hörpuhljóminn

og himinglaða róminn

en hér er kalt og hljótt.

Ég sit með bliknuð blómin

og berst við langa nótt.

Með hryggð og sorg í hjarta

ég horfi á skuggann svarta

sem óðum yfir fer.

Ó blómadís mín bjarta

ég bið að heilsa þér.

(Jón Trausti)

Gunnhildur Svana Sigurðardóttir, hún Gunný okkar, er horfin á braut, farin til fegri landa þar sem við trúum að sé sól og sæla. Þar hefur hún nú búið sér blómalundinn.

Hátt er reitt til höggs. Yndisleg kona á „besta aldri“, full af lífskrafti og lífsgleði er hrifsuð burt af illvígum sjúkdómi. Eftir sitjum við hnípin og hljóð.

Gunnhildur var einstaklega hæfileikarík kona. Ung valdi hún sér kennarastarfið og var afar vinsæll kennari. En hún kom víðar við. Leiklistin heillaði hana, hún lék með Leikfélagi Mosfellssveitar í fjölda ára og var formaður félagsins um árabil. Hún var einn af stofnendum Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga, sem starfað hefur að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal í tíu ár.

Tónlistin skipaði stóran sess hjá Gunnýju, mikið var hún búin að syngja í leikhúsinu og nú seinni árin höfum við, frænkur frá Kussungsstoðum í Fjörðum, haldið úti litlum kór, sem við auðvitað köllum Frænkukórinn Fjörðurnar. Þar var Gunný hin sterka stoð. Hún hafði einstakt tónnæmi og að auki kunni hún alla texta. Þennan litla kór skipuðu frænkur allt frá fermingu til sjötugs og vorum við flestar um 15. Söngæfingar voru teknar hæfilega hátíðlega og sannarlega höfum við notið þess að syngja saman og vera saman. Gunný mætti á æfingar meðan kraftar leyfðu. Hún var sterk stoð.

Hun var líka sterk stoð fjölskyldunnar. Pétur og synirnir, Siggi og Halli, nutu ástríkis hennar og seinni ár barnabörnin sem hún dáði mjög og það var sannarlega gagnkvæmt.

Foreldrum sínum var Gunný ákaflega góð og hugulsöm dóttir. Kolbrún móðir hennar lést fyrir fáeinum árum og það tók á, þær voru afar nánar. Minn kæri bróðir Sigurður sér nú á eftir dóttur sinni yfir í annan heim. Eg bið honum blessunar.

Gunný er sú þriðja sem fellur frá af þessum litla kór. Fyrr eru látnar Ingileif Thorlacius og systir hennar, Sólveig, féll frá nú í júní sl. Við hörmum brotthvarf þessara mætu kvenna.

Kæri Pétur, Siggi Halli, tengdadæturnar og barnabörnin, bræðurnir Bragi og Þórður, aðrir aðstandendur. Guð styrki ykkur í sorginni.

Ég flyt ykkur innilegustu samúðarkveðjur frá fjölskyldum okkar systkina frá Hléskógum.

Gunný lifir með okkur, tignarleg, glöð, falleg og góð og sífellt gefandi. Farvel, mín blíða sumardís.

Laufey

Egilsdóttir.