[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Ríkisstjórnin hefur í megindráttum náð niðurstöðu í fjárlagagerð fyrir árið 2015, þar sem áfram er stefnt að aðhaldi í ríkisfjármálum og að fjárlögin verði afgreidd með nokkurra milljarða króna tekjuafgangi.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ríkisstjórnin hefur í megindráttum náð niðurstöðu í fjárlagagerð fyrir árið 2015, þar sem áfram er stefnt að aðhaldi í ríkisfjármálum og að fjárlögin verði afgreidd með nokkurra milljarða króna tekjuafgangi. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar verður kynnt í þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ágústmánuði.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur helsti ásteytingarsteinninn á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verið í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að breytingar á kerfinu verði í þá veru að efra þrepið, 25,5% virðisaukaskattur, verði lækkað að lágmarki niður í 24,5%. Á móti vilja þeir að neðra þrepið, 7%, verði í áföngum hækkað. Fyrst í 11% og síðar í 14%.

Þessu er a.m.k. stór hluti Framsóknarflokksins andvígur og hefur lýst þeirri afstöðu sinni að standa verði vörð um lágt matvöruverð, en matvara er að mestu leyti í 7% þrepinu.

Má ekki vera eins og gatasigti

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið um þetta ágreiningsmál stjórnarflokkanna:

„Virðisaukaskattskerfið má ekki vera eins og gatasigti. Það eru of margar undanþágur í kerfinu í dag og bilið milli þrepanna er allt of mikið eða 18,5%. Slíkt getur skapað mjög neikvæða hvata til undanskots. Við viljum breikka skattstofninn, það þýðir að fleiri taki þátt í að borga virðisaukaskatt, t.d. ferðaþjónustan í ríkari mæli, en við getum þá líka lækkað efra þrepið á móti. Það þarf að vanda til við útfærsluna og við gerum ráð fyrir að koma þurfi til móts við þá tekjulægstu með sértækum aðgerðum vegna hærri matarkostnaðar, en ég tel lágan virðisaukaskatt á matvæli mjög ómarkvissa leið til að styðja við tekjulága. Það má í raun segja að það séu hinir efnameiri sem njóti frekar góðs af þessu því rannsóknir sýna að það er tiltölulega lítill munur á því hvað einstakir launahópar verja háu hlutfalli launatekna í matvæli,“ sagði Bjarni og benti á að breytingin væri í grunninn ekki hugsuð sem tekjuöflunaraðgerð heldur kerfisbreyting sem myndi tryggja skilvirkara kerfi til framtíðar.

„Þetta er stórmál fyrir skattkerfið, eitt skref af mörgun sem ég vil vinna að til að gera skattkerfið sanngjarnara og einfaldara og mun ryðja brautina til lækkunar á öðrum beinum sköttum,“ sagði fjármálaráðherra.

Þarf að ræða mjög vel

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra var spurð hvort hún teldi að samkomulag tækist á milli stjórnarflokkanna um breytingar á virðisaukaskattskerfinu: „Ég tel mjög mikilvægt, hvað varðar stóru málin í fjárlagafrumvarpinu, að stjórnarflokkarnir hafa náð saman. Það hefur komið fram í málflutningi beggja flokka mikilvægi þess að einfalda starfsumhverfi atvinnulífsins og líka það sem sneri að skattkerfinu. Hvað mig varðar tel ég mjög mikilvægt að breytingar á skattkerfinu komi ekki niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna og það sé algjörlega ljóst að allar breytingar sem snúa að matarskattinum þarf að ræða mjög vel,“ sagði félagsmálaráðherra.

Sjálfstæðismenn vilja einnig afnema almenn vörugjöld en það kann að setja frekari lækkun efra þrepsins skorður og mun það þá í mesta lagi lækka um 1% að sinni.

Fulla trú á samstöðu

„Ég hef fulla trú á því að samstaða náist á milli stjórnarflokkanna til þess að einfalda og gera virðisaukaskattskerfið skilvirkara,“ sagði fjármálaráðherra og benti jafnframt á að ekki væri verið að hugsa um þessar kerfisbreytingar til að auka tekjur ríkissjóðs, heldur til þess að gera skattkerfið gegnsærra og skilvirkara. Hann benti á hversu miklu máli það myndi skipta fyrir almenning í landinu að fá 1% lækkun á allar vörur og þjónustu, fyrir utan matvæli.

Hann sagðist jafnframt telja að þessar hugmyndir ættu góðan stuðning hjá öðrum flokkum á þingi.

Freistingar til að svindla

„Það er alveg ljóst, að ekki þýðir að skilja matvöruna eftir í 7%, sem hefði í för með sér að efra þrepið gæti ekki lækkað því það hefði í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð að lækka efra þrepið án þess að hækka það neðra,“ sagði heimildamaður blaðsins.

Annar viðmælandi Morgunblaðsins bendir á að virðisaukaskattskerfið sem tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð hafi verið að gefa eftir vegna þess að allt of mörg göt hafi verið boruð á það og það séu svo miklar freistingar til þess svindla á kerfinu. Hann bendir á stóraukna kortaveltu og vísar m.a. í frétt Rannsóknaseturs verslunarinnar um stóraukna kortanotkun útlendinga hér á landi. Þar sagði m.a.: „Mest aukning var í ýmsum skipulögðum ferðum eins og hvalaskoðun, ferðum með leiðsögn og öðrum tegundum pakkaferða. Í þeim flokki var 64% aukning og greiddu ferðamenn með kortum sínum 2,5 milljarða í júní.“ Hann telur að virðisaukaskattur af þeirri notkun skili sér ekki nema að hluta í ríkissjóð.